c

Pistlar:

22. janúar 2023 kl. 23:18

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

12.000 þjóðernissinnar

Að sumu leyti mátti greina frumstæða krafta í íþróttahöllinni í Gautaborg á föstudagskvöldið þegar Íslendingar mættu á heimavöll Svía. „Innrásarliðið“ (íslenska liðið) var í miklu minnihluta en þegar þjóðsöngvar landanna voru leiknir reyndu 2.000 Íslendingar sitt besta til að jafnast á við 10.000 Svía. Mannhafið var skreytt í fánalitum landanna, andlit máluð eins og menn væru að fara í stríð og fánar landanna blöktu sem gunnfánar fyrir framan myndavélarnar. Hvað var þarna á ferðinni? Ómengaður íþróttaandi í bland við ættjarðarást og þjóðrækni? Var kannski smá rembingur í kýtingi liðanna og stuðningsmanna þeirra? Getur verið að þarna hafi verið 12.000 óþekktir þjóðernissinnar fengið útrás fyrir hvatir sem alþjóðasinnar hafa skömm á, öfgar þjóðríkisins og þjóðernisstefnu í sinni tærustu mynd?áhorf

Hér er pistlaskrifari auðvitað að leika sér með það sem fyrir augun bar, en hvernig túlka sérfræðingar í þjóðernisstefnu það sem gengur á í kringum keppni í íþróttum milli þjóða? Af hverju eru rússneskir íþróttamenn útilokaðir allstaðar en úkraínskum fagnað nú þegar þjóðirnar eiga í stríði? Jú, íþróttamenn eru sendiherrar þjóða sinna og árangur þeirra er talin vitnisburður um ágæti viðkomandi lands. Þetta vissi Adolf Hitler á ólympíuleikunum í Berlín 1936. Þar ætlaði hann að sýna fram á yfirburði þjóðar sinnar. Sama vakti fyrir alræðisríkjum kommúnismans í Austur-Evrópu á tímum kalda stríðsins. Með kerfisbundinni lyfjagjöf urðu þær stórþjóðir í alþjóðlegu íþróttalífi og skipti engu þó heilsu íþróttafólksins væri fórnað. Þjóð eins og Noregur ver gríðarlegum fjármunum í afreksíþróttamenn sína í von um að norski fáninn blakti sem oftast á ólympíuleikum nútímans þar sem sungið er, „Ja, vi elsker dette landet,“ upphafsorð þjóðsöngs Noregs sem sunginn var fyrst með titrandi röddum á Eiðsvöllum 17. maí 1864 undir sterkum áhrifum nýrómantísku stefnunnar.stuðn

Það blasir við að þjóðernisvakning 18. og 19. aldar í Evrópu verður ekki aðskilin nýrómantísku stefnunni sem sótti krafta sína í söguna og þjóðleg minni. Ljóðskálið Robert Burns (1759-1796) skóp skoska þjóðerniskennd í gegnum ljóð sín og það á við um kollega hans í öðrum löndum. Hlutirnir eru ekki alltaf eins og þeir virðast og allt þetta minnir okkur á að hugtakanotkun þegar kemur að samspili þjóðrækni og þjóðernisstefni getur verið vandasöm.

Engin sjálfstæðisbarátta án þjóðrækni

Það segir sig nánast sjálft að barátta þjóðar fyrir sjálfstæði er jafnan rekin á þjóðernislegum nótum. Þessi umræða gegnsýrir allt í Úkraínu um þessar mundir þegar þjóðin berst fyrir sjálfstæði sínu. Rússnesk áhrif eru samofin menningu þjóðarinnar og þegar Vólódímír Selenskí, forseti Úkraínu, komst til valda var rússneska hans fyrsta mál. Heimamenn gerðu grín að úkraínskum framburði hans. Í dag dettur engum í hug að tala rússnesku í Úkraínu. Áhrif árásarstríðs Vladimirs Pútíns eru þau að eyða út rússneskum áhrifum, að því marki sem það er yfirleitt unnt.

