c

Pistlar:

7. janúar 2022 kl. 12:10

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Trúaróeirðir í Frakklandi í aðdraganda kosninga

Það verður kosið um forseta í Frakklandi í apríl á þessu ári. Augljóslega munu margir horfa til kosningabaráttunnar og þá sérstaklega þeirra málefna sem verður tekist á um. Að mörgu leyti verður þjóðfélagsgerðin undir en víða má sjá merki um klofning meðal frönsku þjóðarinnar sem birtist í vaxandi átökum og ofbeldi. Ein birtingamynd þess lýtur að kirkjunni en við jólamessuhald víða um Frakkland töldu menn nauðsynlegt að hafa vopnaða verði. Í aðdraganda jólanna hafði verið ráðist gegn skrúðgöngu kristinna til heiðurs Maríu guðsmóður sem setti ugg að mönnum. Það og ýmsar viðvaranir stuðlaði að því að frönsk yfirvöld töldu nauðsynlegt að gæta öryggis kristins fólks um jólahátíðina með því að senda herinn á vettvang. Staðreyndin er sú að árásir og skemmdaverk á kaþólsku kirkjuna eru tíð og virðast heldur fara vaxandi. Það kemur til viðbótar því ástandi sem gyðingar þurfa að þola en sumir forystumanna þeirra telja að þeim sé varla vært í Frakklandi, slík sé tíðni ofbeldisverka gagnvart þeim. Á það hefur áður verið minnst í pistlum hér.kirkjabrenn

Íkveikjur ógna kirkjum

Edouard de Lamaze, forseti Athugunarstöðvar trúararfleifðar (Observatoire du patrimoine religieux), í París hefur bent á að það láti nærri að ein kirkjubygging fari úr notkun í Frakklandi á tveggja vikna fresti. Hann var með þessu að reyna að vekja athygli franskra fjölmiðla á því að trúarbyggingar hverfa smám saman í landi sem er þekkt sem „elsta dóttir kirkjunnar“ í kjölfar þess að mervíkingurinn Clovis I, konungur Franka, tók kaþólska trú árið 496. Við getum þó sagt að það sé borð fyrir báru þar sem talið er að um 50.000 kirkjur séu í Frakklandi.

En nú er hún Snorrabúð stekkur, trúarbyggingar hverfa, ýmist vegna niðurrifs, notkun þeirra er breytt eða það er einfaldlega kveikt í þeim. Í meirihluta þeirra tilvika þegar eldur kemur upp í kirkjubyggingum er talið að um íkveikju sé að ræða. Ákall Lamaze um aukna vitund kom eftir að eldur eyðilagði 16. aldar kirkju Saint-Pierre í Romilly-la-Puthenaye, í Normandí, Norður-Frakklandi. Eldsvoðinn átti sér stað 15. apríl síðastliðin, nákvæmlega tveimur árum eftir eldinn sem lagði Notre-Dame dómkirkjuna í París í rúst. Ekki er vitað um orsakir hans.

Samkvæmt nýjustu tölum frá gagnagrunni glæpaleyniþjónustunnar í Frakklandi voru 877 árásir á kaþólska tilbeiðslustaði skráðar víðs vegar um landið árið 2018 eingöngu. „Þessar tölur hafa fimmfaldast á aðeins 10 árum,“ sagði Lamaze og benti á að skemmdarverk hafi verið framið á 129 kirkjum árið 2008.bilar brenna

Skemmdaverk færast í aukanna

Skemmdaverk hverskonar hafa hins vegar færst í aukanna í Frakklandi á undanförnum áratugum. Grafir gyðinga hafa verið vinsæl skotmörk. Íslenskir fjölmiðlar hafa öðru hvoru sagt fréttir af þessu. Síðustu tvo áratugi hefur það verið hefð að kveikt sé í bílum víðsvegar í Frakklandi á gamlárskvöld, stundum bíða þúsundir brenndra bíla eigenda sinna á nýársdag eftir óöldina. Talað er um að óvenju lítið hafi verið um slíkar brennur núna en einungis var kveikt í 900 bílum þessi áramót. Hugsanlega vegna þess að óvenju margir viðbragðsaðilar voru kallaðir til í Frakklandi vegna óeirða í tengslum við nýársfögnuði, þar af 32.000 slökkviliðsmenn og 95.000 þúsund menn alls. Gengi ungra manna af innflytjendaættum eru talin standa á bak við flestar þessara íkveikja.

Sérstakt átak hefur verið vegna ofbeldis gegn konum undanfarin ár, að hluta til undir formerkjum Metoo-hreyfingarinnar. Sérstakt vandamál er áreiti sem konur verða fyrir í almannarými en það hefur verið að aukast. Ljóst er að ofbeldi gegn konum mun verða hitamál í forsetakosningunum.

Það eru umrótstímar í frönsku þjóðlífi og margt sem stuðlar að því eins og farið var nokkuð rækilega yfir í pistli hér í upphafi árs. Blöndun ólíkra þjóðfélags- og trúarhópa setur álag á samfélagið sem það á erfitt með að bregðast við. Gestir í París eru varaðir við að fara inn í ákveðin hverfi og stöðugt færist í aukanna að heimilislaust fólk úr röðum innflytjenda og hælisleitenda hertaki umferðaeyjar og garða í París. Pistlaskrifari hefur séð þetta í í fleiri borgum Evrópu, almenningsgarðar verða að heimilum flóttafólks og breyta borgarmyndinni. Um allt þetta verður tekist á í forsetakosningunum í Frakklandi.