c

Pistlar:

3. júlí 2016 kl. 13:32

Guðrún Kristjánsdóttir (systir.blog.is)

Blómstrandi karrí. Hinn nýi bixímatur!

Stundum var svokallaður bixímatur borðaður á mínu æskuheimili. Kjöt gærdagsins, með kartöflum og spældu eggi. Mér líkaði hann aldrei sérstaklega vel. Of mikið kjöt með eggjum. Alltof þungur matur að mínu mati. Svo komst ég að því síðar að ég vil hafa matinn minn léttan og bragðmikinn en í denn voru góð krydd ekki á hverju strái. Ég tók því fagnandi þegar ég sá loks bixímatinn í nýju ljósi. Nú eru bestu heilsukokkar heims að mastera bixímatinn í ýmsum útgáfum.
Hér er einn af mínum uppáhalds sem er að verða vikulegur á mínu heimili með ýmsum blæbrigðum, töfrum og kryddum.
Frábær fyrir og eftir EM leiki og kærkomin hvíld frá sumargrillinu.

Bixímatur2 tsk kókosolía
½ sinnepsfræ (eða 1 tsk sterkt sinnep)
1 laukur
2 hvítlaukrif, söxuð
1 msk rifinn ferskur engifer
½ tsk chillí
½ tsk túrmerik
1 msk garam masala
120 ml vatn
2 dósir saxaðir tómatar, plús nokkrir heilir litlir tómatar.
1 tsk salt
4 stönglar minta
400 gr frosnar grænar baunir, hægt að fá lífrænar víða (spergilkál og blómkál geta komið í stað grænna bauna).
4 msk kókosrjómi (eða þykki hlutinn af kókosmjólk úr dós)
6 lífræn egg.
Nigella fræ eða Gomasio til skreytingar (má sleppa).

Ef þið notið sinnepsfræ byrjið á að poppa þau á stórri pönnu. Annars er best að byrja á því að steikja lauk og hvítlauk upp úr kókosolíu og bæta svo við kryddunum og sinnepinu. Setjið vatnið yfir og látið malla í 5 mínútur.

Bætið við tómötum og salti og látið malla í 20 mínútur. Bætið þá við baunum, helming af mintu og kókosolíu.

Setjið í eldfast mót og brjótið eitt egg yfir í einu. Búið til smá holu fyrir hvert og raðið smekklega.

Hafið ofninn heitann á sirka 200 gráðum og hitið réttin þar til eggjahvítan er bökuð en rauðan ennþá mjúk. Tekur sirka 10 mínútur.

Stráið mintunni og svörtum sesamfræjum og berið fram.

Frábært með salati og kínóa eða bara góðu naan brauði. Njótið.

Guðrún Kristjánsdóttir

Guðrún Kristjánsdóttir

...er áhugakona um heimspeki, heilsu, lífeðlisfræði, jóga, hugleiðslu, flot og ferðalög. Á bakgrunn í blaðamennsku, leikhúsi, var kynningarstjóri Listahátíðar í Reykjavík, er stjórnmálafræðingur, jógakennari og stundaði meistaranám í sálgæslufræðum við guðfræðideild HÍ. Er að auki ljón, nörd, fæðu aktívisti og hin systirin í Systrasamlaginu.

Meira