c

Pistlar:

2. ágúst 2022 kl. 21:37

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Ofsóttur af Pútín

Kaupsýslumaðurinn Bill Browder vakti mikla athygli þegar hann sendi frá sér bókina Eftirlýstur (Red Notice) fyrir nokkrum árum í kjölfar baráttu sinnar fyrir því að koma Magnítskíjlögunum í gegn en þau hefta fjármálaleg umsvif nýríkra Rússa gríðarlega. Þau lög voru sett af Bandaríkjamönnum í kjölfar á morðsins á Sergej Magnítskíj, nánasta samstarfsmanni Browder í Rússlandi. Í framhaldi þess helgaði Browder sig baráttu gegn stjórn Pútíns, meðal annars í nafni Sergej Magnítskíj.

Bókin Eftirlýstur kom út hér á landi 2015 en hún sagði sögu Bill Browder, sem setti á laggirnar vogunarsjóð í Rússlandi á seinni hluta níunda áratugarins og lendir í framhaldi þess upp á kannt við Vladimír Pútin, forseta Rússlands, eftir ævintýralegan uppgang. Browder stýrði Hermitage Capital Management sem réði um tíma yfir 4,5 milljörðum Bandaríkjadala. Umsögn birtist um bókina hér á þessum vettvangi á sínum tíma. Bækur Browders eru mikilsvert innlegg í að skilja hvað hefur gengið á undir stjórn Pútíns síðasta áratug.ofsóttur

Armur Pútíns langur

Fyrri bókin var gríðarlega sláandi og því önnur bók vel þeginn en hún er sjálfstætt framhald. Hér er Browder að lýsa samskiptum sínum við rússneska stjórnkerfið sem með ótrúlegum hætti hefur ofsótt hann, meðal annars til að koma í veg fyrir lögfestingu Magnítskíjlaganna. Bókin byrjar eins og reyfari þegar hann er allt í einu handtekin í Madríd og svo virðist sem armur Rússlandsforseta nái þangað í gegnum Interpol og alþjóðlegt samstarf. Það er reyndar með ólíkindum að lesa um það hvað vestræn yfirvöld eru andvaralaus og grunnhyggin í samskiptum sínum við rússnesk yfirvöld og sá sem les bækur Browders undrast ekki hvernig nú er komið í Úkraínu. Líklega fer Browder næri sannleikanum þegar hann segir hreint út að Rússland undir stjórn Pútíns sé hreint og klárt glæparíki. En áður en innrásin inn í Úkraínu átti sér stað voru Rússar gildir og mikilsverðir þátttakendur í alþjóðlegu samstarfi, meðal annars í gegnum Interpol og því gátu þeir beitt margvíslegum aðferðum til þess að gera mönnum eins og Browder lífið leitt.

Eftirlátssemi við Pútín

Í raun er ótrúlegt til þess að hugsa hvað Vesturlönd hafa verið undanlátssöm og kosið að horfa undan þegar Pútín-stjórnin beitir sér, meðal annars með drápi rússneskra útlaga á götum stórborga Vesturlands. Þannig var ótrúlegt þegar Sergei Skripal og dóttir hans Yulia urðu fyrir taugeitri fyrir utan verslunarmiðstöð í Salisbury á Englandi fyrir nokkrum árum. Rússar virðast í flestum tilfellum haga sér eins og glæpaklíka og líklega þurfti Úkraínu-stríðið til að fá menn til að sjá það. Browder rekur þessi atvik öll og upplýsandi að fá þau sett í samhengi við framferði Pútíns-stjórnarinnar.

En Bill Browder hafi oft talað fyrir daufum erum þó barátta hans sé nú viðurkennd og menn hafi betur skilið hvaða kerfi var á peningaþvætti út úr Rússlandi. Sumar frásagnirnar eru ótrúlegar eins og þegar fjallað er um örlög Andrej Kozlov, stjórnarformanns seðlabanka Rússlands, sem að sögn Browders var einn fárra heiðarlegra rússneskra embættismanna. Andrej Kozlov var að koma af vináttukappleik í fótbolta á Spartak-leikvanginum í Moskvu seint að kvöldi 13. september 2006. „Þegar hann var á leið að bíl sínum á bílastæðinu gengu tveir vopnaðir menn að honum og bílstjóra hans og hófu að skjóta. Þeir urðu báðir fyrir mörgum skotum. Bílstjórinn lést samstundis en Kozlov, sem fékk skot í höfuðið, bringuna og kviðinn, lifði til að byrja með. Hann var fluttur á sjúkrahús númer 33 í Moskvu en lést þar á skurðarborðinu. Eftir lifðu eiginkona hans og þrjú ung börn þeirra,” skrifar Browder.Bill_

Böndin berast að Danske Bank

Skýring á þessari kaldrifjuðu aftöku fólgst í því að þremur mánuðum áður hafði Kozlov farið til Tallinn, höfuðborgar Eistlands, til fundar við yfirmann fjármálaeftirlitsins þar í landi. „Kozlov hafði uppgötvað meiriháttar peningaþvætti sem hófst í Rússlandi og flæddi um Sampo-bankann í Tallinn og hann vildi fá aðstoð við að stöðva það. Eistlendingarnir hlustuðu á hann en aðhöfðust ekkert. Peningaþvættið hélt áfram óhindrað. Fimm mánuðum eftir morðið á Kozlov var Sampo Bank yfirtekinn af stærri banka frá öðru landi. Hann hét Danske Bank,“ skrifar Browder.

