c

Pistlar:

9. maí 2022 kl. 16:42

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Fjölmiðlafrelsi á Norðurlöndunum

Noregur er í efsta sæti þegar fjölmiðlafrelsi er mælt í heiminum samkvæmt lista samtakanna Frelsis án landamæra sem gefin er út árlega (The World Press Freedom Index). Danmörk og Svíþjóð eru í öðru og þriðja sæti og Finnland í fimmta sæti. Ísland er í 15.sæti, á efir löndum eins og Jamaica og Seychelles-eyjar, mitt á milli Sviss og Þýskalands. Noregur fær 92,65 stig af 100 mögulegum, Ísland er allverulega lægra með 82,69 stig. Hvaða skýringar eru á þessum mun og er hann eðlilegur?ritstj

Pistlaskrifari hefur setið marga fundi með norrænum kollegum og Norðurlöndin hafa ávallt lagt áherslu á að koma fram sem ein heild gagnvart alþjóðlegum samtökum blaðamanna og nánast gert ráð fyrir að þau styðji hvort annað í öllum málum er þessi samtök varða. Mogens Blicher Bjerregard hefur gengt formennsku hjá Evrópusamtökum blaðamanna (EFJ) nokkur kjörtímabil með dyggum stuðningi íslensku samtakanna og einnig samtaka hinna norðurlandanna. Aðrar þjóðir líta á Norðurlöndin sem eina heild eða eina blokk. Um leið greiða norræn samtök blaðamanna háar upphæðir til hinna alþjóðlegu samtaka, meðal annars af því að stéttafélagsaðild blaðamanna er meiri þar en víðast annar staðar.

Í síðasta pistli voru nokkrar vangaveltur um þá staðreynd að Ísland fær lægri einkunn en hin Norðurlöndin og verður hér rýnt í einkunn hvers og eins lands. Einkunnargjöfin virðist byggjast á fimm mismunandi þáttum, pólitísku samhengi (political context), lagaramma (legal framework), efnahagslegu samhengi (economic context), félagsmenningarlegu samhengi (sociocultural context) og öryggi (safety).

Noregur í efsta sæti

Noregur er í efsta sæti á lista samtakanna Frelsis án landamæra og fá eftirfarandi umsögn: „Sú lagaumgjörð Noregs sem verndar fjölmiðlafrelsi er traust. Fjölmiðlamarkaðurinn er lifandi, þar er öflugt almannaútvarp og fjölbreyttur einkageiri með útgáfufyrirtækjum sem tryggja víðtækt ritstjórnarlegt sjálfstæði.“

Fyrir pólitískt samhengi fær Noregur 94.89, fyrir lagaramma er einkunnin 90.38, efnahagslegt samhengi gefur 92.23 í einkunn, félagsmenningarlegt samhengi gefur 93.71 og öryggi 92.03 í einkunn.

Almennt er norskt umhverfi friðsælt en norskir blaðamenn voru ekki undanskildir þegar hótanir hryðjuverkamannsins Anders Behring Breivik voru skoðaðar. Í gögnum honum tengd fundust hótanir í garð blaðamanna en þeir urðu aldrei fyrir barðinu á honum. Margir norskir fjölmiðlar juku öryggisgæslu sína og viðbúnað eftir árás Breivik 2011. Alvarleg hryðjuverk hafa átt sér stað í Noregi síðan og skemmst að minnast þess þegar fimm manns voru drepnir af bogamanni í Ósló á síðasta ári. Þeir sem voru myrtir virtust hafa verið valdir tilviljanakennt.

Morðið á Kim Wall í Danmörku

Danmörk er í öðru sæti og fær eftirfarandi umsögn: „Í þeirri kreppu sem hlaust af kórónaveirunni hefur hefðbundin rannsóknarblaðamennska notið góðs af auknum áhuga, sérstaklega á viðfangsefnum sem tengjast heilbrigðisþjónustu.

Fyrir pólitískt samhengi fær Danmörk 94.34, fyrir lagaramma er einkunnin 89.18, efnahagslegt samhengi gefur 83.67 í einkunn, félagsmenningarlegt samhengi gefur 91.17 og öryggi 92.97 í einkunn.

