c

Pistlar:

8. júní 2023 kl. 16:00

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Öflug atvinnustarfsemi Færeyinga

Það er ekki sjálfgefið að byggð geti þróast og verið sjálfbær á jafn litlum og einangruðum stað og í Færeyjum. Rétt eins og á Íslandi eru fiskveiðar mikilvægasti atvinnuvegurinn í Færeyjum og um 90% af útflutningi eyjanna eru sjávarafurðir. Einu sinni var sagt að næst á eftir sjávarútvegi kæmi frímerkjasala, svo sterka var staða sjávarútvegsins í Færeyjum. Siglingar og ferðamennska eru einnig mikilvægar atvinnugreinar í Færeyjum. Gjaldmiðillinn er færeysk króna, bundin við danska krónu sem aftur er bundin við evruna! Færeyingar líta ekki beinlínis svo á að þeir séu með sjálfstæðan gjaldmiðil en vilja augljóslega hafa þetta svona. Viðskiptalífið byggist á rafrænum greiðslum þannig að í sjálfu sér þarf ferðamaðurinn ekki að bera með sér seðla.færeyjargjov

Útgerð í Færeyjum er öflug og þeir eru með nútímanlegan fiskiskipaflota og hafa íslenskir útgerðarmenn stundum horft öfundaraugum til færeysku bátanna þó líklega sé orðið ágætt jafnræði milli þjóðanna núna. Hafnir eru góðar og fiskeldi er nú orðin burðarstoð í útflutningi landsmanna. Yfir 90% af vöruútflutningi þeirra eru sjávarafurðir og útflutningur á eldislaxi er um helmingur af því. Heildarútflutningur á eldislaxi var tæplega 120 þúsund tonn árið 2021 að verðmæti um 600 milljóna evra eða um 90 milljarðar íslenskra króna.

Samþjöppun í fiskeldinu

Fiskeldi hefur ekki ætið verið dans á rósum hjá Færeyingum og hafa þeir gengið í gegnum tvö tímabil mikillar samþjöppunar í greininni en þar voru hátt í 70 fyrirtæki á níunda áratuginum en eru nú þrjú stór fiskeldisfyrirtæki starfandi, Bakkafrost, Hiddenfjord og Mowi. Hvert fyrirtæki hefur sitt eldissvæði og er ábyrgt fyrir nýtingu svæðisins til að minnka líkur á smitsjúkdómum milli svæða og fyrirtækin eru ábyrg fyrir umhverfisáhrifum af eldinu á sínu svæði. Lagarammi fiskeldisins í Færeyjum er mjög skýr en það sem er einkennandi er að aðeins er veitt leyfi fyrir einn framleiðanda í hverjum firði og eru eldissvæðin þrjú í landinu. Fiskeldiskvíarnar sjást greinilega þegar keyrt er með ströndinni og svo er það mat hvers og eins hvort það séu lýti sem skipta máli. Augljóslega er fiskeldið, ferðamennska en þó ekki síst bættar samgöngur eru að styðja við byggðamunstur í Færeyjum.

Færeyingar eru ekki mikið fyrir að byggja fjölbýlishús og þó að undirlendi sé ekki mikið þá sækir fólk í einbýlið. Góðar samgöngur gera það að verkum að ungt fólk getur komið sér fyrir í nágrannabæjum sem sumir hverjir gera ýmislegt til að lokka til sín unga fólkið, svo sem með boðum um fría leikskólavist barna. Hvað sem veldur hafa Færeyingar um nokkurt skeið átt Evrópumet í barneignum. Fær­ey­ing­ar þakka frjó­sem­ina meðal annars sterk­um fjöl­skyldu­bönd­um og ná­lægð íbú­anna.færagata

Mikil lífsgæði

Rétt eins og Íslendingar koma Færeyjar tiltölulega vel út á ýmsum mælikvörðum um lífsgæði. Árið 2022 var atvinnuleysi þar í landi 0,9%, auk þess sem eyjarnar bjuggu við næstmesta jöfnuð í heimi samkvæmt Gini-stuðul sem er mælikvarði á ójöfnuð tekna. Lífslífur við fæðingu voru 78 ár meðal karlmanna og 83,2 ár meðal kvenmanna árið 2017, sem er nokkuð lægra en á Íslandi en hærra en í Danmörku. Þá er atvinnuþátttaka með því mesta sem gerist en 83% Fær­ey­inga eru á vinnu­markaði, til sam­an­b­urðar við 65% inn­an ESB. Þó er meira en helm­ing­ur fær­eyskra kvenna sem vinna í hluta­starfi, en það er ekki vera vegna skorts á fullri vinnu, held­ur velja kon­urn­ar að vinna minna.

