c

Pistlar:

22. mars 2015 kl. 19:46

Guðrún Kristjánsdóttir (systir.blog.is)

Ertu vata, pitta eða kafa?

ayurvedaFyrir fáeinum dögum komst það í heimsfréttirnar að forsætisráðherra Indlands hefði stofnað ráðuneyti sem hann tileinkar jóga og hinni fornu Ayurvedísku lækningahefð. Það má því með sanni segja að Indverjar séu fyrstir til að stofna “óhefðbundið” heilbrigðisráðuneyti. Með því vill leiðtoginn styrkja þessi 5000 ára gömlu reynsluvísindi sem njóta vaxandi vinsælda og eru ennþá stunduð um allan heim. Líklega hafa þau sjaldan verið vinsælli en nú.

Sjálfur segist forsætisráðherran, Narenda Modi, iðka jóga á hverjum degi og stefnir að því að bjóða öllum ríkisstarfsmönnum og fjölskyldum þeirra fría jógatíma. Með því að stunda jóga segist hann hafa tök á því að vinna langa vinnudaga og takast á við streitu og erfið verkefni. Næst á dagskrá í þessum málaflokki er að fá alla ríkisstjórnina til að stunda jóga. Þegar er ákveðið að fyrstu jógatímarnir fari fram í apríl. Einnig er stefnt að því að 21. júní verði alþjóðlegur dagur jóga. Indverjar lifa merkilega tíma.

Þetta eru góð tíðindi fyrir jógaunnendur og ekki síður þá sem hafa heillast af systurvísindum jógafræðanna, Ayurveda, sem hafa ekki eingögnu verið nefnd vísindi lífsins, heldur líka vísindi langlífs. Það er þó alls ekki víst að allir þekki Ayurveda, en vissulega fleiri og fleiri. Til gefa ákveðna vísbendingu byggir hugmyndafræðin fyrst og fremst á fyrirbyggjandi aðferðum. Ayurveda á ráð við öllu og notar til þess mataræði, jurtir, nudd, hugleiðslu, jóga, möntrur en fer líka inn á fíngerðari svið tilverunnar eins og ilmi, liti, orku og tónlist.

Ayurveda horfir á mannslíkamann út frá því sem kallað er dosur (dosha), þ.e. hver manneskja eða hver hugar/líkamsgerð er sett saman úr þremur dosum. Fíngerði orku sem kallast vata, pitta og kafa. Til að gera langa sögu stutta, stendur vata fyrir frumefnin loft og eter (rými), pitta fyrir eld og vatn og kafa fyrir jörð og vatn. Semsé Ayurveda eru vísindi sem sjá manneskjuna sem hluti af náttúrunni. Ein dosan er jafnan ríkjandi í hverri manneskju, en í sumum tilfellum tvær. Mjög sjaldgæft er að allar þrjár dosurnar séu jafnar í byggingu okkar. Þó ku það vera til í dæminu.

Hin ríkjandi dosa í hverjum og einum skapar það sem við erum í grunninn; hvernig líkamsbygging okkar er og hvernig við hugsum. Það hefur áhrif á allt okkar lífshlaup, allt frá því hvaða starf við kunnum að kjósa okkur, hvaða mat okkur líkar, til hvaða tegund af jóga & hugleiðslu hentar okkur. Þetta er heildrænn pakki! Og þótt við séum um margt lík, erum við líka mjög ólík. Það sama hentar alls ekki öllum. Það er útgangspunktur Ayurveda.

Þar sem streita er eitt af því sem Vesturlandabúar eiga hvað erfiðustu glímuna við er áhugavert að stikla á stóru um hvernig streitan birtist í indversku lífsvísindunum með tilliti til hverrar hugar/líkamsgerðar. Hver dosa hefur sína tegund af jafnvægi og ójafnvægi sem framkallast bæði í hugar- og líkamlegum einkennum. Að sjálfsögðu er hugur og líkami óaðskiljanleg eining í Ayurveda.

Hér að neðan eru áhugaverðar vísbendingar um hverja dosu:

VATA:

Eiginleikar vataorkunnar: Þurr, létt, köld, hrjúf, fíngerð, hreyfanleg og tær. Eins og vetrarorkan hér á landi.

Fólk sem er ríkjandi VATA líkams/hugargerð:

Í sínu besta formi: Uppfullar af sköpunarkrafti og fljótar að hugsa.

Úr jafnvægi: Þráhyggja, hræðsla, áhyggjur, grennist, gnístir tönnum, svefnleysi, harðlífi.

Vinveitt fæða: Hitagefandi, eins og hrísgrjón, mjólkurvörur og heilhveiti, hnetur. Eða heitur, súr, sætur og saltur matur.

Forðist: Hráfæði, salöt og þurran og loftkenndan mat eins og poppkorn. Já, hráfæði hentar síst þeim sem eru vata í grunninn sem ættu að borða beiskan, herpandi og sterkan mat í hófi

Lækningajurtir: Engifer, kanill, pipar og kardimommur. Allt sem er hitagefandi án þess að vera of sterkt.

