c

Pistlar:

23. september 2021 kl. 16:43

Svanur Guðmundsson (svanur.blog.is)

200 þúsund tonn meir?

Allt frá árinu 1901 höfum við Íslendingar barist fyrir yfirráðum yfir fiskimiðum sínum. Það var ekki fyrr en með viðurkenningu Breta á 200 mílna lögsögunni 1. júní 1976  að við náðum  fullum yfirráðum yfir þeim. Á sama tíma og barist var fyrir útfærslunni í 200 mílur var farið að kalla eftir vísindalegu mati  fiskifræðinga á ástand fiskistofna hér við land. Aflamarkskerfið var tekið upp árið 1984 með úthlutun á einstök skip en Hluti flotans var í sóknarmarki frá 1985-1990. Með lögum nr. 38 frá 1990 og frjálsa framsalinu 1994 var það kerfi að sem nú er við líði fest í sessi.

Frá því að frjálsa framsalið  var tekið upp 1994 og  útgerðin varð að standa á eigin fótum  fórum við að gera okkur grein fyrir mikilvægi þess að vernda  fiskistofna og veiða á ábyrgan hátt þannig að við afrakstur stofna sé sjálfbær til framtíðar.

Samspil stofna og umhverfisþátta hefur verið mér hugleikið innan fiskifræðinnar og hef nýlokið vinnu við úttekt sem skoðaði stofnmat í karfa og grálúðu. Við rannsóknir mínar  tók ég saman og bar saman þróun veiða helstu bolfisktegunda hér við land eftir seinni heimstyrjöld og til dagsins í dag. Með því að taka út hitastigsmælingar í hafinu úr skýrslum Hafrannsóknarstofnunar svo og töluleg gögn þaðan getum við borið saman afla og hita frá 1945 til 2020. Þar sést að meðan veiði er óheft þá sveiflast hún með líkum hætti og hitinn í sjónum ef horft er á myndirnar sitt á hvað. En eftir 1994 er veiðum stýrt á ábyrgan hátt og með varúðarsjónarmiðum.  Lítil sveifla er í lönduðum afla en hann er um leið að aukast hægt og bítandi. Á hinn bóginn er hitinn núna orðin svipaður hitanum þegar  þegar mest var veitt áratug eftir stríð. Núna veiðum við af þessum helstu tegundum bolfisks 457 þúsund tonn en 1960  veiddum við nærri 700 þúsund tonn. (sjá mynd 1 &2). Mynd 1 sýnir 75 ára þróun en á 3 árum (1100 dögum)  nær þorskur nærri 4 kg stærð frá hrogni ef næg er fæðan.

Varúðarsjónarmið ráða miklu við ákvörðun um aflamark þar sem rannsóknir á nytjastofnum okkar eru ekki nægjanlega miklar. Í skýrslu sem unnin var að beiðni sjávarútvegsráherra („Staða og horfur í íslenskum sjávarútvegi og fiskeldi “frá því í maí 2021) segir á bls. 3. „Hafrannsóknarstofnun hefur ekki getað metið stærð sumra stofna og í þeim tilvikum getur stofnunin ekki veitt ráðgjöf sem miðar að hámarksafrakstri. Þess í stað byggir sú ráðgjöf á ákveðinni varúðarnálgun sem á að tryggja að ráðlagður afli sé sjálfbær.“

Í framhaldi af þessu hljótum við að spyrja okkur hvort  ekki sé ráð að við förum að kanna betur ástand okkar fiskistofna og gætum að hvort við eigum möguleika á að veiða meir úr þeim. Þá getum við treyst á raunverulega þekkingu við veiðistýringu en erum ekki fangar varúðarsjónamiða sem geta haft af okkur umtalsverð verðmæti.

veiðar á helstu bolfisktegundum

Mynd 1:Veiðar allra þjóða á helstu bolfisktegundum frá árinu 1945. Gögn frá Hafrannsóknarstofnun

hiti við Siglunes

Mynd 2: Hiti við Ísland frá 1945 til 2020 út frá Siglunesi. Breiðari línan er hlaupandi meðaltal sl 5 ára frá Hafogvatn.is