Ef lífsgæði eru mæld í veðurfari þá telst loftslagið í Færeyjum milt á vetrum en svalt á sumrin, eitthvað sem við Íslendingar þekkjum vel. Mikill munur er á veðri og úrkomu milli eyjanna en mest er úrkoman á þeim nyrstu. Loftslagið er heldur mildara en á Íslandi og snjór situr ekki lengi nema í fjallstindum. Í ferð um eyjuna núna í byrjun júní sást bara snjór skuggamegin við Slættaratind sem er hæsta fjall Færeyja eða 880 metrar á hæð. Fjallið er á norðurhluta Austureyjar á milli þorpanna Eiðis, Funnings og Gjógvar.færeyjakort

Einstök jarðgangnagerð

Mjög fámennt er víða en Færeyingar hafa lagt gríðarlega mikið á sig til að halda einstökum stöðum í byggð og fyrir vikið byggt upp einstakt samgöngukerfi þar sem jarðgöng, ofan- og neðansjávar, leika lykilhlutverkið. Satt best að segja er merkileg að skoða vegakerfi Færeyinga og margt því tengt er til eftirbreytni. Aðspurðir um kostnaðinn segja heimamenn einfaldlega að þetta sé gjaldið við að halda öllum eyjunum í byggð og þeir fylgjast nákvæmlega með byggðaþróuninni. Áður en þessi mikla gangnagerð hófst varð að treysta á ferjur, báta og þyrlur. Færeyingar segjast reisa þessi göng fyrir eigin pening og gjaldskylda er í sjávargöngin sem þeir tóku að reisa fyrir tveimur áratugum og eru enn með stór áform um frekari jarðgangnagerð.

Heimastjórn undir Danmörku

Færeyjar tilheyra konungsríkinu Danmörk, ásamt Danmörk og Grænlandi, og er því Margrét Þórhildur II Danadrottning formlegur þjóðhöfðingi eyjanna. Þjóðin hefur þó eigin heimastjórn, sem hún fékk árið 1948 og er lögþing þeirra með 33 fulltrúa. Heimastjórnin hefur æðsta framkvæmdavald í flestum málaflokkum, utan löggæslu, æðsta dómsvalds og utanríkismála. Formaður heimastjórnarinnar er kallaður lögmaður Færeyja, en Aksel V. Johannesen er núverandi lögmaður eftir kosningar á síðasta ári. Landið á ekki aðild að Evrópusambandinu en hefur gert fiskveiði- og verslunarsamninga við sambandið. Landið á aðild að NATO í gegnum aðild Danmerkur frá 1949.færeyjarting

Danir sjá um landhelgisgæslu og koma að löggæslu eyjarinnar en þess má geta að færeyska lögreglan er vopnuð rétt eins og sú danska. Við eyjarnar mátti nú sjá danska freigátu og umferð og eftirlit herskipa hefur aukist verulega síðan stríðið í Úkraínu hófst. Nú er verið að endurnýja ratsjárstöð á Straumey sem hafði verið aflögð um tíma. Hún er nokkru fyrir ofan eina fangelsi eyjarinnar og er þaðan stigi neðanjarðar upp í klettanna, eða svo er okkur sagt tjáði leiðsögumaðurinn okkur brosandi. Þess má geta að fangelsið tekur 17 fanga og er lokað af með lágri vírnetsgirðingu. Að sjálfsögðu er það með grasþaki eins og sést á meðfylgjandi mynd!færeyjfang

Ríkari en Danmörk

Á síðasta ári var landsframleiðsla Færeyinga rúmar sex milljónir íslenskra króna á mann og var hún hærri en í Svíþjóð, Finnlandi og Danmörku. Helsta tekjulind þeirra er sjávarútvegur og fiskeldi, en eitt stærsta fyrirtæki eyjanna er laxeldisfyrirtækið Bakkafrost eins og áður sagði. Stór hluti af þjóðartekjum Færeyinga er í formi styrkja frá Danmörku, en árið 2011 námu þeir 13% af landsframleiðslu. Þetta er reyndar bundið því hvernig er reiknað en danska ríkið leggur landssjóði Færeyja til um 5% af landsframleiðslu sem er ekki eyrnamerkt einstökum málaflokkum. Því var hætt að kröfu Færeyinga sem töldu það sjálfstæðismál að sjá um útdeilingu fjármunanna en leiðsögumaður okkar taldi að það hefði ekki endilega verið góð ákvörðun.

Í Færeyjum eru tvö dómstig, héraðsdómur og hæstiréttur. Héraðsdómurinn nær yfir eyjarnar í heild sinni og stærri málum er skotið til hæstaréttardómstólsins í Danmörku.