Ilmir sem næra: Ylang Ylang, sæt appelsína, frankincense.

Jóga sem mælt er með: Rólegt, hugleiðsluæfingar og æfingar sem innihalda fjallið, tréð, barnið, frambeygjur og plóginn. Fókusið á: Ujjayi öndun til að kyrra hugann.

Önnur góð ráð fyrir vata er að notast við mjúka tónlist og leidda hugleiðslu og bera á sig heita olíu áður en farið er í sturtu og á iljarnar fyrir svefinn.

PITTA:

Eiginleikar pittaorkunnar: Olíukennd, skörp, heit, létt, hreyfanleg og fljótandi, eins og sumarið.

Fólk sem er ríkjandi PITTA líkams/hugargerð:

Í sínu besta formi: Skýr, orkumikil, hnitmiðuð, vakandi, skörp og þrautseig.

Úr jafnvægi: Skapsveiflur, gagnrýnin, mígreni, magasár, bólgur í húð, sjóðheitar hendur og fætur.

Vinveittur matur: Kælandi, eins og gúrkur, melónur og döðlur. Semsé sæt, beisk og herpandi fæða hentar pitta.

Best að forðast: Mikið kryddaða, súra og salta fæðu eins og chili, radísur, tómata, trönuber og greip.

Lækningajurtir: Kanill, kóríander, kardimommur og fennel eru í lagi en allt sem er of hitagefandi ætti að borða í hófi.

Ilmir sem næra: Jasmína, lavender, fennel, rós og sandalviður. 

Jóga sem mælt er með: Milt hatha, þægilegt vinyasa, endurnærandi flæðandi jóga sem inniheldur vindur og sitjandi og standandi frambeygjur. Pitta líkamsgerðin ætti að forðast hotjóga og jóga á heitasta tíma dagsins (sorrý, hotjóga á alls ekki við alla, ekki heldur konur sem eru að ganga í gegnum hitabylgjur breytingaskeiðsins).

Önnur ráð fyrir pitta er að kæla sig niður með því að anda inn í gegnum vinstri nös sem er kælandi og út í gegnum þá hægri sem gefur frá sér hita.

KAFA:

Eiginleikar kafa orkunnar: Þung, hæg, mjúk, köld, stöðug, olíu-og slímkennd. Eins og leysingar að vori.

Fólk sem er ríkjandi KAFA líkams/hugargerð:

Í sínu besta formi: Trygglynd, jarðbundin, ástrík og þolinmóð.

Úr jafnvægi: Þrjósk, dauf, þunglynd, borðar mikið og situr föst.

Vinveitt fæða: Þistilhjörtu, eggaldin, spergilkál, kirsuber, perur, trönuber ofl.

Best að forðast: Sætindi, hnetur og of einhæfan mat.

Lækningajurtir sem henta: Í raun allar nema þær sem eru of saltar eða sætar. Undantekning er hunang sem er sögð henta kafa mjög vel.

Ilmir sem næra: Rósmarín og frankincense, piparminta, jukalyptus og basil.

Jóga sem mælt er með: Hitagefandi, kröftugar hreyfingar, þar á meðal sólarhyllingin, bakbeygjur og snúningar. Æfingar sem opna brjóstkassann, eins og boginn, kameldýrið og æfingar sem opna hjartað eins og fiskurinn sem er sagður fyrirbyggja þunglyndi.

Önnur ráð: Pranayama tæknin getur reynst hjálpleg, eins og kapalabhati öndun; öndun leidd í gegnum hægri nös (öndun inn um hægri nös gefur hita) og út um vinstri. Chanting/söngl á vel við kafa týpur, sérstaklega ef þær þjást af deyð.

Hér er aðeins örlítil innsýn inn í reynsluvísindaheim Ayurveda. Nám í Ayruveda lækningum tekur allt að sjö ár. En ef þetta vekur forvitni er hér á eftir að finna spurningar/próf sem geta skorið úr um hvaða dosa er ríkjandi í þér og hvað er til ráða. Gjarnan er bent á það í þessum fræðunum að aðeins örlítil innsýn geti hjálpað mikið. Hér er slóð inn á fyrirtaks próf: http://www.banyanbotanicals.com/info/prakriti-quiz/

Ps: Ef þið hafið aldrei heyrt um pranayma, kapalabhati og allar þessar öndunar- og jógaæfingar er að finna endalausar upplýsingar og leiðbeiningar t.d. á youtube.

Guðrún Kristjánsdóttir

Guðrún Kristjánsdóttir

...er áhugakona um heimspeki, heilsu, lífeðlisfræði, jóga, sjósund, hugleiðslu og ferðalög. Á bakgrunn í blaðamennsku, leikhúsi, var kynningarstjóri Listahátíðar í Reykjavík, er stjórnmálafræðingur, jógakennari og stundaði meistaranám í sálgæslufræðum við guðfræðideild HÍ. Er að auki ljón, nörd, fæðu aktívisti og hin systirin í Systrasamlaginu.

Meira