c

Pistlar:

26. febrúar 2019 kl. 18:14

Guðrún Kristjánsdóttir (systir.blog.is)

Fiðrildadrykkurinn var mest instagrammaði drykkur síðasta árs

Fáir drykkir voru jafn oft myndaðir fyrir instagram á síðasta ári og drykkur sem kallast blár matcha. Skyldi nokkurn undra. Undurfagur. Blár matcha er sá allra ferskasti í hópi vinsælla og kraftmikilla jurtadrykkja sem margir drekka mun oftar til að hvíla sig á endalausu kaffiþambi. Að auki má segja að ný kynslóð heilsuunnenda hafi komist á snoðir um það að drykkir geti sannarlega gefið jafn mikið og góður matur.
Blár matcha var valinn fegursti drykkur síðasta árs af hópi fagurkera í netheimum.

 Blár matchaFlest þekkjum græna matcha drykkinn sem í grunninn er gerður úr ungum laufum tejurtarinnar og inniheldur margfalt meira af andoxunarefnum en grænt te. Við þekkjum líka mörg gullnu mjólkina eða túrmerik latteinn sem jógarnir færðu okkur og er bólgueyðandi og uppfullur af næringu.

Blár matcha byggir hins vegar tilvist sína á blómi sem kallast butterfly pea eða fiðrilda/baunablómið. Það er líka svona undurfallega blátt frá náttúrunnar hendi. Í bland við flóaða jurtamjólk er hann engu líkur nema ef vera kynni íslenskum aðalbláberjum.

Það er þó ekki svo að blómin sem drykkurinn byggir á séu eitthvert nýuppgötvað fyrirbæri í náttúrunni. Þau eiga sér langa sögu í austrænum jurtalækningum, þar með talið í þeim indversku (ayurveda) og þekkjast undir nafninu ciltoria ternrea.

Fiðrildabaunablómið býr yfir mörgum góðum kostum. En þótt það sé ekki eins andoxunarríkt og græna tejurtin er sagt að hún skerpi minni, dragi úr streitu og minnki depurð. Það kemur því ekki á óvart að markaðssetningin á bláum matcha hljómi þannig að um sé að ræða "bláan drykk við blús”. En að auki er bláa blómið sagt slá á síþreytu.

En eins og með allar fíngerðar jurtir er lítið varið í þær nema þær séu hreinar og lífrænt vottaðar. Þannig er bláa fiðrildabaunablómið ríkt af bíóflavíónóðum (auðvitað, það er blátt). Umfram allt er það þekkt fyrir fernt:

°Það eykur hárvöxt (jafnvel þannig að þau gráu hörfi).

°Ýtir undir kollagen framleiðslu húðar og dregur úr hrukkum.

°Styrkir sjón.

°Minnkar blús.

Semsé, blái drykkurinn er ekki bara vinsæll að því að hann lítur út eins og geimsýra. Hann er hollur og vel að merkja mjög bragðgóður. Og auðvitað komin til Íslands, í Systrasamlagið.

Sjá hér heimildir:

https://articles.mercola.com/teas/butterfly-pea-tea.aspx

 

 



Guðrún Kristjánsdóttir

Guðrún Kristjánsdóttir

...er áhugakona um heimspeki, heilsu, lífeðlisfræði, jóga, sjósund, hugleiðslu og ferðalög. Á bakgrunn í blaðamennsku, leikhúsi, var kynningarstjóri Listahátíðar í Reykjavík, er stjórnmálafræðingur, jógakennari og stundaði meistaranám í sálgæslufræðum við guðfræðideild HÍ. Er að auki ljón, nörd, fæðu aktívisti og hin systirin í Systrasamlaginu.

Meira