c

Pistlar:

17. júní 2022 kl. 11:36

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Fiskurinn hverfur og kvikmyndastyrkir fljúga út

Alþingi samþykkti á lokadögum sínum opin tékka til endurgreiðslu vegna kvikmyndaframleiðslu. Við litlar athugasemdir, að séð verður, hugsanlega þarf að endurgreiða kvikmyndagerðarmönnum tvo til þrjá milljarða á ári. Það er þá til fólks sem kemur margt hvert fljúgandi til landsins á einkaþotum. Fréttablaðið í skrifum sínum virðist fagna þessu.

Á sama tíma kvarta margir yfir því að sjávarútvegurinn greiði ekki nóg til samfélagsins þó hann sé eina atvinnugreinin sem greiðir sérstakt auðlindagjald þegar allar aðrar skattgreiðslur hafa verið inntar af hendi. Fréttablaðið birtir frétt eftir frétt um að hægt sé að greiða ofurháar fjárhæðir sem eru úr tengslum við raunveruleikann eins og rakið hefur verið hér. Nú blasir hins vegar við að samdráttur er framundan í sjávarútvegi. Ný veiðiráðgjöf Hafrannsóknarstofnunar er áfall fyrir íslenskan sjávarútveg. Athygli vekur að ekki er frétt um ráðgjöfina á síðu Matvælaráðuneytisins sem fer með málefni sjávarútvegsins.fisksala

„Áfallið er mikið og allar forsendur í okkar rekstri eru breyttar. Ég tel ráðgjöf Hafró heldur ekki raunhæfa, enda er hún byggð fremur á kennisetningum en þeim ítarlegu rannsóknum sem þarf að gera,“ segir Guðmundur Smári Guðmundsson, framkvæmdastjóri G. Run í Grundarfirði í samtali við Morgunblaðið í dag. Um starfsemi G.Run hefur verið fjallað hér í pistlum.

Eins og fram hefur komið leggur Hafrannsóknastofnun til 6% lækkun aflamarks í þorski á því fiskveiðiári sem hefst 1. september næstkomandi. Því gæti kvótinn farið í um 209 þúsund tonn, en nú eru heimildirnar rúm 222 þúsund tonn.

Mikil umsvif í þorskvinnslu og karfa

Þessi niðurstaða hittir fyrirtæki eins og G.Run illa en þar hefur vinnsla á þorski verið stór þáttur í starfseminni en fyrirtækið fór í miklar fjárfestingar fyrir nokkrum árum. Einnig hefur fyrirtækið verið umsvifamikið í karfa, en þar verða veiðiheimildir á komandi fiskveiðiári skertar um 20% milli ára. Það segir sig sjálft hve mikið áfall það er.

Nýtt fiskvinnsluhús G.Run var tekið í notkun árið 2019 og miðað við full afköst geta þar farið í gegn um 6.300 tonn af fiski árlega. Framleiðslan í dag nær því að vísu ekki og vinnslan liggur niðri í um tvo mánuði á ári yfir hásumarið. Skerði sjávarútvegsráðherra veiðiheimildirnar í samræmi við fyrirliggjandi ráðgjöf, býst Smári við í samtali við Morgunblaðið að fiskmagn sem fer í gegnum húsið á ári fari niður í um 4.500 tonn. Slíkt þýði þá að sumarstoppið lengist úr tveimur mánuðum í þrjá og að inntekt fyrir afurðir dragist saman um hundruð milljóna króna.

Einnig gæti þurft að fækka starfsfólki, en í dag eru starfsmenn G. Run til sjós eða lands um 90 talsins. Talsverður hluti af því er fólk frá öðrum löndum, sem hefur sest að á Íslandi.jul

Niðurskurður framundan í sjávarútvegi

„Sjávarútvegurinn þarf núna að skera niður og víða úti um land má búast við meiriháttar atvinnuleysi. Fyrir nokkrum árum endurnýjuðum við skip og byggðum nýtt frystihús og vörðum til þessa á fjórða milljarð króna. Uppbygging þessi var þó öll í samræmi við að veiðiheimildir yrðu svipaðar og verið hefur undanfarin ár. Ég bjóst aldrei við þessari hrikalegu skerðingu bæði í þorski og karfa sem nú virðist blasa við,“ segir Smári við Morgunblaðið.

Athygli vekur gagnrýni Grundfirðinga á rannsóknir Hafró á fiskistofnunum. Smári telur þær mjög takmarkaðar og of litlu til þeirra varið. Þær taki sömuleiðis í of ríkum mæli mið af viðmiðum Alþjóðahafrannsóknaráðsins í Kaupmannahöfn og þurfi að vera eftir þess viðmiðum. Þetta hlýtur að kalla á umræðu innan sjávarútvegsins því allt veltur á aðferðafræði og talnanotkun Hafró. Fleiri en Grundfirðingar hafa orðið til að gagnrýna veiðiráðgjöfina.

„Ráðgjöf fiskifræðinga nú, sem var kannski ekki óvænt, felur í sér mikil vonbrigði. Segir okkur að tilraunir síðustu ára til þess að byggja upp sterkan þorskstofn hafi mistekist. Þetta allt kallar á umræðu og breytt vinnubrögð, eins og útgerðarmenn ræða nú,“ segir Smári.