c

Pistlar:

30. janúar 2023 kl. 11:50

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Twitter-skjölin: Hvorki rússneskir né yrkjar

Margir stjórnmálamenn vildu vera í þeirri aðstöðu að geta hætt að tala um vandamál og við það hverfi þau á braut. Getur verið að áhrifamiklir fjölmiðlar, jafnvel þeir sem eru hluti svokallaðra meginstraumsmiðla, geti leikið þennan leik?

Nú eru um það bil tveir mánuðir síðan upplýsingar upp úr Twitter-skjölunum svokölluðu tóku að birtast eftir að hópi fréttamanna var boðið að nálgast öll gögn í fórum Twitter og skrifa þær fréttir sem þeir teldu felast í þeim. Um þær upplýsingar sem þar hafa birst hefur verið fjallað í nokkrum pistlum hér og ávallt reynt að geta heimilda og uppruna.censoredt

Ekki er hægt annað en að undrast þá ritstýringu sem fram hefur farið á samfélagsmiðlunum og hvernig starfsmenn þeirra hafa látið misnota sig í pólitískum tilgangi. Um þetta allt vitna nú skjöl og gögn horfi menn með opnum huga á þær upplýsingar sem hafa verið að birtast undanfarnar vikur.

En ekki er allt sem sýnist. Það vakti athygli pistlaskrifara að þekktur útvarpsmaður eins og Kristján Kristjánsson treysti sér til að afgreiða málið, nánast með einni handarsveiflu í viðtali við Sigmund Davíð Gunnlaugsson, formann Miðflokksins, í þættinum Sprengisandi um síðustu helgi. Vitnaði Kristján til þess að stórblöð eins og Washington Post og New York Times hefðu afgreitt þetta sem lítilvægt, jafnvel gert lítið úr þeim upplýsingum sem liggja fyrir.

Virtist skipta litlu að aðrir fjölmiðlar vestanhafs, svo sem fréttveitan Bloomberg, viðskiptablaðið Wall Street Journal, götublaðið New York Post og Fox sjónvarpsstöðina svo fá einar séu nefndar hafi fjallað mikið um upplýsingastreymið frá Twitter og af mikilli alvöru.dasbord

Þá hefur verið nefnt að ein skýringin á því hvers vegna Twitter-skjölin hafa ekki vakið meiri athygli hjá hinum svokölluðu meginstraumsfjölmiðlum, stafar af því að stærsti auglýsandi þessara miðla er lyfjageirinn. Bandaríkin eru eina landið svo gott sem sem leyfir lyfjafyrirtækjum að auglýsa lyf beint til almennings. Nefnt hefur verið að sumir fjölmiðlar fái allt af 75% af auglýsingatekjum sínum frá lyfjafyrirtækjum. Vitað er að lyfjafyrirtækin eru ósátt við Twitter, sér í lagi þegar Elon Musk ákvað að halda ekki niðri þeim röddum sem gagnrýna Covid-bóluefnin. Þá hefur jafnframt verið boðað að innan skamms muni Twitter upplýsa um vinnubrögð lyfjafyrirtækjanna, þegar kemur að því að berja niður alla gagnrýni og andstöðu við bóluefnin.

Fréttaveitan Hamilton 68

En nýjasti gagnapakkinn upp úr Twitter-skjölunum, sem ber myllumerkið 15, inniheldur upplýsingar um fyrirbærið Hamilton 68, nokkurskonar stafrænt „mælaborð“ (e.dashboard) sem gaf sig út fyrir að fylgjast með rússneskum áhrifum og var í framhaldinu uppspretta hundruða ef ekki þúsunda frétta í prent- og sjónvarpsmiðlum á Trump-árunum.

Blaðamaðurinn Matt Taibbi hóf að birta upplýsingar um Hamilton 68 um helgina. Þar kemur fram að fyrirbærinu var stýrt af fyrrverandi gagnnjósnara FBI (og núverandi álitsgjafa hjá sjónvarpsstöðinni MSNBC), Clint Watts, sem virðist hafa verið hugmyndafræðingurinn bak við framtakið segir New York Post. Allt var þetta fjármagnað af hugveitu sem tengist samtökum sem tengja sig við vinstra frjálslyndi eða Alliance for Securing Democracy (ASD). Hugveitan var sett á stofn árið 2017 eða skömmu eftir að Donald Trump tók við forsetaembættinu.

Í ráðgjafaráði ASD eru menn eins og rithöfundurinn Bill Kristol, Michael McFaul fyrrverandi sendiherra í Rússlandi, John Podesta, fyrrverandi yfirmaður samtakanna Hillary for America, og fyrrverandi yfirmenn eða staðgenglar yfirmanna CIA, NSA og heimavarnarráðuneytisins (Department of Homeland Security).clint

Fréttamiðlar vitnuðu í mörg ár í Clint Watts og Hamilton 68 þegar þeir fullyrtu að rússneskir yrkjar, eða „bots“ eins og þeir eru nefndir á ensku væru að „magna upp“ áróður á samfélagsmiðlum gegn hagsmunum Bandaríkjanna. Það birtist meðal annars í ummælum gegn árásum Bandaríkjamanna í Sýrlandi, til stuðnings Fox þáttastjórnandanum Lauru Ingraham eða kosningabaráttu þeirra Donald Trump og Bernie Sanders.

Vissu ekkert hverju þeir voru að lýsa

Hamilton 68 var þannig uppspretta sagna og síðar frétta um að rússnesku yrkjarnir hefðu ýtt undir hugtök eins og „djúpríkið“ eða myllumerki eins og #FireMcMaster, #SchumerShutdown, #WalkAway, #ReleaseTheMemo, #AlabamaSenateRace og #ParklandShooting, ásamt mörgum öðru, allt með það fyrir augum að hafa áhrif á bandarísk stjórnmál og grafa undan lýðræðinu.

