c

Pistlar:

21. nóvember 2022 kl. 20:17

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Er Katar hin nýja Róm?

Í eina tíð var sagt að allar leiðir lægju til Rómar. Höfuðborg rómverska heimsveldisins þandist út og varð áfangastaður frjálsra sem ófrjálsra manna. Þar risu stærstu byggingar heims og þar var mestur auðurinn og dýrðin. Svo undarlega háttar til að við Persaflóann er hin nýja Róm risin, sannarlega áfangastaður fyrir frjálsa og ófrjálsa. Heimsbyggðin horfir nú til smáríkisins Katars sem hýsir heimsmeistarakeppnina í knattspyrnu, stærsta íþróttaviðburð heims. Engu er til sparað og fjárhæðirnar sem hafa verið settar í uppbygginguna eru engu líkar og svo langt umfram það sem áður hefur verið kostað til þess að halda HM að það er ekki hægt að bera það saman.catar

Það má segja að það sé gráglettni sögunnar að haga því svo til að upp úr söndunum við Persaflóann kemur olían sem heldur hagkerfum heimsins gangandi og til þess að gera fámennur hópur karlmanna verður á stuttu skeiði í mannkynssögunni að ríkustu einstaklingum heims. Katar er ágætt dæmi um þetta, er á stærð við Þingeyjarsýslu með um þrjár milljónir manna innan landamæra en valdastéttin telur aðeins um 300 þúsund manns. Það er stéttin sem stýrir gríðarlegum auðæfum sem hún hefur meðal annars notað til að byggja upp framtíðarborgina Doha sem er eins og tekin út úr vísindaskáldsögu með skýjakljúfum og höllum á víxl. Nú má þar allt í einu sjá íþróttaleikvanga sem eru engu líkir þó þeir séu byggðir til skammtímanota sumir hverjir. Ekkert virðist utan seilingar fyrir hina ríku íbúa Katar, ef þeir vilja eitthvað þá fá þeir það.

Brauð og leikir

HM í knattspyrnu er ásamt ólympíuleikunum stærsti afþreyingarviðburður heimsbyggðarinnar. Á meðan á leikunum stendur er heimsbyggðin að horfa og þær þjóðir sem ráðast í að hýsa slíka viðburði gera það til að sýna mátt sinn og megin, bæði lýðræðisríki og þau ólýðræðislegu. Katar er eitt slíkt en einnig Kína og Rússland sem halda með reglulegu millibili stórviðburði. Reyndar er það svo að þau ríki sem uppfylla allar kröfur mannréttinda í dag eru furðu fá.

Margir undra sig nú á að þessu fyrirkomulagi, þar sem spillt alþjóðasamtök og ólýðræðislegar ríkisstjórnir ákveða að bjóða heimsbyggðinni upp á brauð og leiki. En þetta er engin nýlunda og ólíklegt eð þetta verði í síðasta skipti sem það gerist, einfaldlega vegna þess að virðing fyrir lýðræði og mannréttindum er ekki eins algengt og margir vilja halda. En ríkin við Persaflóann minna okkur einnig á annað og það er að siðir og venjur þar eru byggðar á einræði trúarinnar og bókstafstrú er normið í heimi íslam en ekki undantekningin eins og í heimi kristninnar. Því er dálítið öfugsnúið að nú vill heimsbyggðin fá heimamenn í Katar (arabaheiminum) til að fallast á vestræn gildi um mannréttindi en hafa um leið slegið af kröfum sínum um það sama í eigin heimaborgum þar sem íslömsk trú hefur nú fest rætur og stýrir nærumhverfi sínu eins og það væri við Persaflóann.hm katar

Inn með hið nýja - út með það gamla

Sú menning sem er að verða til í hinum olíuríka arabaheimi er um margt merkileg. Katarbúa greiða knattspyrnuhetjunni David Beckham 10 milljónir punda fyrir að vera knattspyrnusendiherra þeirra á meðan á HM stendur. Hlutverk hans er að kynna Doha sem dvalarstað, bæði til lengri og skemmri tíma. Beckham á sjálfur heimili þar og er ásamt öðrum vestrænu efnafólki heillaður af umgjörðinni. Persaflóaríkin eru að hugsa til framtíðar þegar þau geta ekki lengur treyst á olíuauðinn til að halda uppi lífsgæðum yfirstéttarinnar. Sá lífstíll er óhemju dýr og margir undrast hvað hægt er að eyða miklum fjármunum þarna, meðal annars í að byggja upp íþróttaheim sem á sér engar sögulegar forsendur. Annars staðar á þessum slóðum eru menningaminjar sprengdar og afmáðar úr sögunni og það á einnig við hinar fallegu gömlu borgir arabaheimsins.

En lausnin þegar olían hættir að gefa er að treysta á fjármálastarfsemi og ferðamennsku. Löndin við Persaflóann eru ágætlega staðsett, mitt á milli gamla heimsins og þess nýja og margir nýta þau þannig og stoppa þar ferðum til Asíu eða á leið til baka. Þá þarf enginn auðmaður að óttast eignaupptöku ef hann hagar sér þokkalega siðlega á almannafæri. Þarna við Persaflóann er hin nýja Róm að rísa.