c

Pistlar:

18. september 2022 kl. 20:43

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Vagg og velta í Napólí

Garibaldi var hryðjuverkamaður sem myrti konur og börn og barátta hans gerði ekkert gott fyrir okkur hér í Napólí, sagði Giorgio sem tók á móti okkur á íbúðahótelinu Dimora Donna Elena í gamla bænum í Napólí. Húsið er við götuna Calata Trinità Maggiore, sem liggur að Piazza del Gesú Nuovo, sem er í um 20 mínútna göngufjarlægð frá höfninni þar sem ferjan okkar frá Sorrento kom að landi. Við kusum reyndar að taka leigubíl sem reyndist vera í dýrara lagi, vildum ekki dragnast með töskur í gegnum mannhafið.nap1

Giorgio rekur þarna lítið íbúðahótel en sagðist vera að reyna fyrir sér í kvikmyndagerð jafnframt því að sinna rekstrinum. Giorgio er myndarlegur piltur, varla þrítugur að aldri og skeleggur eins og ummæli hans sýna. Hann skýrði hótelið í nafnið á ömmu sinni sem bjó í húsinu á sínum tíma og hefur búið allt innanhús einstaklega smekklega. Mynd af ömmu hans fylgir hér með en Giorgio notar fjölskyldusöguna sem myndefni á göngum hótelsins sem telur alls fimm íbúðir. Hann segir okkur að húsið hafi færst í hendur fjölskyldu hans fyrir nokkrum ættliðum síðan og nú sé hann að reyna að kaupa frændsystkini sín út úr eigninni til að ráða einn yfir þessu. Þú ert þá eigandinn segi ég en hann brosir leyndardómsfullur og segi að það fari eftir því hvernig litið er á málin. En augljósleg er þessi rekstur honum tilfinningamál, húsnæðið var í eina tíð í eigu aðalsfjölskyldu og íbúð okkar bar keim af því, hátt til lofts og innréttingar og efnisnotkun glæsileg og sama mátti segja um það sem er nýuppgert.amma

Fólkið í portinu

Það er reyndar merkilegt að sjá hvernig húsakostur sem þessi er uppbyggður. Þegar að er komið er gengið inn í stóran húsagarð sem hefur stæði fyrir sjö til átta bíla og frammi í portinu er einhverskonar varðskýli fyrir húsvörð. Portinu er lokað með risastórum miðaldahurðum sem virðast geta staðið af sér ýmislegt. Frá sjö á kvöldin til sjö á morgnanna er portið lokað en gestir fá lykil að litlu hurðaropi sem hægt er að skreiðast inn og út um. Inni í portinu sáum við 36 póstkassa og töldum því að þar væru jafn margar íbúðir. Utan á eitt húsanna sem lágu að portinu hefði verið sett upp lyfta en ein slík var inni í okkar húsi. Maður fær það fljótt á tilfinninguna að það sé sér heimur inni í hverju slíku porthúsi í Napólí og sjálfsagt eru íbúðirnar eins og ólíkar og þær eru margar.

Djarfir menn og forn frægð

Giorgio segist ekki vera af aðalsættum en tekur fram að Napólíbúar séu djarfir menn og honum er forn frægð bæjarins hugleikin. Eins og upphafsorð hans benda með sér er hann ekki hrifinn af brölti byltingarmannsins Giuseppe Garibaldi (1807-1882) sem er eignuð sameining Ítalíu á 19. öld eftir að hafa byltst um í Suður-Ameríku áður. Sagan eins og hún birtist á Wikipedíu fer mjúkum höndum um hann og þar er haft eftir breska sagnfræðingnum A. J. P. Taylor að Garibaldi væri „eina af aðdáunarverðustu persónum nútímasögunnar.“ Dálítið djörf fullyrðing frá sagnfræðingi, svo ekki sé meira sagt. Ég legg meiri trúnað á sögu Giorgio.

Það var ekki gæfuspor fyrir okkur hér í Napólí þegar Ítalía var sameinuð segir Giorgio. Hann bendir á að þegar sameiningin hafi átt sér stað hafi verið mikil og blómleg starfsemi í Napólí en sameiningin hafi birst þeim í formi borgarstyrjaldar sem margir útlendingar átti sig ekki á. Suðrið hafi tapað í stríðinu og norðrið tekið yfir. Giorgio er ekki einn um að halda þessu fram og fljótlega finnur maður ákveðna andúð í garð norðanmanna meðal íbúa við Napólí-flóa.nap3

Glæsileg saga

Giorgio bendir á að saga Napólí sé glæsileg og enn segist hann telja að hún ásamt Róm beri af öðrum borgum Ítalíu. Og vissulega er margt til í því, þó hún sé einnig kaótísk og villugjörn þegar ráfað er um og netleiðsögn ekki alltaf upp á það besta. En sagan er löng og mikil og mannlífið spennandi. Maður fær fljótt á tilfinninguna að Napólí sé marglaga (ekki bara að ein borg sé byggð ofan á aðra eins og er reyndin) heldur hafi hún margar miðjur. Við borðuðum á tveimur veitingastöðum við Piazza del Gesú Nuovo og sem áður reynist farsælast að borða pasta og drekka vín hússins, matur þarf ekki að vera flókin í borg eins og Napólí.

Í Sorrento sáust ekki betlarar en aðra sögu er að segja af Napólí. Þar má þá finna við kirkjur og á götum úti en engin amast við þeim þarna. Umferðin í Napólí er eins og mannlífið, dálítið tryllt og samhengislaus og enga sáum við rafmagnsbílanna. Hugmyndin um hamfarahlýnun er kannski framandi þarna á milli sofandi eldfjalla.