c

Pistlar:

26. júní 2022 kl. 12:05

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Að sigla í gegnum skaflinn

Hin hagfræðilega umræða dagsins í dag fer að mestu í að meta orsakir og afleiðingar þeirrar verðbólgu sem nú geisar í íslensku efnahagslífi sem og í nágranalöndum okkar. Um leið hefur Seðlabankinn hert verulega á vaxtaskrúfunni og keyrir upp stýrivexti í stórum stökkum, nú síðast með eins prósents hækkun í nýliðinni viku. Seðlabankastjóri er yfirheyrður í fjölmiðlum og ber sig vel, greiningardeildir reyna að rýna í framtíðina, fjárfestar skríða í felur og verkalýðshreyfingin reynir að móta kröfugerð. Á sama tíma birtist fjármálaráðherra og segir nokkuð keikur að efnahagsástandið sé að mörgu leyti ágætt á Íslandi. Því má segja nú sem áður, að þjóðinni líði að meðaltali nokkuð vel en margir eru vissulega að þola þung högg, bæði vegna hækkana á verðlagi, verðbólgu og vaxtahækkana.

Það er flestum augljóst að meginuppspretta verðbólgunnar eru erlendar kostnaðarhækkanir sem meðal annars byggjast á verulegum hrávöruverðshækkunum og truflunum á aðfangakeðjum hins alþjóðlega hagkerfis. Við getum svo reynt að meta hvort Úkraínustríðið eða kóvidfarsóttin bera meiri ábyrgð á ástandinu. En verðbólgan er er ekki eingöngu innflutt, við búum líka við erfitt ástand á fasteignamarkaði sem hefur skapað alvarlegan skort á húsnæði um leið og eftirspurn er veruleg. Verðlag á húsnæði hefur rokið upp úr öllu valdi og er til ævarandi skammar fyrir þá sem áttu að stýra þessum málum bæði á sveitastjórnarstigi og í ríkisstjórn. Lögmál fasteignamarkaðar eru ekki flókin en lausnirnar þurfa að vera margþættar eins og var vikið að hér í pistli fyrir skömmu.hagasg

Margt hagfellt í hagkerfinu

En það verður hins vegar að segjast að margt í hagkerfinu er okkur hagfellt og því má segja að það væru mikil vonbrigði ef ekki tekst að stýra efnahagsmálum í heila höfn, nú sem áður reynir á hagstjórnina. Ríkissjóður stóð óvenju vel eftir ótrúlegt uppgjör vegna slitabúanna, þó að hann hafi tekið á sig miklar skuldbindingar vegna kóvid stendur hann sterkur. Atvinnuleysi er í lágmarki og eftirspurn á vinnumarkaði sem gæti stutt við launakröfur fólks. Útflutningsgreinarnar standa sterkar sem aldrei fyrr og víða eru áhugaverð tækifæri að skapast í íslenska hagkerfinu ef við höfum gæfu til að nýta þau. Við Íslendingar erum hrávöruframleiðendur þegar kemur að orkufrekum iðnaði og fiski. Það hefur skilað okkur myndarlegum hækkunum og stutt við krónuna en hún hefur reynst stöðug og farsæl í þeim ólgusjó sem hefur ríkt undanfarið.

Úrlausnarefni sem bíða

Það er vissulega margvíslega óvissa sem blasir við. Erfitt er að sjá hvernig ferðaþjónustan réttir úr kútnum og hvort hún nær fljótt stöðu eins og var fyrir fall WOW. Það mun færa okkur myndarlegan tekjuauka en um leið leggja álag á innviði landsins. Vissulega höfum við haft nokkur ár til að byggja upp ferðamannastaði og auka við gistingu. Sem betur fer virðist fjármagn hafa runnið inn í slík verkefni þrátt fyrir kóvidtruflunina.

Innviðir landsins þarfnast uppbyggingar og þá sérstaklega vegakerfið en einnig flugvellir og móttaka ferðamanna. Óvissa hefur ríkt um orkumál landsmanna og hvernig staðið verði að uppbyggingu þar í framtíðinni en framtíðarhagvöxtur veltur á því hvernig til tekst eins og vikið var að hér í pistli.

Stærsta áskorunin er sem fyrr að skapa sátt um aðgerðir sem draga úr verðbólgu og þar skiptir vinnumarkaðurinn öllu máli. Vissulega þurfa stjórnvöld að vera vel á varðbergi gagnvart þeim hópum sem standa veikast fyrir þeim efnahagsbreytingum sem eru að eiga sér stað, svo sem leigjendur, fólk sem er að koma inn á fasteignamarkað, barnafólk og aldraðir. Gæta þarf að hagsmunum þessar hópa og ef það tekst ættum við að geta siglt nokkuð vel í gegnum þennan skafl.