c

Pistlar:

22. maí 2023 kl. 18:52

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Lýðræði, mannréttindi og réttarríkið

Leiðtogafundur Evrópuráðsins lauk í Reykjavík í síðustu viku og um leið formennsku Íslands í ráðinu. Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, utanríkisráðherra, fjallaði um fundinn í pistli sínum í sunnudagsblaði Morgunblaðsins. Þar vakti hún máls á því að undanfarin ár hefði sú umræða farið vaxandi sem veltir fyrir sér hvort slíkur leiðtogafundur sé tímabær, meðal annars vegna þess að áhyggjur hafa aukist yfir stöðu þeirra gilda sem Evrópuráðinu er ætlað að standa vörð um en þau eru lýðræði, mannréttindi og réttarríkið. Eðlilegt er að stoppa við og velta fyrir sér vegferð Íslands í samfélagi þjóðanna og hvernig yfir höfuð gengur að standa vörð um þessi gildi.evropu

Margir eru eðlilega dálítið ráðvilltir yfir stöðu Evrópuráðsins, að hluta til virkar það eins og tilgangslítill klúbbur hátíðlegs fólks og horfa til lítils áhuga alþjóðlegra fjölmiðla. Þeir sem fylgjast með ferðalögum Volodimír Selenskí Úkraínu­for­seta tóku eftir því að hann taldi aðra fundi mikilvægari í endalausum ferðalögum sínum um heiminn til að afla Úkraínumönnum fylgis. En samkoma sem hefur lýðræði, mannréttindi og réttarríkið á sinni könnu getur ekki verið tilgangslítil og óumdeilanlega eru þessi gildi best varðveitt í Evrópu nú um stundir eins og ástandið er í heiminum. Að hluta til vegna þess að þessi gildi spretta upp úr evrópskri menningu og stjórnspeki. Lýðræði er brothætt fyrirkomulag og í löndum eins og Rússlandi og sérstaklega Kína er það nánast óþekkt. Rússland hefur horfið á ný til einræðis eftir stutta en hálf misheppnaða tilraun til að innleiða lýðræði og í Kína ríkir flokksræði.

Pólitísk elíta Evrópu

En þegar horft er til þess hvar valdið til að hafa áhrif á gang mála birtist í Evrópu er nær að horfa til Nató og Evrópusambandsins, miklu frekar en Evrópuráðsins, Brussel frekar en Strassborgar. Nató sér um öryggis- og varnarmál og um ESB hverfast viðskipti og stjórnsýsla og úr þeim ranni kemur meira og meira af þeirri löggjöf sem við störfum eftir.

Þrátt fyrir gríðarleg pólitísk og hagfræðileg vandamál innan ESB verður ekki horft framhjá stærð og umfangi þess enda setjast fulltrúar sambandsins á bekk með leiðtogum stórveldanna, rétt eins og um sjálfstætt ríki væri að ræða. Undir niðri blundar sameiningarferli sem rekið er áfram af hinni pólitísku elítu Evrópu. Það er einkennilegt til þess að hugsa að í Evrópu, sem hefur fóstrað lýðræðið, skuli menn svo auðveldalega selja sig undir ólýðræðislegt embættismannakerfi eins og er að finna í efri lögum ESB. Þegar Ursula von der Leyen, núverandi forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, birtist á mynd með öðrum leiðtogum á G7 ráðstefnunni er hún þar ekki sem lýðræðislega kjörinn fulltrúi. ESB hefur þegar fjölmörg einkenni ríkis og er orðið miðstýrt að miklu leyti. Það sem helst skortir á er sameiginlegur ríkissjóður og endanleg sameiginleg utanríkisstefna. Elítan sem þessu stýrir birtist sem nýtt stjórnunarlag ofan á hið lýðræðislega valdakerfi Evrópu. Ástæða er til að óttast að þarna verði til lýðræðishalli framtíðarinnar.evr2

Síðan Úkraínustríð hófst hefur mörgum stuðningsmönnum ESB þótt viðeigandi að reyna að draga öryggis- og varnarmál undir hatt ESB þó að umsókn og innganga tveggja ESB ríkja í Nató ætti að segja aðra sögu. Þessi samskipti eru hins vegar flókin og á meðan ógnin af Rússlandi er svo áþreifanleg sem nú er má gera ráð fyrir að öll ríki sem liggja á milli Rússlands og Vestur-Evrópu sækist eftir aðild að ESB. Meðal annars í von um að Nató aðild geti komið síðar eins og sjá má núna í tali ráðamanna Moldavíu.

Hið opna frjálsa samfélag

Utanríkisráðherra bendir réttilega á að víða er billegum hugmyndum um valdboð og einangrunarhyggju teflt fram gegn hinu opna og frjálsa samfélagi, og því sé þörf viðnáms gegn slíkum hugmyndum. Vandinn er að talsverður ágreiningur getur verið um skilgreiningar og hvaða grunngilda samfélagsins beri að horfa til. Þetta er tekið að birtast tíðar í íslensku samfélagi sem lengi vel hefur verið fremur einsleitt og um leið haft fremur hefðbundnar skilgreiningar á grunngildum lýðræðis, mannréttinda og réttarríkis. Stundum með hnökrum í framkvæmd en þó aldrei svo að það hefur ógnað þessum réttindum alvarlega. Með öðrum orðum, menn hafa deilt um leiðir en ekki markmið. Af tali stjórnmálamanna á vinstri vængnum má ætla að þarna geti orðið breyting á. Það er merkilegt til þess að hugsa að þar getur „ný stjórnarskrá“ gengt hlutverki við að sundra skilgreiningum grunngilda.

Nú þegar landsmenn eru að verða 400 þúsund talsins og samsetning íbúa landsins breytist hratt er mikilvægt að það sé hreinskilin umræða um það hvernig við varðveitum grunngildi lýðræðis, mannréttinda og réttarríkis í landi okkar svo friður milli ólíkra hópa sé tryggður.