c

Pistlar:

13. júlí 2016 kl. 21:38

Guðrún Kristjánsdóttir (systir.blog.is)

Hin súra gúrkutíð!

Flest höfum heyrt getið um gúrkutíð. Það er tíminn núna. Þegar lítið er í fréttum og viðskipti í lágmarki, að minnsta kosti fyrir opnum tjöldum. Allt snýst um sumarfrí og svalandi næringu. Líkt og hér á landi tala Danir um agurketid en færri vita að Danir sóttu heitið á þessu tímabili til Þjóðverja sem kalla það Sauergurkenzeit. Það er tíminn þegar gúrkurnar þroskast og eru lagðar í súr, sem er auðvitað mjög skynsamlegt, sérstaklega fyrir meltinguna.CUCUMBER-EYESSumartíminn er semsé náttúrulegur uppskerutími agúkra. Agúrkur eru fjórða mest ræktaða grænmeti jarðríkis og bæði skyldar melónum og kúrbít. Öll vitum við að bragðið af agúrkum er milt og svalandi sem passar vel í sumarhitanum. Þótt gúrkur séu 90% vatn eða vökvi eru þær miklu næringarríkari en flestir töldu lengst af, kannski eins og gúrkutíðin er auðvitað mjög endurnærandi fyrir okkur flest sem þurfum nauðsynlega á stund á milli stríða að halda.

Í indversku lífsvísindinunum (sem bjuggu yfir mörgu áður en Danir og Þjóðverjar fundu sínar aðferðir til að borða gúrkur) er þekkt að agúrkur slá á hausverk og ástæðan fyrir því að þær eru lagðar á augu er vegna þessa að fræin í þeim er herpandi og draga úr bjúg. Það er því raunverulegt fegrunarráð að leggja gúrkur yfir augu.

Þessar augljósu staðreyndur urðu til þess að vísindamenn með sína nútímaþekkingu vildu rannsaka gúrkur betur. Þeir hafa komist að því að þrátt fyrir að vera 90% vatn innihalda þær mikið af K-vítamíni sem vinnur afskaplega vel með D-vítamíni, töluvert magn C-vítamíns og orkuvítamínið B4, sem ásamt mangani, fosfóri og magnesíumi -sem líka eru að finna í gúrkum - styrkja beinin og hjartað svo um munar.

Í gúrkum er líka efni sem kallast lignans. Og þetta eru kannski helstu tíðindin. Það er einstakt fjölfenól sem aðallega er að finna í jurtum af krossblómaætt. Þau eru þekkt fyrir að minnka líkurnar á hjartasjúkdómum. Nýlegar rannsóknir sýna að agúrkur innihalda kraftmikið lignans sem binst estrógenlíkum bakteríum í meltingarveginum og er talið minnka líkar á ýmsum tegundum krabbameina, M.a í brjóstum, móðurlífi, eggjastokkum og blöðruhálskirtli. Annað stórmerkilegt jurtanæringarefni í agúrkum nefnist cucurbitacins. Það er líka talið hamla þróun ýmissa sjúkdóma en er í frekari skoðun.

Agúrkur eru semsé langt frá því að vera næringarlausar eins og lengi var talið. Og ef við gerum eins og Þjóðverjarnir, leggjum þær í súr fáum við líka kröftuga góðgerla, m.a. frábæra meltingagerla. Nýlega kom í ljós að fátt toppar góðgerla innihald t.d.sýrðra gúrka. Talað er um að einn munnbiti af vönduðum heimagerðum sýrðum gúrkum jafnist jafnvel á við glas af probiótískum gerlum. Þjóðverjar fóru viturlega að ráði sínu þegar þeir lögðu gúrkur og annað grænmeti súr.

Guðrún Kristjánsdóttir

Guðrún Kristjánsdóttir

...er áhugakona um heimspeki, heilsu, lífeðlisfræði, jóga, hugleiðslu, flot og ferðalög. Á bakgrunn í blaðamennsku, leikhúsi, var kynningarstjóri Listahátíðar í Reykjavík, er stjórnmálafræðingur, jógakennari og stundaði meistaranám í sálgæslufræðum við guðfræðideild HÍ. Er að auki ljón, nörd, fæðu aktívisti og hin systirin í Systrasamlaginu.

Meira