c

Pistlar:

29. maí 2017 kl. 20:49

Guðrún Kristjánsdóttir (systir.blog.is)

Ertu glútenlaus án þess að þurfa að vera það?

Godhuma er orð sem kemur fyrir í Sanskrít. Go þýðir skynfæri og dhuma merkir að fjarlægja þokuna/skýið frá vitunum. Hin dýpri merking þessa er á þá leið af ef við höldum skynfærum/meltingarfærum okkar ekki hreinum þá þrífumst við ekki.

14918998_10209145966180634_2879880930389575524_oDr. John Douillard sérfræðingur í Ayurveda, náttúrulæknir og höfundur einnar umtöluðustu heilsubókar samtímans, Eat Wheat, bendir á að í dag byggi margra billjóna dollara bisness á að segja okkur að hveiti sé eitur. Gott og vel. En hann er ósammála. Kafar aðeins dýpra. Máli sínu til stuðnings ber Douillard saman vísdóm Ayurvedafræðanna og 600 vísindalegar rannsóknir og kemst að þeirri niðurstöðu að í raun sé almennilegt hveiti mjög góð fæða fyrir manninn. Og ekki bara góð heldur líka lífsnauðsynleg. En hann er eins og flestir sérfrðæðingur um heilsu að tala um hreint og heilt korn, ekki unnið, bleikt, næringarsnautt, erfðabreytt eða “dautt”.

Þó liggur alveg ljóst fyrir að sumir eiga erfiðara með að borða hveiti/glúten en aðrir. Eða að minnsta kosti þangað til meltingarfæri þeirra eru komin í samt lag á ný. Douillard fullyrðir að það að tala niður hveiti séu mistök á pari við þau sem Vesturlandabúar gerðu fyrir 60 árum þegar á þeir -með rangar upplýsingar eða í besta falli ónóga þekkingu - kenndu kólesteóli um allt sem miður fór. Faraldrar á borð við sykursýki, offitu, jafnvel þunglyndi og alveg örugglega slæm melting séu rakin til þess að við tókum góða olíu úr fæðunni okkar. 5.

Vissulega létti það mörgum lífið að losa sig við hveitið úr daglegu mataræði. En í augum dr. Douillard er það of einföld lausn við flóknu vandamáli. Hann segir að mörgum skjólstæðinga sinna sannarlega hafa liðið afar vel í upphafi eftir að hafa losnað við glútenið en innan nokkura vikna eða mánaða hafi allt farið í sama farið aftur. Meltingaróþægindin, uppþemban, bjúgurinn, þreytan og heilaþokan komi gjarnan af fullum þunga aftur þótt glútenið hverfi úr mataræði þeirra. Það sé því löngu tímabært að ráðast í rótina en ekki bara fást við einkennin.

Góð melting og hreinsun haldast í hendur
eat wheat
Hafir þú einhvern tímann átt auðvelt með að melta hveiti en líður illa af hveiti í dag er mjög líklegt að þú þurfir að velta við fleiri en einum steini, segir Douillard.
Í amerísku mataræði sem Íslendingar hafa að miklu leyti tileinkað sér í gegnum árin er mikið af auka- og eiturefnum. Margar vísbendingar eru um að hluti þeirra geti verið afar skaðleg og jafnvel krabbameinsvaldandi 4.
Eitt þessarra efna er kvikasilfur sem kemur m.a. til vegna útblásturs og mengunnar, er mikið að finna í sjávarafurðum og vofir yfir allt og öllu. Hann telur mjög líklegt að kvikasilfur og aðra þungamálma sé að finna í of miklu magni í okkur mörgum. Ekki síst vegna notkunnar skaðlegra snyrtivara. Á vef Umhverfisstofnunnar (ust.is) segir “Kvikasilfur er eitrað efni og getur í mjög lágum styrk skaðað tauga-, ónæmis- og hjarta- og æðakerfið auk starfsemi nýrna.”
Rannóknir styðja að þungamálmar, þ.m.t. kvikasilfur og mörg önnur eiturefni í umhverfinu nái ekki að brotna alveg niður í meltingavegi okkar, að líkaminn losi sig ekki við þá og þeir safnist upp. Slík efni og önnur geti hindrað og telft í tvísínu náttúrulegum meltingarensímum okkar sem eiga að brjóta niður og melta glúten sem og önnur þungmelt prótein. 1.
Uppsöfnun eiturefna í líkamanum geti haft gríðarleg áhrif okkur og hindrað að fæða sem er okkur nauðsynleg næri okkur ekki sem skyldi og fari jafnvel að snúast gegn okkur.
Hveitikornið hefur verið hluti af fæðu mannsins í milljónir ára. Já, milljónir. Þótt sumir vilji meina að það séu ekki nema 10 þúsund ár.

