c

Pistlar:

9. júní 2015 kl. 9:59

Guðrún Kristjánsdóttir (systir.blog.is)

Týndi hlekkurinn fundinn!


týndi hlekkurinnHver stórfréttin í læknavísindum rak aðra í síðustu viku. Um tvær framúrskarandi uppgötvanir var upplýst á þessu sviði. Annars vegar var frétt um þróun byltingarkenndrar krabbameinsmeðferðar, svokallaða ónæmismeðferð sem hjálpar líkamanum að ráðast á eigin æxli. Sú meðferð mun vonandi bjarga mörgum mannslífum í framtíðinni. Frá henni var m.a. greint í sjónvarpsfréttum RÚV sl. föstudagskvöld. Hin fréttin, sem ívið minna bar á - en er ekki síður stórmerkileg - mun breyta öllu kennsluefni í læknisfræði framtíðarinnar. Báðar fréttirnar snerta ónæmiskerfi mannslíkamans sem er ennþá afar flókið viðfangsefni vísindamanna.

Á vef ScienceDaily var hreinlega haft á orði að týndi hlekkurinn á milli heila og ónæmiskerfis mannsins væri loks fundinn. Vísindamenn hafa, svo ekki verður lengur um villst, fundið beina tengingu á milli heilans og ónæmiskerfisins í gegnum æðar sem þeir töldu áður ekki vera til staðar. Þessi stórmerki fundur, sem ef til vill má líkja við landafund, veldur mjög líklega byltingu í skilningi sérfræðinga og almennings á sjúkdómum á borð við MS, Alzheimer og einhverfu.

“Í stað þess að spyrja: Hvernig rannsökum við ónæmiskerfi heilans? Af hverju ræðst ónæmiskerfið á MS sjúklinga? Getum við nálgast viðfangsefnið mekanískt. Heilinn er eins og hver annar vefur, tengdur efsta hluta ónæmiskerfisins í gegnum sogæðar í heilahimnu, ” sagði Dr. Jonathan Kipnis prófessor við taugavísindadeild UVA (University of Virginia Health System) í viðtali við ScienceDaily.

Prófessorinn sagði þetta algjörlega breyta sýn þeirra á víxlverkun tauga- og ónæmiskerfins. Þeir vissu fyrir að eitthvert “dularfullt” samband væri þarna á milli en gerðu aldrei ráð fyrir því að geta skoðað þetta samhengi eins og hverja aðra mekaník.

Nú trúa vísindamennirnir því að þessar æðar leiki stórt hlutverkum í sérhverjum taugasjúkdómi sem hefur tengingu inn á ónæmiskerfið. Ekki sé lengur erfitt að ímynda sér að þessar fíngerðu æðar séu annað en tengdar taugasjúkdómum.

Mannslíkaminn enduruppgötvaður
De. Kevin Lee, PhD, forstöðumaður taugavísindadeildar UVA lýsti viðbröðgum sínum þannig að héðan í frá þyrfti að breyta öllum kennslubókum í læknisfræði. Það hafi aldrei verið gert ráð fyrir því að sogaæðakerfi og miðtaugakerfi mættust, eins og hafi verið svo augljóst í rannsókninni. Þetta muni því gjörbreyta hvernig litið verður á samspil miðtaugakerfis og ónæmiskerfis í framtíðinni.

Eins og gefur að skilja voru vísindamennirnir við Háskólann í Virginíu mjög undrandi. Þeir töldu að búið væri að greina mannslíkamann í frumeindir. Að allt sem við þyrftum að vita hefði verið komið fram um miðja 20. öld. En það er aldeilis ekki raunin.

Mjög vel falið
Það var Dr. Antoine Louveau starfsmaður Kipnis rannsóknarstofunnar sem gerði þessa framúrskarandi uppgövun (og verður líkalega næsti Nóbelsverðlaunahafi í læknisfræði, telja margir). Hann segir að í raun hafi allt legið ljóst fyrir eftir að hann veitti athygli vökva í dreifðu æðamynstri ónæmisfrumnanna. Þannig náði hann tökum á viðfangsefninu. Og það ótrúlega kom í ljós. Hvernig sogæðavökinn í heilannum hefur farið framhjá vísindamönnum í öll þessi ár stafar af því hversu vel æðarnar voru faldar. Sogæðarnar fylgja jafnframt stóru æðunum alveg að ennis- og kinnholum. En þar sem þær liggja svo þétt að blóðæðunum fóru þær framhjá vísindamönnum.

Alzheimer, einhverfa, MS og óendanlega margt annað?
Þessi nýfundna nærvera sogæðanna í heilahimnunni vekur upp ógrynni spurninga sem nú þarf að svara. Sem dæmi um það er Alzheimer sjúkdómurinn. Varðandi Alzheimer er vandamálið uppsöfnun stórra prótein klumpa í heilanum sem skaða taugafrumur. Nú telja vísindamennirnir að klumparnir safnist þar saman vegna þess að þessar nýuppgötvuðu sogæðar losa þá ekki út. Þeir tóku jafnframt eftir því að æðarnar líta mismunandi út eftir aldri fólks. Það þarf líka að skoða nánar. Síðan er ógrynni annarra taugasjúkdóma sem þarfnast frekari rannsókna með hliðsjón af þessum nýja sannleika. Allt í meira lagi áhugavert.

Guðrún Kristjánsdóttir

Guðrún Kristjánsdóttir

...er áhugakona um heimspeki, heilsu, lífeðlisfræði, jóga, hugleiðslu, flot og ferðalög. Á bakgrunn í blaðamennsku, leikhúsi, var kynningarstjóri Listahátíðar í Reykjavík, er stjórnmálafræðingur, jógakennari og stundaði meistaranám í sálgæslufræðum við guðfræðideild HÍ. Er að auki ljón, nörd, fæðu aktívisti og hin systirin í Systrasamlaginu.

Meira