c

Pistlar:

3. desember 2022 kl. 14:41

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Ofurskattlagning slátrar fiskeldinu í Noregi

Það er furðu sterkt og stöðugt ákall í þjóðfélagsumræðunni um að skattleggja og leggja auknar byrðar á atvinnulífið, sérstaklega sjávarútveginn. Þá ekki eingöngu til að afla þjóðfélaginu tekna heldur ekki síður til að skapa einhverskonar jöfnuð eða nú hreinlega að taka taka peninga frá þeim sem eru óverðugir að njóta þeirra. Hugtök eins og hvalreksskattur fljóta oft upp í þeirri umræðu án þess að það sé útskýrt sérstaklega. Hvalreki kom sér oft vel og um hann giltu sérstakar reglur sem voru síðan festar í Jónsbók. En hvalrekin krafðist mikillar vinnu því það þurfti að skera hvalinn, verka og vinna og tryggja geymslu hans. Oft ónýttist hvalurinn þegar menn gátu ekki unnið hann. Að bera fyrir sig þetta orð til aukinnar skattheimtu er því ekki eins einfalt og sumir halda.lax

Á þetta er minnt nú þegar sótt er fast að því að auka gjöld og álögur á sjávarútveg og fiskeldi. Undanfarið hefur verið ítrekað vitnað í hvernig frændur okkar Norðmenn skattleggja fiskeldi og margir orðið til að lýsa yfir velþóknun sinni með það. Nýleg og upplýsandi fréttaskýring í Morgunblaðinu afhjúpar ekki var allt séð fyrir þegar farið var í þá vegferð.

40% skattahækkun

Þann 28. september síðastliðinn tilkynnti norska ríkisstjórnin, undir stjórn Jonas Gahr Støre, forsætisráðherra Noregs, að hún myndi leggja fyrir norska Stórþingið til samþykktar frumvarp um nýja 40% grunnleigu á sjókvíaeldi þar í landi. Verði tillagan samþykkt verður frá og með 1. janúar 2023 innheimt grunnleiga sem bundin er vísitölu meðalverðs á laxi, en söluverði á urriða og regnbogasilungi. Gert er ráð fyrir að grunnleigan skili 3,65 til 3,8 milljörðum norskra króna í tekjur, jafnvirði um 49 til 51,3 milljarða íslenskra króna, sem skipt verði milli ríkis og sveitarfélaga.

Norska ríkið gerir ráð fyrir að grunnleigan, ásamt tekjuskatti lögaðila, geri það að verkum að jaðarskattar fiskeldisfyrirtækja verði 62%, en að skatthlutfallið verði 51,3%. Morgunblaðið vitnar til þess að á móti bendi fiskeldis- og vinnslufyrirtækin á að grunnleigan, sem lögð er til, bætist við hækkun auðlegðarskatts á framleiðsluleyfi sem hafa verið útgefin, hækkun tekjuskatts lögaðila, hærra framleiðslugjald og hærri auðlindaskatt. Það sé því í raun verið að leggja 80% skatt á sjókvíaeldið.

Fiskeldi Norðmanna í uppnám

Skattahækkunin hefur haft ýmsar hliðarverkanir sem ekki virðist hafa verið gert ráð fyrir við mótun tillögunnar segir í Morgunblaðinu. Því er það svo að tillaga norsku ríkisstjórnarinnar um að innleiða nýjan auðlindaskatt, svokallaða grunnleigu, á sjókvíaeldi hefur sett allan fiskeldisiðnaðinn í Noregi í uppnám, valdið efnahagslegum óstöðugleika (svipað og skattatillögurnar sem urðu til þess að Liz Truss varða að segja af sér sem forsætisráðherra í Englandi), gert landsbyggðafólk ævareitt og valdið verulegum breytingum á hinu pólitíska sviði.

Þetta hefur birst í því að fyrirtæki hafa hætt við fjárfestingar, gripið til uppsagna og norska ríkisstjórnin hefur þurft að minnka gjaldstofn nýs auðlegðarskatts sem og bæta upp hundruða milljóna tap norska fiskeldissjóðsins, Havbruksfondet.

