c

Pistlar:

2. febrúar 2023 kl. 12:03

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Lindarhvoll og hvítþvottur Ríkisendurskoðunar

Málflutningur í Lindarhvolsmálinu svokallaða fór í síðustu viku fram í Héraðsdómi Reykjavíkur. Þar kom ýmislegt áhugavert fram og sumt verið tilgreint í fjölmiðlum sem nú virðast hafa vaxandi áhuga á málinu. Í stóru myndinni snýst málið um meðhöndlun og virðingu á eignum skattgreiðenda. Þetta tiltekna dómsmál snýst um sölu á eignarhlut ríkisins í nauðasamningskröfum á Klakka ehf., haustið 2016, en Klakki hét áður Exista. Helsta undirliggjandi eign Klakka var eignaleigufélagið Lýsing, sem nú heitir Lykill.

Tveir aðilar buðu í eignarhlut ríkisins, annars vegar stærsti hluthafi Klakka, BLM, og hins vegar Frigus 2 ehf., sem Sigurður Valtýsson veitir forstöðu, en hann er málshefjandi og Lindarhvoll til varnar. Stjórn Lindarhvols ákvað að taka tilboði BLM en Sigurður telur að tilboð Frigusar hafi verið hærra og því hefði stjórnin átt að taka því. Af þeim sökum krefst Sigurður að ríkið bæti upp það sem hann var hlunnfarinn um. Jafnframt gerir Sigurður miklar og alvarlegar athugasemdir við sjálft söluferlið.Lindarhv2

Lindarhvoll ehf. er félag sem stofnað var innan Fjármálaráðuneytisins til að hafa umsjón með sölu þeirra eigna sem ríkissjóði áskotnaðist í nauðasamningunum við kröfuhafa (svokallaðar stöðugleikaeignir). Um það mál má meðal annars lesa í bókinni Afnám haftanna, Samningar aldarinnar eftir undirritaðan. Við gerð bókarinnar leitaði ég eftir upplýsingum um Lindarhvol en uppskar þögnina eina frá fjármálaráðuneytinu. Mikilvægt er hins vegar að halda vel utan um þessa sögu en bókfært virði stöðugleikaeigna árið 2016 var 384 milljarðar króna og áætlað virði árið 2018 460 milljarðar eins og kom fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar frá árinu 2020 sem verður getið frekar hér síðar. Óhætt er að segja að þessi aðgerð hafi gengt lykilhlutverki við efnahagslega endurreisn Íslands og því mikilvægt að allar upplýsingar þar um séu tiltækar. Hér fylgir skýringamynd sem Morgunblaðið vann á sínum tíma um meðhöndlun eignanna. stöðugl

Lögmannsstofunni Íslögum ehf. og þá eiganda hennar, Steinari Þór Guðgeirssyni, var fengið það hlutverk með verksamningi að sinna framkvæmdastjórn og lögfræðiþjónustu og þannig annast umsýslu, fullnustu og sölu á eignum ríkissjóðs sem félagið móttekur. Stjórn Lindarhvols, sem skipuð var Þórhalli Arasyni, þá skrifstofustjóra í fjármálaráðuneytinu, Ásu Ólafsdóttur, sem nú er hæstaréttardómari, og Hauki C. Benediktssyni, starfsmanni Seðlabanka Íslands, var þó falið lokaorðið um allar ákvarðanir.

Verulegir annmarkar

Við málflutninginn í héraðsdómi kom fram að fjölmargir og verulegir annmarkar voru á söluferlinu. Má þar nefna að upplýsingar sem veittar voru um hina seldu eign voru að svo skornum skammti að ómögulegt var fyrir aðra en þá sem þekktu Klakka út í hörgul að bjóða. Í raun var þetta því lokað útboð þótt öðru væri haldið fram. Þess vegna komu einungis tvö raunveruleg tilboð í eignina. Þá voru forsvarmenn BLM, sem á endanum fengu hlutinn, með upplýsingar úr bókhaldi Klakka sem enginn annar hafði. Þar á meðal 6 mánaða uppgjör félagsins, sem var umfram væntingar, og hefði átt, samkvæmt nauðasamningi, að hafa verið birt opinberlega tæpum tveimur mánuðum fyrir söluna. Jafnframt kom fram í vitnaleiðslunum að BLM hefði einnig haft 7, 8 og mögulega 9 mánaða uppgjör Lýsingar undir höndum sem þá var óbirt. Það var því augljóslega ekki jafnræði var á milli tilboðsgjafa.

