c

Pistlar:

11. ágúst 2022 kl. 21:13

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Bókadómur: Heimur auðjöfra í Kína

Höfundur bókarinnar, Desmond Shum, ólst upp í fátækt í Kína en braust til mennta og auðlegðar. Bókin lýsir þjóðfélagsaðstæðum í Kína og rekur breytingar síðustu áratuga í gegnum sögu Desmond Shum (f.1968) og fjölskyldu hans en honum tekst með mikilli vinnu og þrautseigju að ljúka háskólaprófum í Bandaríkjunum. Í framhaldi þess haslar hann sér völl í hinu ört vaxandi viðskiptalífi Kína og tekur saman við hinna metnaðarfullu Whitney Duan sem lætur ekkert stöðva sig og væri líklega heldur ótrúleg skáldsagnarpersóna, svo einstök sem hún er. Sagan lýsir framgangi þeirra sambýlinga (hjónabandsstaða þeirra er heldur óljós) í þjóðfélagi sem er á efnahagslegri fleygiferð og þau eru sannkallað draumteymi og fara fljótt að láta sér kveða. Með því að mynda tengsl við æðstu meðlimi kínverska Kommúnistaflokksins, hina svokölluðu Rauðu aðalsstétt, komust þau brátt í hóp kínverskra milljarðamæringa sem eru ófáir. Á þessum tíma reistu þau meðal annars eitt fínasta hótelið í Bejing, gríðarstóra flugfraktaðstöðu á alþjóðaflugvellinum og fjármögnuðu ýmsar risaframkvæmdir.rulletta

Þetta er saga þotufólksins í Kína og þau Desmond og Whitney voru sannarlega áberandi, ferðuðust i einkaþotum og keyptu dýr hýbýli, farartæki, vín og listaverk. Í raun furðulegt og einstakt að lesa um óhófið sem fylgdi lífstíl hinna nýríku en hann virðist nauðsynlegur til að komast áfram í Kína. Samfélagið virkar óheilbrigt og við verðum að hafa í huga að Kína er ekki lýðræðisþjóðfélag og réttarríkið brothætt ef þá hægt er að tala um slíkt. Það birtist með skýrum hætti árið 2017 þegar urðu örlagaríkar breytingar á lífi þeirra. Desmond var þá erlendis með ungum syni þeirra þegar hann frétti að Whitney væri horfin ásamt þremur vinnufélögum. Síðast heyrði Desmond í henni í síma í sept­em­ber 2021 þegar hún varaði hann við af­leiðing­um þess að gefa út bókina sem hér er komin. Þau eru þá skil­in en Desmond og son­ur þeirra búa núna í Bretlandi. Segja má að kerfið sem þau áður voru svo dugleg að nýta sér hafi snúist gegn þeim.

Auður en ekkert lýðræði

Bókin minnir á bækur kaupsýslumannsins Bill Browders, sem fjallað hefur verið um hér í pistlum. Rétt eins og í ríki Pútíns hefur undarlegri útgáfu af ríkiskapítalisma verið gefinn laus taumurinn í Kína og síðan stuðlar hið ólýðræðislega stjórnarfar að því að allt snýst um í frændhygli og spillingu. Reyndar er með ólíkindum að lesa hvernig staðið er að ákvarðanatöku um fjárfestingar og hvernig allir sem geta nýta sér pólitísk áhrif til þess að skara eld að eigin köku. Þannig eru flestir úr stjórnmálaelítunni orðnir stórauðugir menn og svo virðist sem það sé látið viðgangast á meðan menn hafa réttu samböndin og umfjöllun verður ekki óhagstæð. Þetta nær alveg upp í efstu lög kínverska kommúnistaflokksins. En þetta er fallvalt eins og þau Desmond og Whitney fá að kynnast. Gæfan getur snúist gegn þeim sem ekki gæta sín.

Sagt er að kommúnisminn komi óorði á sjálfan sig, en kapítalistar komi óorði á kapítalismann! Það er stórundarlegt að lesa um það gríðarlega óhóf sem ríkir hjá hinni nýríku stétt Kína. Vissulega hefur stór hluti þjóðarinnar komist upp af stigi fátæktar en augljóslega fleytir auðstéttin rjómann ofan af. En til þess að það sé hægt verða menn að makka rétt og bókin lýsir í smáatriðum hvernig smyrja þarf réttu aðilanna. Ekkert gerist án þess að réttu mönnunum sé mútað.