Matt Taibbi segir að leyndarmálið að baki greiningaraðferð Hamilton 68 byggist að því að finna og greina rússneska reikninga. „Greiningin okkar hefur tengt 600 Twitter reikninga við rússneska áróðursstarfsemi á netinu,“ var tilkynnt á síðunni þegar hún fór af stað. Hamilton 68 gaf hins vegar aldrei út listann og fullyrti að ef þeir gæfu upp listann myndu Rússar einfaldlega loka reikningunum. Eftir rannsókn sína heldur Matt Taibbi því fram að allir þeir sjónvarps- og fréttamenn sem fullyrtu stöðugt um „rússnesku yrkjana“ vissu í raun aldrei hverju þeir voru að lýsa. Þeir virtust bara treysta því sem kom frá Hamilton 68.

Hvorki rússneskir né yrkjar

Tiabbi segir að forráðamenn Twitter hafi verið í einstakri aðstöðu til að endurskapa lista Hamiltons út frá beiðnum veitunnar um gögn frá Twitter. Gögn sem Tiabbi hefur undir höndum sýna að forráðamenn Twitter höfðu áhyggjur af því fréttaflóði sem streymdi frá Hamilton-mælaborðinu. Þegar þeir skoðuðu hvað var á seiði brá þeim mjög. „Þessir reikningar,“ sögðu þeir að lokum, „eru hvorki rússneskir né yrkjar.“ „Það eru engin gögn sem styðja fullyrðinguna um að menn hafi fundið sannanir fyrir rússneskum aðgerðum til að villa um fyrir bandarískum kjósendum.“musk

„Ég held að við þurfum bara að kalla þetta bull,“ skrifaði þáverandi yfirmaður trausts og öryggis hjá Twitter, Yoel Roth, í tölvupósti í október 2017. „Hamilton mælaborðið sakar ranglega fullt af lögmætum reikningum sem hallast til hægri um að vera rússneskir yrkjar,“ bætti hann við í janúar 2018.

Á máli leikmanna þá er reyndin sú Hamilton 68 fann nánast engin merki um rússnesk áhrif, fyrir utan nokkra reikninga sem hægt var að rekja til RT fréttastofunnar. Flestir reikningar sem höfðu verið skoðaðir voru að mestu í eigu venjulegra Bandaríkjamanna, Kanadabúa og Breta.

Svo virðist sem hluti stjórnenda Twitters hafi strax viðurkennt að þessar Hamilton-drifnu fréttir hefðu verulegan siðferðislegan vanda í för með sér fyrir samfélagsmiðilinn. „Raunverulegt fólk þarf að vita að það hefur verið einhliða stimplað rússneskir áróðursmenn án sannana eða úrræða,“ skrifaði Roth.

Forráðamenn Twitter vildu gjarnan losa sig við Hamilton 68. Eftir að Rússum var kennt um að hampa #ParklandShooting myllumerkinu skrifaði einn: „Af hverju getum við ekki sagt að við höfum framkvæmt rannsókn... og það að vitna í Hamilton 68 sé rangt, óábyrgt og hlutdrægt?

Eitt stórt „svindl“

Mark Tiabbi segir að þetta hafi allt verið svindl (e.scam). Í stað þess að fylgjast með því hvernig „Rússland“ hafði áhrif á viðhorf Bandaríkjamanna safnaði Hamilton 68 einfaldlega saman nokkrum reikningum, sem voru sannarlega raunverulegir en voru í eigu Bandaríkjamanna og töldu sig síðan geta fullyrt eitthvað um rússnesks áhrif þeirra.

Allt þetta mál sýnir hvernig lögmál blaðamennsku og heilinda í starfi voru sveigð og beygð í kjölfar þess að Donald Trump kom fram á sjónarsviðið. Hann nýtti sér samfélagsmiðla með árangursríkari hætti en áður hafði sést og svo virðist sem andstæðingar hans hafi farið á taugum og gripið til ýmissa óyndisúrræða, meðal annars að magna upp áhrif Rússa á forsetakosningarnar 2016 sem urðu óvenju hatrammar.

Þá fór Trump ekki leynt með fyrirlitningu sína á meginstraumsmiðlum og svo virðist sem starfsmenn þeirra hafi talið sér leyfast allt gagnvart honum í staðinn. Það er kannski verst að miðlarnir ætla ekki að gangast við fréttafölsununum sínum nú þegar staðreyndir málsins eru komnar fram.

Ef til vill er þó athyglisverðast í þessum máli öllu hve mikið var rætt um falsfréttir í tengslum við hin meintu afskipti Rússa af fréttum og umræðu í Bandaríkjunum. Nú er komið í ljós að þeir sem sífellt vitnuðu í þessi afskipti Rússa til að vara við falsfréttum, voru sjálfir fórnarlömb falsfrétta. Oft og iðulega voru þetta vinstrisinnað háskólamenntað fólk, jafnvel starfsmenn háskóla, þar með talið hér á landi. Ekki má þá gleyma að í átaki Fjölmiðlanefndar um falsfréttir, að þá voru iðulega afskipti Rússa af fréttaflutningi nefnd sem dæmi um hættuna á falsfréttum. Þar á bæ þarf nú að hugsa þetta upp á nýtt, því þökk sé Hamilton 68 og fleirum, því þau kolféllu sjálf á prófinu – voru bláeygð fórnarlömb falsfrétta.