Augljóst var að Sigurður Þórðarson fyrrum ríkisendurskoðandi, sem hafði verið settur ríkisendurskoðandi með Lindarhvol, þar sem Sveinn Arason þáverandi ríkisendurskoðandi var bróðir Þórhalls stjórnarformanns Lindarhvols og því vanhæfur, hafði mikið við söluna á nauðasamningskröfu Klakka að athuga. Taldi Sigurður að ríkið hafi orðið af um 500 milljónum króna vegna hennar. Þá sagði hann einnig að hann hefði átt í miklum erfiðleikum með að fá gögn frá Lindarhvoli þegar hann var að sinna eftirlitsskyldu sinni og hafi hann því þurft að leita eftir gögnum annars staðar í kerfinu, meðal annars hjá Seðlabankanum. Setti Sigurður jafnframt fram þá skoðun sína að óþarft hafi verið með öllu að útvista til lögmannsstofunnar Íslaga vinnunni í kringum Lindarhvol og furðaði sig á hlutverki og hæfi Steinars Þórs Guðgeirssonar í ferlinu en hann hafi verið „allt í öllu“ hjá Lindarhvoli. Einnig kom fram í vitnaleiðslunni yfir Sigurði að hefði nauðsamningskrafan í Klakka ekki verið seld hefði ríkið fengið mörg hundruð milljónum meira fyrir hlutinn, bara með því að bíða og taka við peningunum sem komu inn. Alvarlegar ásakanir í ljósi þess hver setur þær fram.

Þjökuð af minnisleysi

Þá kom fram í vitnaleiðslum yfir stjórn Lindarhvols að þau hefðu ekki haft hugmynd um hvað þau voru að selja í tilviki nauðasamningskrafnanna í Klakka. Athygli vakti hve minni stjórnarmanna og starfsmanns Lindarhvols, Estherar Finnbogadóttur, var gloppótt. Það var ítrekað borið við minnisleysi þegar ýmsar ákvarðanir stjórnarinnar voru bornar undir þau. Kom þetta minnisleysi á óvart þar sem fyrrum stjórn Lindarhvols auk Estherar fundaði með Steinari Þór Guðgeirssyni, í Seðlabankanum, til að rifja upp málið eins og fjölmiðlar hafa greint frá. En Steinar Þór, sem var lögfræðilegur ráðgjafi stjórnarinnar, var jafnframt verjandi Lindarhvols í málflutningnum. Mér er tjáð að það sé óvanalegt að lögmaður hitti vitni í hóp og rifji upp málavöxtu, svo vægt sé til orða tekið enda virðist það ætla að hafa eftirmála.lindarhvoll

Í málflutningnum kom einnig fram að þriðja tilboðið sem kom fram í Klakkahlutinn hafi komið frá félaginu Ásaflöt ehf., en Magnús Scheving Thorsteinsson, fyrrverandi forstjóri Klakka, staðfesti í vitnaleiðslum að Ásaflöt hafi einungis verið leppur fyrir BLM.

Athyglisvert er að sjá hve litlu munaði á tilboðunum, en Frigus bauð 501 milljón króna í hlutinn, Ásaflöt 502 mkr og BLM 505 mkr. Þessi sáralitli munur, einkum þegar litið er til þess að félagið var miklu meira virði, vekur upp spurningar um hvernig staðið var að móttöku tilboðanna. Krafist var þess að tilboðin yrðu send inn á rafrænu formi á netfang sem var í eigu lögmannsstofu Steinars Þórs. Af hverju ekki var óskað eftir að tilboð væru sett inn bréflega og þau svo opnuð í vitna viðurvist, eins og Ríkiskaup mæla með? Þá má bæta við að Steinar Þór var jafnframt stjórnarmaður í Klakka á þessum tíma, en framkvæmdastjóri Klakka var á bak við bæði gervitilboð Ásaflatar og tilboð BLM.

Það þarf ekki að taka fram að félag eins og Lindarhvol hafði sett sér siðareglur sem getur verið áhugavert að rifja upp:

6. gr. Við erum til fyrirmyndar
6.1. Við komum fram við viðskiptavini og samstarfsmenn af virðingu og sýnum sanngirni og gætum jafnræðis í störfum okkar.
6.2. Við sinnum störfum okkar og samskiptum við viðskiptamenn og aðra hagsmunaaðila þannig að það sé öðrum til fyrirmyndar og eftirbreytni.


