c

Pistlar:

17. nóvember 2022 kl. 9:59

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Loftslagspáfar á ferð og flugi

Loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna (COP27) lýkur á morgun, föstudag, en hún hefur staðið yfir í Sharm El-Sheikh í Egyptalandi eins og fjallað hefur um hér. Talið er að á milli 40 og 45 Íslendingar hafi lagt leið sína á ráðstefnuna, aðeins fámennari hópur en sótti ráðstefnuna í Glasgow í fyrra. Meðal ráðstefnugesta er Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands, sem hefur sótt loftslagsþing Sameinuðu þjóðanna allar götur síðan 1999. Einnig eru nokkrir fulltrúar frá félagi Ungra umhverfissinna en þeir eru styrktir til fararinnar af íslenska ríkinu. Íslenskir fjölmiðlar eiga engan fulltrúa á ráðstefnunni en bæði Árni og fulltrúar unga fólksins hafa tekið að sér að túlka það sem hefur gerst þar í gegnum íslenska fjölmiðla. Það hefur ekki verið hlutlaus fréttaflutningur eins og gefur að skilja.SS á COP27

Síðustu daga hefur Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra verið á ráðstefnunni, eini íslenski ráðherrann sem hana sækir en hún vann sér það til afreka að selja enn á ný þá ákvörðun að ekki verði sótt jarðefnaeldsneyti í íslenskri landhelgi. Líklega er það sú ákvörðun sem VG liðar telja sig helst geta talið sér til tekna í dag þegar kemur að loftslagsmálum. Að sögn fréttaritarans Árna Finnssonar var gerður góður rómur að yfirlýsingu ráðherrans! Svandís greindi jafnframt frá auknum fjárframlögum Íslands til alþjóðlegra loftslagsmála án þess að tilgreint sé um upphæðir eins og það birtist á heimasíðu ráðuneytisins

Stefnumótastaður

Fundurinn í Sharm El-Sheikh mun ekki skila stefnumótandi ákvörðunum þó menn lofi hinu og þessu eins og íslenski ráðherrann gerði. En þarna er vinsæl stefnumótastaður. Mörg stórmenni heimsins hafa flotið framhjá Sharm El-Sheikh undanfarna viku og á myndskeiðum þaðan má sjá tilraunir þeirra til að tengjast og spjalla. Að sumu leyti var spaugilegast að fylgjast með sósíalistaforingjanum og fyrrum rútubílstjóra Nicolás Maduro, forseta Venesúela. Hann hefur lagt efnahag lands síns í rúst og hrundið milljónum manna á flótta, sumir hverjir koma alla leið hingað til Íslands. En hann þurfti að sína heimamönnum að hann væri maður meðal manna og á fréttamyndskeiðum má sjá hann sitja fyrir mönnum eins og Emmanuel Macron Frakklandsforseta og John Kerry fyrrverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna og nánast þvinga sig inn í samtöl við þá. Sést á myndum hve pínlegt þeim finnst að ræða við þennan pólitíska loddara, sérstaklega var það vandræðalegt fyrir Kerry sem hét fjármunum til höfuðs Maduro á sínum tíma. En svona sirkusar eru í hverju horni í Sharm El-Sheikh.maduro

Nýr reikningur á nýlenduveldin

Stöðugt þarf að endurnýja loftslagsumræðuna. Í Sharm El-Sheikh hefur verið rætt að láta vesturveldin fara að borga sérstaklega til vanþróaðri landa, hvað skilgreiningar sem menn nota þar. Í Afríku er menntað og metnaðarfullt fólk sem forðast það eins og heitan eldinn að kenna hvíta manninum eða nýlendusögunni um hvernig háttar til um í heimalöndum þeirra. Nú eru að verða einn mannsaldur síðan síðustu nýlendunum var skilað og sumum finnst að það sé ódýrt að reyna enn þann dag í dag að gera nýlendutímann ábyrgan fyrir því hvernig ástandið er núna. Sum þessi lönd halda uppi fjárkröfum enn í dag byggð á framferði fyrir tveimur til þremur mannsöldrum eða jafnvel enn lengra aftur í tímann.

Þannig var fyrir fundinum tillaga hóps þróunarríkja (G77) um að auðugri ríki heims greiði þeim umtalverðar fjárhæðir í „loftslagsskaðabætur“. Krafan er undarleg um margt enda umdeilanlegt hvort öll þessi lönd teljist til þróunarlanda. Morgunblaðið benti á að í þeirra hópi megi finna kjarnorkuveldi og lönd með geimferðaáætlanir, helstu olíuframleiðendur heims, nokkur auðugustu lönd heims miðað við landsframleiðslu á mann, lönd sem niðurgreiða kolefnisbruna í stórum stíl og risaveldið Kína, sem ber ábyrgð á um þriðjungi CO2 -losunar heimsins.

Loftslagsmálin í pólitíska hugmyndabaráttu

Ekkert af þessu kemur í veg fyrir að þessi lönd geri nú kröfur á hinn þróaða heim, sem vissulega var fyrri til iðnvæðingar, en hefur einnig verið í fararbroddi við að fara nýjar leiðir í iðnaði og orkunýtingu og þannig skapað þekkingargrunn fyrir þessi nýju ríki. „Kröfurnar eru í stuttu máli gerðar á Vesturlönd, sem hentar G77 vel og eyðir ábyrgð þeirra sjálfra. Þau eiga líka bandamenn á Vesturlöndum, sem taka undir kröfurnar af því að þær fara vel saman við kreddur um að draga úr vexti og neyslu. Sömu hugmyndir heyrast úr svipuðum hornum á Íslandi, oft hinum sömu og um leið krefjast aukinna lífsgæða og kaupmáttar,“ bendir leiðarahöfundur Morgunblaðsins á í vikunni.

Hann bendir einnig á að þessi krafa eða atlaga er ekki síður gegn kapítalismanum en ætlaðri loftslagsvá. Tengsl þessara hluta sjást vel í máli Gretu Thunberg, þekktasta aðgerðarsinna heims í loftslagsmálum, sem taldi tilgangslítið að mæta til Sharm El-Sheikh. Þess í stað hyggst hún einbeita sér að baráttu gegn „kúgunarkerfi“ vestræns kapítalisma. Nú hefur hún sent frá sér ritið The Climate Book þar sem hún fer augljóslega inn á nýjar pólitískar brautir. Loftslagsmálin eru þannig orðin að upptakti í nýmarxískri hugmyndabaráttu ef einhver heldur að það gagnist umræðunni. Hugsanlega er það ekki fjarri áhugasviði íslenska ráðherrans sem fór til Sharm El-Sheikh.