Hvenær er nóg nóg?

Bókinni er því ætlað að svipta hulunni af ráðandi elítu í Kína og afhjúp hvað raunverulega gerist á bak við luktar dyr i fjármálaheiminum í þessu fjölmennasta ríki heims þar sem leynd og ógn hefur löngum verið ráðandi. Óhætt er að segja að hún geri það með ágætum þó stundum megi undrast hugsun og nálgun höfundar og erfitt er að fá mikla samúð með nýríku hjónunum, sérstaklega er það framferði og hegðun Whitney sem vekur furðu og erfitt að finna til hluttekningar gagnvart henni. Desmond Shum er líklega ágætur fulltrúi þessara nýríku manna sem leggja mikið á sig en hann virðist ekki með öllu vita til hvers þetta er allt þó hann verði seint talinn heimspekilegur í hugsun. Vangaveltur hans eru oft athyglisverðar þó þær séu stundum furðu barnalegar.

En hvenær er nóg nóg, spyr maður sig eftir lestur bókarinnar. Menn hafa stundum stytt sér stundir við að segja sögu af því er rithöfundarnir Kurt Vonnegut og Joseph Heller mættu eitt sinn í boð hjá bandarískum milljarðamæringi. Kurt hallaði sér að félaga sínum og sagði: „Hvernig líður þér með það, að gestgjafi okkar græddi meira í gær, heldur en þú fékkst allt í allt fyrir Catch 22?“ (Joseph er höfundur bókarinnar Catch 22)
Heller svaraði sallarólegur: „Ég hef eitt, sem hann eignast aldrei.“
„Hvað í ósköpunum gæti það verið?“, spurði Vonnegut.
„Nóg,“ ansaði Heller.auðkona

Skapandi auður

Bókin vekur þannig upp heimspekilegar vangaveltur um forsendur auðsöfnunar og setur fram áleitnar siðferðisspurningar, bæði um framferði einstaklinga en ekki síður uppbyggingu hins kapítalíska Kína. „Auður er afurð hæfileika mannsins til að hugsa. Er þá auður mannsins sem fann upp vél skapaður á kostnað þeirra sem ekki fundu hana upp? Er auður skapaður af gáfumönnum á kostnað hinna heimsku? Af hinum hæfu á kostnað hinna vanhæfu? Af hinum metnaðarfullu á kostnað hinna værukæru? Auður er skapaður - áður en hægt er að stela honum eða ræna honum - skapaður með striti heiðarlegra manna sem vinna hver samkvæmt getu sinni. Heiðarlegur maður er sá sem veit að hann getur ekki neytt umfram það sem hann framleiðir,“ segir Francisco d’Anconia í frægri „peningaræðu“ sinni í Undirstöðunni eftir bandaríska rithöfundinn og heimspekinginn Ayn Rand. Ræðu Francisco er teflt fram sem mótsögn við hið hefðbundna sjónarmið að „peningar séu rót alls ills“. Hann bendir á að peningar séu verkfæri viðskipta, sem aftur gerir ráð fyrir afkastagetu og hæfileikum til að búa þá til. Viðskipti með vörur og þjónustu eru það sem gerir líf mannsins á jörðinni mögulegt. En maður sér þessa ræðu (sem er talsvert lengri í heild sinni) í nýju ljósi eftir lestur á Rauðri rúllettu.

Nýríkt fólk fær líklega aldrei nóg eins og þessi bók sýnir okkur glögglega. Hún er áhugaverð yfirferð um hið kapítalíska Kína sem við öll fylgjumst með af vaxandi áhyggjum. Þjóðfélag sem virðist í senn hömlulaust og ómótað þegar gömul gildi hafa horfið og sósíalískur blekkingaleikur í stjórnarfari ræður öllu. Kína hefur stöðugt meiri áhrif á það hvernig hlutirnir ráðast í heiminum og því forvitnilegt og jafnvel nauðsynlegt að lesa bók sem þessa.


Rauð rúlletta/Kilja
Höfundur: Desmond Shum.
Þýðandi Jón Þ. Þór.
Útgefandi: Ugla
Útgáfuár:2022
360 bls.