c

Pistlar:

21. júní 2022 kl. 19:01

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Upplýsingar og stefnumótun í hælisleitendamálum


Segja má að málefni útlendinga og hælisleitenda séu einhver vandasömustu mál sem hvíla á samfélögum í Vestur-Evrópu og Norður-Ameríku. Eins og bent var á hér í grein í upphafi árs var talið að um 85 milljónir manna væru þá á faraldsfæti undir formerkjum flóttamanna. Það var áður en stríðið í Úkraínu hófst en það hefur í för með sér að stór hluti hinna 44 milljóna manna sem þar búa hafa flosnað upp frá heimilum sínum þó flestir séu enn innan landamerkja Úkraínu.

Leitnin er sú að flóttamenn leita í flestum tilfellum frá suðri til norðurs og þá sérstaklega í Vestur-Evrópu og Norður-Amaríku. Miklar hættur fylgja för þeirra og er talið að á milli 20 og 25 þúsund manns hafi farist á Miðjarðarhafinu síðustu 10 árin eða svo. Einungis á síðasta ári er talið að um 1500 manns hafi drukknað í Miðjarðarhafinu en um 67 þúsund manns skolaði upp að strönd Ítalíu sama ár en Ítalir hafa í fæstum tilfellum náð að sinna þessum flóttamönnum sem hópa sig saman víða um Ítalíu og reyna stöðugt meira á þolinmæði heimamanna. Um 170 manns eru taldir hafa drukknað á Ermasundinu á sama tíma. Fyrir stuttu drukknaði hátt í 30 manna hópur þar en mikill fjöldi flóttamanna dvelst Frakklandsmegin við Ermasundið í von um að komast yfir. Í maí varaði stjórnmálamaðurinn Nigel Farage við því að trúlega myndu 100.000 manns koma til Bretlands frá Frakklandi á uppblásnum gúmmíbátum á yfirstandandi ári og sækja um landvistarleyfi. Bretar hafa verið að reyna fyrir sér með að senda hælisleitendur til Rwanda með flugi en Mannréttindadómstóll Evrópu hefur stöðvað það, í það minnsta fyrst um sinn.flótta

Bretar eiga nú þegar í miklum vandræðum með að hýsa allan þann fjölda hælisleitenda er til þeirra leitar. Nýlega var ákveðið að hýsa allt að 1.500 karlkyns hælisleitendur í yfirgefinni herstöð í smáþorpinu Linton-on-Ouse nálægt York. Með því vildi ríkisstjórnin spara sér kostnað við að hýsa hælisleitendurna á hótelum en íbúarnir mótmæltu harðlega þessu „opna fangelsi úti í sveit“ þar sem þeir sjálfir yrðu í minnihluta og sendu bæði forsætisráðherra og innanríkisráðherranum mótmælabréf.

Ársskýrsla Útlendingastofnunar

En eins mikilvægt og flótta- og hælisleitendamál eru þá er erfitt að ræða stefnumótun til lengri eða skemmri tíma. Meðal annars vegna þess að ekki liggja fyrir nægar upplýsingar og kostnaðartölur eru í mörgum tilfellum faldar víðsvegar í bókhaldi hins opinbera. Nú er nýlega komin á netið ársskýrsla Útlendingastofnunar vegna ársins 2020. Skýrslan vekur eftirtekt vegna þess að þar er lítil sem enginn texti og þar en hvorki að finna formála eða inngang frá forstjóra stofnunarinnar eins og oft tíðkast. Skýrslan inniheldur fyrst og fremst tölfræðilegar samantektir, oft heldur fátæklegar. Það sýnir kannski það umsáturástand sem ríkir um stofnunina og einhliða umræðu um hennar störf að ekki skuli meiri upplýsingar fylgja. Segja má að nokkuð stöðugt sé veist að starfsmönnum og starfsemi stofnunarinnar og hún gerð tortryggileg fyrir störf sín.

Hjá Útlendingastofnun störfuðu 86 manns árið 2020 og rekstrarkostnaður nam í heildina ríflega 3,4 milljörðum króna, hafði hækkað um ríflega 100 milljónir frá árinu áður. Hallarekstur var upp á 530 milljónir króna árið 2019 en árið 2020 var afgangur af rekstrinum. Það er ekki vandalaust að meta hve miklu er varið til útlendingamála á hverju ári þar sem kostnaðurinn er vistaður víða en stór hluti kostnaðarins birtist í reikningum Útlendingastofnunar. Nákvæmlega síðan hvaða kostnað almannatryggingakerfi landsmanna hefur af hælis- og flóttamönnum liggur ekki fyrir. Tæplega 1,5 milljarður króna fer frá Útlendingastofnun í aðkeypta þjónustu frá sveitarfélögum og Rauða krossi Íslands.

Færast fjölskyldusameiningar í vöxt?

Þar sem ársskýrslan er mjög knöpp í texta er oft erfitt að átta sig nákvæmlega á því hvað liggur að baki. Undanfarin misseri hefur mikið verið rætt um fjölskyldusameiningar en Danir hafa til dæmis hert mjög skilyrði þeirra á meðan sterkur orðrómur hefur verið um að þær hafi færst í vöxt hér á landi. 2020 eru þannig tæplega 2112 „aðstandendaleyfi“ veitt. Nánustu aðstandendur í skilningi útlendingalaga eru maki, sambúðarmaki, börn viðkomandi yngri en 18 ára á hans framfæri og í hans forsjá, ættmenni hans eða maka í beinan legg eldri en 66 ára og á þeirra framfæri (foreldri, afi, amma, langamma, langafi osfrv.). Fjölskyldusameiningar leggja aukaálag á velferðarkerfi enda fátítt að þeir sem komi í gegnum fjölskyldusameiningar taki með sér réttindi frá upprunalandinu. Þannig getur einstaklingur á eftirlaunaaldri, sem kemur hingað fyrir tilstilli fjölskyldusameiningar, færst inn á lífeyrisgreiðslur hér, óháð því hvort hann á rétt á slíku í heimalandinu.flótti

Á vef Útlendingastofnunar er haldið utan um margvíslega tölfræði, meðal annars umsóknir um vernd árið 2022, eftir ríkisfangi og mánuðum. Þar kemur fram að fyrstu fjóra mánuði ársins höfðu 877 Úkraínumenn sótt um vernd og 265 frá Venesúela en þaðan hefur mikill fjöldi fólks komið undanfarin ár. Engar skýringar liggja fyrir því af hverju þetta fólk sækir hingað enda um langan veg að fara frá Venesúela.

Hér eru nefnd nokkur dæmi um þær takmörkuðu upplýsingar sem finna má um kostnað af hælisleitenda- og útlendingakerfinu. Það á við um mörg svið, við vitum til dæmis ekki mikið um hve lengi kvótaflóttamenn dveljast þar sem þeim er komið fyrir í upphafi og við vitum lítið um menntunarstig eða atvinnuþátttöku hælisleitenda. Það er erfitt líf að vera hælisleitandi en mikilvægt fyrir þjóðir sem eru að reyna að móta sér stefnu að hafa allar kostnaðartölur á hreinu. Mikið vantar uppá það í umræðunni hér á Íslandi.