Þrátt fyrir góða einkunn þegar kemur að öryggi er ofbeldi gagnvart blaðamönnum ekki óþekkt í Danmörku. Þar er líklega morðið á sænsku blaðakonunni Kim Wall árið 2017 þekktast en óhætt er að segja að það hafi skekið skandinavískan blaðaheim. Danskir blaðamenn telja sig verða fyrir margvíslegum hótunum og talið er varasamt fyrir þá að starfa með áberandi hætti í sumum hverfum Kaupmannahafnar.pressfreedom

Morðhótanir daglegt brauð í Svíþjóð

Svíþjóð er í 3. sæti á listanum og fær eftirfarandi umsögn: „Sem fyrsta landið í heiminum til að samþykkja lög um fjölmiðlafrelsi hefur Svíþjóð jafnan notið mikla virðingu fyrir sjálfstæði fjölmiðla. Engu að síður eru blaðamenn áfram skotmörk hótana, hatursherferða á netinu og móðgandi málaferla.“

Fyrir pólitískt samhengi fær Svíþjóð 91.96, fyrir lagaramma er einkunnin 90.27, efnahagslegt samhengi gefur 87.66 í einkunn, félagsmenningarlegt samhengi gefur 90.18 og öryggi 84.14 í einkunn.

Svíþjóð fær talsvert lægri einkunn en Danmörk og Noregur þegar kemur að öryggi blaðamanna. Margvíslegt róstur hefur einkennt sænskt samfélag undanfarin ár sem meðal annars hefur leitt til harðari átaka á ýmsum svæðum. Sífellt fleiri svæði eru nú talin varasöm fyrir lögreglu, heilbrigðisstarfsmenn, fjölmiðlamenn og almenna borgara (e.no-go zones). Það eru svæði sem lögregluyfirvöld segja að „einkennist af lágri félagslegri stöðu þar sem glæpamenn hafa áhrif á nærsamfélagið“. Á síðasta ári var þremur nýjum slíkum svæðum bætt á lista lögreglunnar, öllum á Stokkhólmssvæðinu. Það eru Grantorp/Visättra í Flemingsberg og Fisksätra í Nacka, auk Valsta í smábænum Sigtuna, einni elstu og sögufrægustu borg Svíþjóðar. Tvö svæði voru um leið tekin af listanum.

Rannsóknir fræðimannsins dr. Dominic Hinde hafa dregið fram að morðhótanir séu daglegt brauð fyrir blaðamenn í Svíþjóð. Ofsóknir, hótanir og ofbeldi gagnvart sænskum blaðamönnum virðast ýmist tengjast samtökum hægri öfgamanna, skipulegum glæpahópum og innflytjendahópum. Í grein Hinde eru rekin allmörg tilfelli um þetta. Dominic Hinde er skoskur fræðimaður sem meðal annars hefur rannsakað ofbeldi gagnvart fjölmiðlamönnum.

Morð og hótanir í Finnlandi

Finnland er í 5. sæti á listanum og fær eftirfarandi umsögn: „Finnland er eitt af fáum löndum þar sem fjölmiðlar eru sannarlega frjálsir. Fjölmiðlafrelsi hefur stöðugt verið eflt allt frá því að fyrsta löggjöfin um bann við ritskoðun var samþykkt - undir sænskri stjórn - sem sú fyrsta í heiminum árið 1766.“

Fyrir pólitískt samhengi fær Finnland 90.40, fyrir lagaramma er einkunnin 86.64, efnahagslegt samhengi gefur 82.03 í einkunn, félagsmenningarlegt samhengi gefur 90.77 og öryggi 92.26 í einkunn.

Lagaleg og efnahagsleg staða finnskra fjölmiðla dregur frelsiseinkunnina niður en öryggi blaðamanna er metið talsvert betra en í Svíþjóð. Hafa verður þó í huga að fyrstu helgina í febrúar stóðu blaðamenn, lögreglumenn og þingmenn frammi fyrir áður óþekktum hótunum og hótunum frá þátttakendum sem tóku þátt í mótmælum í Finnlandi bílalest í höfuðborg Helsinki. EFJ gekk til liðs við samstarfsaðila sína í Finnlandi, Finnska blaðamannasambandið (UJF) til að fordæma hvers kyns ofbeldi í garð blaðamanna og fjölmiðlastarfsmanna.

Þá stoppa margir við að tvær ungar finnskar blaðakonur voru skotnar til bana í bænum Imatra árið 2016. Árásin var tilviljanakennd og ekki talin hafa beinst að störfum þeirra.

Ísland er hvergi ofar en í 13. sæti í einkunn, talsvert fyrir neðan hin Norðurlöndin á flestum sviðum. Fyrir pólitískt samhengi fær Ísland 86.21, fyrir lagaramma er einkunnin 82.68, efnahagslegt samhengi gefur 65.56 í einkunn, félagsmenningarlegt samhengi gefur 87.50 og öryggi 91.50 í einkunn. Það má alvarlega velta fyrir sér hvort það sé rétt að greina Ísland svona langt frá hinum Norðurlöndunum.