c

Pistlar:

30. desember 2019 kl. 14:11

Sigvaldi Kaldalóns (svali.blog.is)

Tvö Ár

Tvö Ár



Tvö ár og við lifðum það af. Í upphafi þegar við Jóhanna ræddum þetta sumarið 2017 að flytja út, þá vissum við að við mundum aldrei gera það fyrir minna en 2 ár. Núna í dag, 30.desember 2019 eru árin tvö liðin. Þvílíkt sem tíminn líður, ótrúlega margt búið að gerast á öllum sviðum,  hjá okkur hjónunum, drengjunum og vinnulega séð. Ég er svo ánægður með að hafa lagt upp í þetta ferðalag með svo sem engar sérstakar væntingar, en einhvernvegin hefur allt gengið upp. 

Og strákarnir: Í dag eru þeir altalandi spænsku. Þeir eiga alltaf eftir að búa að því sem þeir hafa lært hér nú þegar. Þetta er búið að vera þeim heilmikil ögun.. Það er strangur agi í skólanum og okkur er ljóst að það er að gera þeim gott. Fullorðnast líka hraðar, þeir eru búnir að læra að fara langt út fyrir boxið og takast á við hluti sem þeir hafa verið smeykir við, og það á eftir að skila sér til þeirra í gegnum lífið. 

Við hjónin höfum að sjálfsögðu þurft að takast á við ýmsa hluti. Þetta var allt nýtt fyrir okkur og allt þetta einfalda í lífinu verður aðeins flóknara hér, t.d bara að fara til læknis, díla við bankann, fara með bílinn á verkstæði og eitt og annað í þessum dúr sem er svo lítið mál heima. En það reynir líka á, að við erum bara tvö hér, erum saman öllum stundum. Vinir okkar að heiman eru ekki til staðar og hvorki foreldrar né systkini. En það styrkir okkur jafnframt, að við höfum aðeins  hvort annað til að treysta á. Þetta er klárlega verkefni en styrkir okkur sem hjón.  

Það er frábært að búa í öðru landi, gerir heilmikið fyrir alla. Gott að geta séð Ísland úr fjarlægð og þurfa ekki að hugsa um daglega amstrið þar. Það er líka gaman að sjá hvað við Íslendingar erum magnað fólk og gerum margt ótrúlega vel. En það er líka athyglisvert að sjá hina hliðina, því það er svo margt heima sem betur mætti fara. Í smæð okkar ætti ekki að vera mikið mál að breyta til og lagfæra. Notfæra sér smæðina og gera betur. 



TenerifeFerðir hafa gengið mjög vel. Fluttum 2995 farþega frá mars og út desember. Við erum mjög sátt við það. Við erum búin að ná til um 12% af öllum íslensku farþegunum sem komu hingað frá og með marsmánuði og fram að þessum tímapunkti í desember. Nú er bara að bretta upp ermar og gera betur. Gera ferðirnar sem við erum með betri og auka úrvalið á því sem við höfum upp á að bjóða. Erum byrjaðir á nýrri heimasíðu sem verður opnuð innan tíðar og þar geta menn á auðveldan hátt skoðað og verslað ferðirnar áður en hingað er komið. Þá verðum við líka klárir fyrir næstu jól að selja gjafabréf. Það var alveg magnað hvað það voru margir sem vildu gefa gjafabréf í ferðirnar okkar. Á næsta ári verður sú áætlun tilbúin. www.tenerifeferdir.is 



Að lokum er rétt að nefna að það eru svo sem engar áætlanir í gangi um hvenær við snúum aftur til Íslands. Það er ljóst að á meðan nóg er að gera hjá okkur í ferðunum,  þá er engin ástæða til þess að hugleiða heimför. Einn möguleikinn er þó sá að við komum til með að vera til skiptis á báðum stöðum. En það er seinni tíma mál. Bestu kveðjur frá okkur hér á Tenerife, óskum  ykkur gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári. Bestu þakkir fyrir að fylgjast með okkur fjölskyldunni.

Hægt að fylgjast með okkur hér: 

Instagram: Svalikaldalons

SnapChat: Svalik

FB: Svali á Tenerife

www.tenerifeferdir.is 

Sigvaldi Kaldalóns

Sigvaldi Kaldalóns

Svali heiti ég og ætla að skrifa hér um ferðalag fjölskyldunnar til Tenerife. Jóhanna er eiginkonan og synirnir 3 eru Sigvaldi 10 ára, Valur 9 ára og Siggi Kári 2 ára. Við förum af landi brott þann 30.desember næstkomandi og markmiðið er að geta leyft ykkur sem vilja að fylgjast með herlegheitunum. Tímanum áður en við förum og eftir að út er komið. 

Meira