c

Pistlar:

15. september 2016 kl. 8:49

Guðrún Kristjánsdóttir (systir.blog.is)

Ævintýralegt lífshlaup fyrsta kvenleiðtoga jógaheimsins

Þótt nafn hennar hafi ekki farið hátt er Indra Devi talin einn áhrifamesti jógi hins vestræna heims. Einstök kona í hópi fjölmargra karlkyns jógaleiðtoga á síðustu öld. Devi er í dag gjarnan nefnd “Mataji” eða fyrsti kvenleiðtogi jógaheimsins. Hún var uppi þegar konur sem stunduðu jóga voru litnar hornauga og jafnvel ennþá gerðar brottrækar úr eigin samfélögum fyrir að iðka jóga (þá sögu má m.a. kynna sér á Yogawoman.tv). Líkt og svo margt annað í veraldarsögunni var jóga upphaflega “sport” hinna efnameiri karlmanna.

Indra devi og Gloria SwansonIndra Devi er sögð hafa haft einstaklega blíða nærveru og seiðmagnað aðdráttarafl. Hún snerti við mörgum og með einstakri hlýju náði hún meira að segja í gegnum hjúp hinna allra tortryggnustu. Þegar Indra Devi féll frá (15. apríl 2002), hafði hún kennt jóga í Kína, á Indlandi, í Rússlandi, Suður-Ameríku, Mexíkó og Bandaríkjunum.

Hver var Indra Devi?
Hið rétta nafn Indru Devi var Eugenia Peterson Labunskaya. Hún fæddist í Rússlandi 12. maí 1899. Ung að árum sótti hún leiklistarskóla í Moskvu en um það leyti sem rússneska byltingin átti sér stað flúði hún ásamt móður sinni til Berlínar. Þar og víðar í Evrópu starfaði hún sem leikkona og dansari en það var svo árið 1927 að Devi ákvað að fara á slóðir Krishnamurti og ferðast til Indlands. Raunar heillaðist Devi fyrst af Indlandi aðeins 15 ára gömul við lestur ljóabókar Rabindanath Tagore. Á þessum árum var fáheyrt að ung vestræn kona ferðaðist ein síns liðs til Indlands. Það breytti þó engu um það að hún varð mjög vinsæl og þekkt leikkona á Indlandi og fékk mörg hlutverk í þöglu myndunum. Á sama tíma tileinkaði hún sér jógafræðin og átti eftir að hafa mikil og sterk áhrif á líf margra. Árið 1930 gekk hún að eiga Jan Strakaty sem þá var sendiherra tékkneska konsúlatsins í Bombay (Mumbai). Í gegnum fjölbreytt störf eiginmannsins fór jógahjólið að snúast er hún var kynnt fyrir Maharaja og Maharni hjá Mysore sem leiddu hana á fund hirðjógakennara hallarinnar, Kristhnamacharya sem jafnframt var Ayurveda læknir og fræðimaður. Þrátt fyrir miklar efasemdir um að konur ættu að stunda jóga lét hann undan og ákvað að kenna Devi undirstöður jógafræðanna. En auk þess að kenna hirðinni rak Kristhnamacharya hatha jógaskóla fyrir unga pilta. Á þessum tíma var jóga aðeins fært karlmönnunum og sjálfur var Kristhnamacharya þeirrar skoðunnar að jóga væri ekki fyrir konur (hjákátlegt, því konur eru 90% jógaiðkenda í heiminum í dag).

Fyrsti jógakennarinn í Kína
indra devi
En það merkilega gerðist; Kristhnamacharya lét undan og hleypti Indru Devi inn í helgidóm yogashala fyrir tilstuðlan Maharaja og Magharini. Þrátt fyrir tregann í upphafi ber heimildum saman um að Kristhnamacharya hafi haft mikla ánægju af að kenna Devi og hafi gefið henni mikið af sinni djúpu visku. Devi ákvað að fylgja ströngum fyrirmælum Kristhnamacharya í hvívetna og honum fannst mikið til áhuga Devi koma. Hann ákvað því nokkru áður en Devi og eiginmaður hennar voru flutt yfir í sendiráð Kína að þjálfa hana upp sem jógakennara.
Devi og eiginmaður hennar fluttu nánar tiltekið til Shanghai og telja sagnfræðingar að með henni hafi fyrstu jógatímarnir verið kenndir í Kína nútímans. Eiginmaður Devi var mótfallinn kennslu hennar en hún fór sínu fram. Það var ekki var lítið sem Devi lagði á sig því hún kenndi að allt að 5 jógatíma á dag, að jafnaði 25 nemendum í einu.
Eftir að síðari heimsstyrjöldin skall á snéri Devi aftur til Indlands og gaf út sína fyrstu bók “Yoga, the Art of Reaching Health and Happiness”. Það er fyrsta bók vesturlandabúa um jóga sem gefin var út á Indlandi. Þar að auki er Indra Devi fyrsta vestræna manneskjan til að kenna jóga á Indlandi.