Staðreyndin er sú að þjóð sem leitar frelsis þarf að sýna fram á að hún eigi það skilið, sé sérstök þjóð með eigin sérkenni. Við slíkar aðstæður er leitað sameiginlegra einkenna þjóðarinnar og vísað til menningararfs hennar, svo sem bókmennta, lista og sögu. Þjóðernisrökum er teflt fram og kynnt er undir þjóðerniskennd á öllum sviðum. Við getum rifjað upp söguskoðun fyrsta lærða íslenska sagnfræðingsins, Jóns J. Aðils (1869-1920), sem skipti Íslandssögunni upp í fjögur skeið: Gullaldar, hnignunar, niðurlægingar og endurreisnar. Þessi söguskoðun tónaði síðan við frásagnir af afrekum eða afglöpum „stórra“ einstaklinga sem knúðu framvindu sögunnar. Á tímabili sjálfstæðisbaráttunnar gekk þetta fullkomlega upp þó líklega finnist fáum þessi afmörkun fullnægjandi í dag.stuðn2

En Jón Aðils fékk stundum stuðning úr óvæntri átt. Í bók sinni Ættasamfélagi og ríkisvaldi, sem kom út 1954, kallar Einar Olgeirsson, landnámið „hetjudáð“ og fagran vott „um hugrekki og manndóm þeirra manna, sem ættasamfélagið mótaði.“ Einar fann þjóðernisleg rök þegar sá gállinn var á honum en hann var sem kunnugt er einn helsti forystumaður íslenskra kommúnista og sá maður sem naut einna mest trúnaðar Komintern og sovéskra ráðamanna. Ekki er síður mikilvægt að hann átti djúpa vináttu við nokkra áhrifamikla íslenska sagnfræðinga eftir stríð.

Hvor var meiri þjóðernissinni Hitler eða Stalín?

Í tímaritinu Sögnum árið 2005 er sagnfræðingurinn Hrafnkell Lárusson með athyglisverða úttekt á viðhorfi íslenskra kommúnista til sjálfstæðisbaráttu og þjóðernis. Hrafnkell telur að þjóðernishyggja hafi verið áberandi þáttur í íslenskri stjórnmálaumræðu alla 20. öldina og reyndar fram á okkar daga. Þannig megi finna mörg dæmi þess að þjóðernisrökum sé beitt í daglegri umræðu og stjórnmálum.

Við þekkjum margt í þessari sögu í tengslum við alþjóðasamtökin Komintern sem boðuðu bræðralag alþýðunnar þvert á landamæri en undir náinni yfirstjórn Kommúnistaflokks Sovétríkjanna. Þannig var Komintern í raun fyrst og fremst að gæta þjóðernissinnaðra hagsmuna Sovétríkjanna. Til að vinna stríðið við Þjóðverja aðlagaði Stalín hugmyndafræðina að þörfum stríðsins til að fá hrjáða landsmenn sína til að bjarga heimalandinu. Rússar kalla þetta stríð Föðurlandsstríðið mikla og líklega hefði það ekki unnist ef það hefði ekki verið háð á þjóðernislegum forsendum, við hina velþekktu þjóðernissinna Adolf Hitler og Benito Mussolini!loka

Hrafnkell spyr, hvers vegna lögðu íslenskir kommúnistar áherslu á þjóðerniskennd? Hann svarar því þannig að líklega hafi þeir snemma gert sér grein fyrir því að til að ná fótfestu og komast til áhrifa, yrðu þeir að höfða til breiðs hóps. Þetta togaðist á við að halda sterkum tengslum við Komintem, hlíta leiðsögn þess og halda uppi aga og festu innan hreyfingarinnar skrifar Hrafnkell og klikkir út með þessari ályktun: „Skortur á ræktun þjóðernisvitundar í kenningum marxista og hugmyndum Komintem kom ekki í veg fyrir að sumir kommúnistaflokkar, ekki síst sá íslenski, reyndu að höfða til þjóðerniskenndar landa sinna.“ Hvernig skyldi framhaldsskólakennurum landsins takast að útskýra þessa umpólun hugtakanna?