Já, böndin bárust að dönsku bönkunum en skandínavískir bankar hafa sögulega séð gengt stóru hlutverki í Eystrasaltslöndunum. Browder segir að þetta sama útibú bankans hafi endaði á að þvætta 200 milljón dalina sem tengdust Magnítskíjmálinu, auk 8,3 milljarðanna sem blaðamenn áttu eftir að afhjúpa í skrifum sínum.

Ótrúlegar tölur

Skömmu eftir þetta birti Danske Bank loks niðurstöður endurskoðunar sinnar. Þar kom fram raunveruleg upphæð hins illa fengna fjár sem hafði streymt út úr Rússlandi og fyrrum Sovétríkjunum um þetta eistneska útibú á tíu ára tímabili. Upphæðin var himinhá, eða 234 milljarðar Bandaríkjadala!

Þetta eru ótrúlegar tölur og gríðarlegt áfall fyrir Danske Bank. Á árunum frá 2017, þegar byrjað var að fjalla um málið, til 2019, ári eftir endurskoðunina, tapaði Danske Bank 65 prósentum af markaðsvirði sínu. Thomas Borgen forstjóri varð að segja af sér ásamt flestum í stjórn bankans og loks hófst viðamikil sakamálarannsókn í Danmörku en um þessi mál var fjallað hér í pistli á sínum tíma.

Browder rekur þessa sögu samviskusamlega: „Á næstu mánuðum fundu rannsóknarblaðamenn tvo aðra banka á Norðurlöndum sem tengdust rússnesku peningaþvætti. Báðir voru sænskir. Annar var Skandinaviska Enskilda Banken, SEB, sem var talinn hafa þvættað 28 milljarða dala og hinn var Swedbank sem var talinn tengjast grunsamlegum millifærslum upp á 42 milljarða.“

234 milljarðar dala eru gríðarlegar upphæðir en þessi upphæð hafði þó aðeins farið um eitt útibú í einu landi í einum meðalstórum evrópskum banka. „Ég gæti trúað því, ef við fengjum að kanna alla vestræna banka, að við kæmumst að því að illa fengið fé sem hefur streymt frá Rússlandi eftir að Pútín komst til valda næði einni billjón dala (1000 milljörðum) og hugsanlega mun meira.“

Rússneskt peningaþvætti

Þetta er líklega kjarni málsins, þetta gríðarmikla rússneskt peningaþvætti sem hafði staðið árum saman og hlaut að hafa áhrif þegar upplýsingarnar lágu fyrir. Browder segir að mikilvægast var að við þetta brast stíflan í Evrópu. Innan við tveimur mánuðum eftir að endurskoðun Danske Bank birtist kallaði hollenska ríkisstjórnin saman öll aðildarríki Evrópusambandsins í Haag til að ræða Magnítskíjlög í Evrópusambandinu. „Magnítskíjlög í Evrópu var það versta sem Pútín gat hugsað sér. Þau hafði hann reynt að forðast umfram allt annað sem ég hafði unnið að. Ég er viss um að rússnesk yfirvöld ráku ákafan áróður gegn þeim…“eftir

En reyndu Rússar að stöðva Browder og höfðuðu höfðuðu nýtt sakamál á hendur honum, meðal annars fyrir að hafa stofnað „fjölþjóðleg glæpasamtök“ sem áttu að hafa myrt Sergej Magnítskíj með blöndu kemískra eiturefna sem innihélt meðal annars ál og leiddi til þess að hann fékk hjartaslag og leit út fyrir að hafa látist af eðlilegum orsökum. Lygaþvæla en allt er þetta með ólíkindum og hefur gerst fyrir framan nefið á vestrænum stjórnvöldum. Því ber að þakka baráttu Bill Browder og samverkamanna hans. Þeir hafa afhjúpað Pútín-stjórnina og ekki veitti af. Bækur hans eru eins og áður sagði mikilsverðar heimildir um samspil fjármála og glæpa sem umlykja Pútín-stjórnina.

Ofsóttur (Freezing Order - A True Story of Money Laundering, Murder, and Surviving Vladimir Putin's Wrath)

Höfundur: Bill Browder

Útgefandi: Almenna bókafélagið

Útgáfuár: 2022

317 bls.