Skýrslan sem ekki má birta

Þegar Sigurður Þórðarson, settur ríkisendurskoðandi, hætti sumarið 2018 með eftirlit og endurskoðun á Lindarhvoli, í kjölfar þess að Skúli Eggert Þórðarson hafði tekið við starfi ríkisendurskoðanda, og vanhæfi ríkisendurskoðanda var þá ekki lengur til staðar, þá skrifaði hann greinargerð um niðurstöður sínar sem hann sendi á stjórn Lindarhvols, forseta Alþingis, Seðlabankann, fjármálaráðuneytið og Umboðsmann Alþingis. Sigurður taldi að með því væri tryggt að greinargerðin yrði gerð opinber.

Þessi greinargerð hefur ekki enn fengist birt. Undir eðlilegum kringumstæðum væri hún lykilgagn í þessu dómsmáli en svo virðist sem að embættismenn í kerfinu hafi tekið höndum saman um að koma í veg fyrir birtingu hennar. Þar leikur einnig kjörinn fulltrúi, Birgir Ármannsson, forseti Alþingis, stórt hlutverk, en hann hefur ekki fengist til að leyfa birtingu hennar, þvert á fyrirliggjandi lögfræðiálit og ákvörðun um birtingu. Birgi fylgir þar í einu og öllu vinnuferli og ákvörðunum forvera síns í forsetastóli, Steingrími J. Sigfússyni, en væri auðvitað í lófa lagið að birta greinargerðina og sýna þannig sjálfstæði sitt gagnvart þeirri leyndarhyggju sem þarna á sér stað.stöðuglrr

Skýrsla Ríkisendurskoðunar

Vegna gagnrýni Sigurðar Valtýssonar og fleiri var Ríkisendurskoðun fengin til þess að taka út starfsemi Lindarhvols og þar með talið söluna á Klakka. Kom skýrsla Ríkisendurskoðunar út í apríl 2020. Niðurstaða Ríkisendurskoðunar, en Skúli Eggert Þórðarson var þá ríkisendurskoðandi, var eftirfarandi:

„Af gögnum málsins verður ekki annað ráðið en að útboðið hafi verið auglýst með venjubundnum hætti og var það opið öllum sem áhuga höfðu á að senda tilboð. Ríkisendurskoðun hefur við skoðun sína ekki orðið vör við hnökra á framkvæmd þess, auglýsingu, tilboðsgerð eða öðrum atriðum.“

Svo mörg voru þau orð. En þessi eindregna niðurstaða Ríkisendurskoðunar róaði þó ekki alla. Þannig treysti til dæmis stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis sér ekki til að afgreiða þessa skýrslu Ríkisendurskoðunar úr nefndinni. Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis hefur fundað margoft um málið og mætti pistlaskrifari fyrir nefndina 18. maí 2020 að tilhlutan Þorsteins Sæmundssonar þáverandi nefndarmanns til að fjalla um málið en eins og áður var rakið hafði ég gert rannsókn vegna bókar minnar en komst lítt áleiðis með það á þeim tíma. Og er það staðan enn nú tæpum þremur árum eftir að Ríkisendurskoðun taldi sig hafa lokað málinu. Skýrslan sem lögð var fram er því enn ósamþykkt ef svo mætti segja. Það eitt er í raun falleinkunn fyrir Ríkisendurskoðun eða að minnsta kosti stendur þessi hvítþvottur í fulltrúum stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þingsins. Þá eru hörð ummæli Sigurðar Þórðarsonar í frétt Vísis í dag um málið harla óvenjuleg og sýna hve mjög mörgum er orðið misboðið vegna þessa máls.

Í raun er Lindarhvolsmálið um margt einstæð heimild um hvernig kerfið ver sig. Hvernig stjórnkerfið og völd embættismanna virka í reynd. Þeir birtast hér sem ríki í ríkinu. Sigurður Valtýsson á heiður skilið fyrir sína baráttu við að upplýsa málið og Þorsteinn Sæmundsson hélt einn þingmanna vöku sinni. Með fádæma dugnaði og eftirfylgni náði Sigurður að toga út úr kerfinu með töngum nægar upplýsingar, iðulega með aðstoð úrskurðarnefndar um upplýsingamál, til að sýna fram á að eitthvað væri rotið í Danaveldi.