Í kjölfar tilkynningar norsku ríkisstjórnarinnar um nýja grunnleigu af sjókvíaeldi hófu hlutabréf fiskeldisfyrirtækjanna, sem skráð eru í kauphöllina í Ósló, að falla. Hlutabréf félaganna SalMar, NRS, Lerøy Seafood, Mowi og Måsøval lækkuðu um 20%-29% morguninn eftir að upplýsingar um skattahækkanirnar lágu fyrir. Verðmæti félaganna dróst á einum degi saman um 44 milljarða norskra króna, eða um 632 milljarða íslenskra króna. Samhliða hafa fyrirtækin sett fjárfestingar fyrir um 24 milljarða norskra króna á ís.

Viðskiptablaðið greindi frá því að Helge Møgster, stór hluthafi í Austevoll og Lerøy, hefði tjáð fréttamiðlinum E24 að hann óttist að tillaga ríkisstjórnarinnar marki endalok frekari framþróunar í norska laxeldisiðnaðinum. Hann spáði því að auðlindaskatturinn muni leiða til þess að fólk muni flýja Noreg.lax2

Urðu af milljörðum

Úthlutun framleiðsluleyfa fer fram í gegnum uppboðskerfi í Noregi, sem tekið var upp fyrir nokkrum árum. Í aðdraganda uppboðs ársins í október hvöttu framleiðendur og vinnslustöðvar, í gegnum samtök sín Sjømatbedriftene og Sjømat Norge, norsk yfirvöld til að fresta uppboðinu í ljósi mikilla sviptinga á mörkuðum og óvissu vegna
áforma um auðlindaskatt. Ekki var tekið tillit til varnaðarorða greinarinnar og þegar útboðið fór fram 13. október fengust mun færri krónur í opinbera sjóði en gert var ráð fyrir.

Var því spáð, fyrir tillögu ríkisstjórnarinnar um auðlindaskatt, að útboðið myndi skila um tvöfalt meiri tekjum en raunin varð. Áætla samtök útgerðar- og fiskeldisfyrirtækja, Sjømat Norge, að norskt samfélag hafi orðið af um 4 milljörðum norskra króna, jafnvirði tæplega 58 milljarða íslenskra króna. Ríkisstjórnin varða að lofa að bæta tjón sveitarfélaga af misheppnuðu útboði með því að leggja 800 milljóna norskra króna viðbótarframlag í fiskeldissjóðinn.

Stórum hluta af tekjum sem fást við útboð framleiðsluleyfa er ráðstafað til norskra sveitarfélaga í gegnum fiskeldissjóð, Havbruksfondet. Það urðu því mikil vonbrigði víða í byggðum við strandlengju Noregs vegna niðurstöðu útboðsins segir í skýringu Morgunblaðsins. Ekki varð staðan betri þegar fréttist að vegna tekjujöfnunarákvæðis í frumvarpi um nýtt auðlindagjald standi til að höfuðborgin Ósló fái tekjur í gegnum auðlindaskattinn nýja, þrátt fyrir að þar séu engar sjókvíar eða annar rekstur sem skatturinn nær til.lax3

Gripið til uppsagna

En áfallið hitti líka fyrir starfsmenn. Um miðjan nóvember sagði fiskeldisfyrirtækið SalMar upp 851 starfsmanni í vinnslustöðvum félagsins á Frøya og Senja. Ástæða uppsagnanna var sögð vera tillaga ríkisstjórnarinnar um auknar álögur á greinina. Benti SalMar á að um væri að ræða þreföldun framleiðslutengdrar skattlagningar á greinina um áramótin. Gagnrýndi félagið harðlega að skattstofninn skyldi miða við meðalverð á uppboðsmarkaði fyrir heilan fisk þar sem slíkt verð getur vikið verulega frá raunverulegu innleystu söluverði fjölbreytilegra afurða og samningsgerða. Fyrr í nóvember sagði einnig Lerøy upp starfsfólki, alls 339 manns. Það er því allt í uppnámi í norsku þjólífi út af þessum tillögum um ofurskattlagningu.