c

Pistlar:

26. september 2022 kl. 16:47

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Hvaðan á orkan að koma?

Hvaðan á orkan að koma er spurning sem flestar þjóðir heims spyrja sig þegar verið er að reyna að ráðast í orkuskipti í miðju stríði og efnahagskreppu. Við blasir að ráðamenn heimsins verða að sannfæra kjósendum sína um að þeir verði að breyta um lifnaðarhætti. Til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda finnst ekki önnur raunsannari lausn en að allur almenningur taki upp einfaldari lifnaðarhætti um leið og hagkerfi heimsins verða að nota og framleiða orku á skilvirkari hátt en hingað til. Hvað svo nákvæmlega fellst í þessu öllu er erfitt að vita nema söngkonan Björk geti vísað okkur veginn. Er lausnin að lýsa yfir neyðarástandi, og hvað svo mætti spyrja?virkj

En tal og yfirlýsingar um neyðarástand geta þó aldrei orðið hluti af raunverulegri lausn enda blasir við að ný orkuöflun þarf að koma til, ef draga á úr vægi jarðefnaeldsneytis með nýrri endurnýjanlegri orku. Í raun veit enginn hvernig það á að gerast, sérstaklega á meðan afstaða margra er neikvæð í garð kjarnorku. Er einhver glóra í að loka kjarnorkuverum til að ræsa upp kolaorkuver eins og gert er núna í Þýskalandi? Nú eða loka á nýtingu jarðgass og nota aðra meira mengandi orkugjafa?

Ísland í sviðsljósinu

Staða Íslands í orku- og loftslagsmálum var til umræðu á ráðstefnu í Washington DC í liðinni viku og var ágæt umfjöllun um það í Morgunblaðinu sem hér er meðal annars stuðst við. Ráðstefnan mun hafa verið skipulögð af hugveitunni Atlantic Council Global Energy Center, Grænvangi og sendiráði Íslands í Washington. Meðal þátttakenda voru Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra. Íslensku ráðherrarnir kynntu stefnumótun landsins og ræddu markmið Íslands í loftslagsmálum og varðandi sjálfbæra orkunýtingu.

Meðal ræðumanna var Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, sem rifjaði upp markmið íslenskra stjórnvalda í loftslagsmálum. Þau hefðu undirritað Parísarsamkomulagið um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda en jafnframt sett sér markmið um að hverfa frá jarðefnaeldsneyti fyrir 2040. Hörður sagði að Landsvirkjun væri í opinberri eigu og ynni að þessum markmiðum. En hann minnti jafnframt á að finna þurfi út hvernig þau geti orðið að veruleika en til þess þurfi að svara því hvaðan orkan á að koma.

Ný vindorka þarf að koma til

Ísland er eitt fárra ríkja Vestur-Evrópu sem ekki býr við orkukreppu en augljóslega þarf að virkja meira á Íslandi.  Hörður benti réttilega á að á Íslandi séu miklir möguleikar til vindorkuvinnslu og virtist hann þá vera að leita að þriðju stoðinni í orkukerfinu, ásamt jarðhita og vatnsafli. Landsvirkjun undirbúi slíka uppbyggingu og er ekki nema vindorku til að dreifa en áformum um uppbyggingu vindorkuvera hefur verið mætt af tortryggni og andúð til þessa. Það blasir við að vindorka getur nýst mjög vel með jarðhita og vatnsafli og aukið orku í kerfinu verulega. En vindorkuver eru frek á ýmis hráefni og endast miklu skemur en jarðhita- og vatnsorkuver en afskriftatími þeirra er mun lengri. Menn ættu að hafa það hugfast þegar lokað er á nýja kosti á þessu sviði. Þá er landslag tekið fram fyrir umhverfisvernd.

Það var athyglisvert að Hörður sagði heimsbyggðina standa frammi fyrir sameiginlegri áskorun við orkuskipti sem þjóðir heims gætu ekki leyst hvert í sínu horni. Ef hvert ríki ætli að huga fyrst og fremst að eigin hagsmunum, og orkusjálfstæði, sé baráttan töpuð. Benti Hörður í því efni á að mörg ríki geti ekki orðið sjálfbær með endurnýjanlega orku, meðal annars vegna takmarkaðs landrýmis. Hörður og aðrir íslenskir ráðamenn virðast hafa talað mjög fyrir tengingu íslenska orkukerfisins inn í það alþjóðlega.kjarnork

Áttfalda þarf framleiðsluna

Í frétt Morgunblaðsins var minnt á að Alþjóðaorkumálastofnunin (IEA) áætlaði fyrir loftslagsráðstefnuna í Glasgow í fyrra að ef heimurinn eigi að ná kolefnishlutleysi fyrir 2050 þurfi að áttfalda framleiðslu endurnýjanlegrar orku í heiminum. Hins vegar skorti nokkuð á stuðning almennings við uppbyggingu orkuinnviða. Fólk vilji ekki hafa þá í túnfætinum eins og við sjáum hér við tillögum um vindorkuver.

„Alþjóðlegt samstarf er gríðarlega mikilvægt en við verðum að ræða um stóra fílinn í herberginu [sem er spurningin um] hvaðan orkan eigi að koma,“ sagði Hörður og benti á að tæknin að baki rafeldsneyti og kolefnisförgun væri góð en orkufrek. „Og hvaðan á orkan að koma?“ spurði Hörður sem taldi orkutæknina hafa þróast mikið.

Allt eru þetta ágæta vangaveltur en framundan er erfitt verkefni fyrir íslensk stjórnvöld að fá almenning til að skilja að það þarf að halda áfram að virkja til að afla orku hér á landi til að viðhalda þeim lífsgæðum sem við búum nú við. Hér á þessum vettvangi hafa lengi birst vangaveltur um hvað þjóðin vilji í raun og veru í orkumálum, enn er þörf að meta það og skilja. Í þessari umræðu eins og annari má nefnilega greina mikla upplýsingaóreiðu.