Við erum rótgrónar hveitiætur
Ekki er langt síðan mannfræðingar framkvæmdu ísótópíska kolefnis rannsókn á beinum og tönnum manna sem voru uppi fyrir 3.4 til 4 milljónum ára. Það er skemmst frá því að segja að í þeirri rannsókn fundust greinileg merki um C3 sem er m.a. að finna í hveiti og byggi. Það styður það að maðurinn hefur borðið hveiti í milljónir ára, ekki bara þúsundir. Þessar rannsóknir gáfu jafnframt til kynna maðurinn hafi lifað á frá 40 upp í 70 % á kornmeti sem flest innihélt glúten. 2

Eftir að ísöld gekk yfir urðu regnskógar Afríku og álfan öll ein stór hitabeltisgresja þakin glútenríku korni, þar á meðal hveiti og byggi. Rannsóknir gefa til kynna að á þeim tíma hafi það tekið manninn allt að tvo tíma að safna mat fyrir átök dagsins og mest af því hafi verið heilt korn. Og af hverju ekki? Það að safna korni sem var vel falið og verndað innan um hátt grasið var sjálfsagt mun öruggara en að elta ljón eða gazellu í morgun-, hádegis og kvöldmat.

 Fyrstu vísbendingarnar um að maðurinn hafi farið að borða “sjálfdautt” kjöt eru 2.5 milljón ára gamlar (semsé milljón árum síðar) og bara 500 þúsund ár eru liðin síðan veiðarnar hófust. Til upprifunnar hefur maðurinn verið “hveitiæta” í 3 til 4 milljónir ára. Við ættum því svona genetískt séð sannarlega að hafa hæfileika til að melta gott hveiti/glúten. Maðurinn býr nefnilega almennt yfir sérstökum glútenmeltingarensímum í munnvatni, vélinda, maga, ristli og smáþörmum, eða í öllum meltingarveginum. Þar þrífast líka fjöldi örvera sem styðja við meltingu glútens í öllum meltingarveginum.

Dr. John Douillard hefur skoðað meira og samkvæmt nýjum rannsóknum segir hann að fólk á glútenlausu fæði beri gjarnan í blóði sínu 4 sinnum meira af kvikasilfri og öðrum þungamálmum samanborðið við þá sem borða hveiti/glúten. Rannsóknir sýni að auki að þeir sem borði eingöngu glútenlaust búi yfir færri góðgerlum sem styrki ónæmiskerfið og meira af skaðlegum örverum, þ.e. að glútenleysið kunni að raska þarmaflórunni.

Þá bendi nýrri rannsóknir til að þessi tormelti matur, þ.e. korn, hveiti og baunir, styrki ónæmiskerfið. Án þeirra geti ónæmiskerfið farið að veikjast. 7,8,9.
Lykilinn að því að geta borðað gott hveiti á ný sé semsé að forðast kemískan mat, eða mat með kemískum efnum, hreinsa líkamann og forðast unna fæðu. Og enn og aftur; lífræn hrein fæða, miki grænt, umhverfisvitund og hreinsandi fæði af og til sé sennilega málið fremur en glútenleysið.

Ps. Fátt vinnur betur á þungamálum en græn lífræn fæða. Fremst meðal jafningja eru klórella og kóríander en gott lífrænt grænt garðagrænmeti er líka fyrirtak.

Heimildir:

1 http://www.ncbi.nlm.nih.gov/pmc/articles/PMC3988285/

http://archive.unews.utah.edu/news_releases/a-grassy-trend-in-human-ancestors-diet/.

3 http://donmatesz.blogspot.com/2011/06/gathering-wild-grains.html.

http://www.mountsinai.org/patient-care/service-areas/children/areas-of-care/childrens-environmental-health-center/childrens-disease-and-the-environment/children-and-toxic-chemicals.

5 https://health.gov/dietaryguidelines/2015/guidelines/

6 http://www.ncbi.nlm.nih.gov/pmc/articles/PMC4720344/

7 https://www.ncbi.nlm.nih.gov/pmc/articles/PMC3023594/

8 https://www.ncbi.nlm.nih.gov/pubmed/16377907

9 https://www.ncbi.nlm.nih.gov/pubmed/25802516

Guðrún Kristjánsdóttir

Guðrún Kristjánsdóttir

...er áhugakona um heimspeki, heilsu, lífeðlisfræði, jóga, sjósund, hugleiðslu og ferðalög. Á bakgrunn í blaðamennsku, leikhúsi, var kynningarstjóri Listahátíðar í Reykjavík, er stjórnmálafræðingur, jógakennari og stundaði meistaranám í sálgæslufræðum við guðfræðideild HÍ. Er að auki ljón, nörd, fæðu aktívisti og hin systirin í Systrasamlaginu.

Meira