Jógakennari stórstjarnanna
2-Vintage-Yoga-Photo-Indra-Devi-teaching-Marilyn-Monroe-Yoga-1960
Þegar eiginmaður Devi féll frá árið 1946 toguðu Bandaríkin sterkt í hana. Devi er sögð hafa ákveðið hvert skildi halda eftir því hver yrði næsta skipaferð frá Indlandi. Það er skemmst frá því að segja að í janúar árið 1947 var Indra Devi stödd í Hollywood. Sem leikkona kunni hún ákaflega vel við sig þar og ekki leið á löngu þar til Hollywood stjörnurnar hófu að leita til hennar. Þær fundu fljótt að jógaæfingar, öndun, einbeiting og ró hugans hjálpaðu þeim að takast á við hlutverkin og lífið. Meðal Hollywood stórleikara sem lærðu jóga hjá Devi eru Gretu Garbo, Gloria Swanson, Jennifer Jones og Robert Ryan. Þá er talið afar líklegt að Marilyn Monroe hafi lært jóga af Devi, þótt það hafi ekki verið staðfest opinberlega. Einnig kenndi Devi jógatíma í baðstofum Elizabeth Arden í Arizona og Maine.

Nýtt hjónaband- ný tækifæri
Indra Devi gekk í hjónaband á ný árið 1953. Þá giftist hún Dr. Siegrid Knauer sem helgaði sig heildrænum lækningum. Þau komu sér fyrir í Tecate í Mexíkó þar sem Devi hóf að kenna jógafræðin og þjálfa jógakennara af miklum móð.
Ævintýrum Indru Devi var þó hvergi lokið því árið 1960 kallaði indverski sendiherrann í Moskvu hana á fund með öllum helstu leiðtogum Sovétríkjanna. Þegar hún snéri til æskustöðvannaí Moskvu átti hún fund með Alekesj Kosygin forsætisráðherra Sovjétríkjanna, Andrei Gromyko utanríkisráðherra og Anastas Mikoyan aðstoðarforsætiráðherra. Með þeim deildi hún bæði andlegri og líkamlegri reynslu sinni af jóga og gaf þeim innsýn inn í töfrandi leyndardóma jógafræðanna. Árangur fundarins var með besta móti því eftir hann ákvaðu leiðtogarnir að leyfa jógaiðkun í Sovétinu og vildu meira að segja gera það að undirstöðuiðkun í USSR. Þó ber að geta þess að Rússarnir leyfðu ekki jógaiðkun í landi sínu fyrr en það til hafði ferðast frá Indlandi til Kína og frá Ameríku til Evrópu. Enda alltaf á varðbergi gagnvart “hættulegri” hugmyndafræði. Árið 1992 kom út í Rússlandi bókin “Yoga for You” eftir Devi. Með því að greina á milli trúar og andlegrar viðleitni “spirituality” (orð sem alltaf er erfitt að þýða yfir á íslensku) tókst Devi að bægja frá efasemdum ráðamanna um að jóga væru trúarbrögð. Hún gat útskýrt að jóga væri heildræn aðferð og fræði til eflingar huga, anda og líkama. Það var ekki lítið afrek fyrir vestræna konu á tímum kalds stríðs og misréttis.

Sló í gegn í Buenos Aires
Með tíð og tíma þróaði Indra Devi jóga- og hugleiðslaðferð sem hún kallaði Sai Yoga, aðferð sem var innblásin af kennsluaðferðum Satya Sai Baba og undir áhrifum bhakti jóga og kennslu Krishnamacharya. Jógastíll hennar samanstóð að mestu af möntrum, bænum og hugleiðslu. Þetta var árið 1966. Rúmum 15 árum síðar eða 1982 þáði Devi boð um kenna jóga í Argentínu af hópi tengdum Sai Baba. Þess er skemmst að minnast að hún varð afar vinsæll kennari í Buenos Aires og áður en langt um leið hafði hún opnað sex jógastöðvar víðsvegar borginni.
Líklegt má telja að ástæðan fyrir því að aðferð hennar náði svo mikilli útbreiðslu hafi verið einstök áhersla á mildi og allstaðar var eftir ljúfmennsku hennar tekið. Indra Devi átti greiða leið að hjörtum fólks. Henni var lýst sem óttalausri í fasi og framkomu og alveg óhræddri við að gefa af sér mikinn kærleik. Gjarnan er talað um Indru Devi sem einstaklega ljúft náttúrafl.
indradeviLíkt og nokkuð hefur verið skrifað um, m.a. í hinu virta jógatímariti Yoga Journal fór Devi ekki í manngreinaálit. Hennar staðfasta lífsspeki var einfaldlega þessi. “Gefðu öllum kærleika og birtu. Þeim sem þykir vænt um þig, þeim sem hafa sært þig, þeim sem þú elskar og þeim sem þú þekkir ekki. Það breytir engu. Þú bara gefur af þér kærleik og birtu.” Punktur.

Guðrún Kristjánsdóttir

Guðrún Kristjánsdóttir

...er áhugakona um heimspeki, heilsu, lífeðlisfræði, jóga, hugleiðslu, flot og ferðalög. Á bakgrunn í blaðamennsku, leikhúsi, var kynningarstjóri Listahátíðar í Reykjavík, er stjórnmálafræðingur, jógakennari og stundaði meistaranám í sálgæslufræðum við guðfræðideild HÍ. Er að auki ljón, nörd, fæðu aktívisti og hin systirin í Systrasamlaginu.

Meira