c

Pistlar:

2. apríl 2019 kl. 20:53

Guðrún Kristjánsdóttir (systir.blog.is)

Allt sem vinnur gegn sjúkdómum og elli

Rasayana er risastórt orð. Það þýðir allt sem vinnur gegn sjúkdómum og elli, verndar, umbreytir og endurnýjar orku. Magnaðar jurtir eru í þeim hópi.

Rasayna er ein af átta kvíslum Ayurveda fræðanna sem vert að gefa gaum til að halda í vellíðan og fyrirbyggja sjúkdóma fram á síðasta dag. Út á það ganga indversku lífvísindin; að fyrirbyggja og snúa á ójafnvægi, sem gæti með tíð og tíma valdið illvígum sjúkdómi.
Samkvæmt Ayurveda eru Tulsi og jurtablandan Chyawanaprach ásamt túrmerki og ashwagandha fjórar öflugstu jurtirnar/jurtablöndurnar sem styrkja Rasayana.

Það heyrir margt áhugavert undir Rasayana. Orðið kemur úr Sanskrít og merkir í bókstaflegri merkingu slóð (ayana) kjarnans (rasa), eða slóðin/leiðin að kjarnanum. Þar Chyawanprasher fjallað um hvernig við getum safnað okkur saman á ný og bætt lífsgæði okkar. Eins og allt í þessum stórkostlegu fræðum snýr Rasayana að ræktun hugar og líkama og því að næra andann. En þar sem um yfirgripsmikil fræði er ágætt að einbeita sér að þeim jurtum og þeirri jurtablöndum sem indversku lífsvísindin segja að verndi okkur hvað mest og best. Þetta eru semsé túrmerik og ashwagandha sem ég hef skrifað alloft um og hefur margvísindalega sannað gildi sitt. Hinar tvær og minna þekktar eru Holy basil, oft kölluð Tulsi og svo Chyawanaprash, sem er fornsöguleg jurtablanda. Margir þekkja hana sem kafasultuna.

Múltívítamínið Chyawanaprash
Ayurveda segir Chyawanaprash eitt öflugasta náttúrumeðalið til að kveikja meltingareldinn og styrkja um leið ónæmiskerfið. Sultan er sögð auka upptöku næringar, skerpa minnið, vera blóðhreinsandi, styrkja hjarta, þétta húð og næra vöðva. Það síðastnefnda er vegna þess að með bættri meltingu eykur Chyawanaprash upptöku próteina. Þannig eykst þróttur og þrek sem heldur okkur ungum á öllum aldri. Það kemur því tæpast á óvart að Chyawanprash – sem er gefin uppskrift að í hinum 5000 ára vedísku ritum- sé flokkuð sem sjálfur lífselexírinn; einhverskonar lýsi eða fjölvítamín indversku lífsvísindanna. Það er gaman að segja fá því að nýlega sýndi hin vísindalega mælieining ORAC að 1 kúfuð msk af Chaywanaprash samsvarar samanlagt í það minnsta 1 x avóvadói, 1 x kiwi, 1 x tómat og handfylli af spergilkáli, sellerí, eða romanie salati.

En hvað er það sem gerir Chyawanprash svona merkilegt? Flestum ber saman um að það sé hin hárfína blanda af 35 kryddum og amilaki (garðaberjum) sem er mjög C-vítamínríkur ávöxtur og ein þekktasta jurtin í Ayurveda. Amilaki eru í senn súr, herpandi og beisk og kemur einkum jafnvægi á pitta (sem er eldur og stjórnar meltingunni og vatn) og virkar líka vel á vata (loft og eter )og kafa (jörð og vatn). Því er hér um svokallaða þrí-dosha jurt að ræða, sem virkar fyrir allar líkamsgerðir og öll kerfi líkamans. Með blöndu af lækningajurtum verður Chyawanaprash líka sæt og sterk. Kafasultan geymir því fimm af sex bragðgæðum Ayurveda og virkar djúpt inn í vefi líkamans. En er eins og allt í þessum fræðum ekki skyndilausn heldur til að neyta yfir lengri tímabil til að njóta ávaxtanna.

Aðrar jurtir í Chyawanprash eru m.a. pippali (langi svarti piparinn), Ashwagandha og fjöldi annarra lækningajurta og krydda, en í litlum mæli þó. Þess vegna hentar kafasultan ungum sem öldum, sem gjarnan borðar hana beint upp úr krukkunni eða blandar henni í heitt vatn, heita kúamjólk eða annars konar mjólk eða vökva.

En hvað er Tulsi?
Holy Basil eða öðru nafni Tulsi er helgasta jurt Indverja. Gjarnan höfð í húsagörðum til að hreinsa og bæta umhverfið. En fyrir líkamann kemur hún jafnvægi á kafa orkuna (jörð og vatn), sem oft er í miklu ójafnvægi hjá Vesturlandabúum sem gjarnan eru þungir og að kljást við bjúg. Það er vegna of mikillar neyslu á sætu og söltu á kostnað þess sem er sterkt, beiskt, herpandi og súrt. Við það myndast slím í líkamanum og við eigum á hættu að þyngjast bæði andlega og líkamlega. Auk þess sem hitastigið í líkamanum kann að fara úr jafnvægi.

Tulsi losar um slím í líkamanum, sérstaklega í lungum og öndunarfærum og styrkir hjartað. En er líka þekkt fyrir að halda ofþyngd í skefjum og líkamshita í jafnvægi.
En svo má nefna til frekari fróðleiks að Tulsi er flokkuð sem þrí-dosha sattvísk jurt (þ.e. mjög jákvæð). Hún er talin skerpa á skilningavitunum og opna gáttina milli hjarta og huga. Og fyrir þá sem vilja kafa enn dýpra inn í Ayurveda fræðin geta þeir gúgglað að Tulsi er sögð hreinsa áruna. Og er t.d. þess vegna að finna víða í húsagörðum á Indlandi. En það verður vart vísindalega sannað í bráð.

Ps: Það er líka gaman að segja frá því að undir Rasayana falla líka góðmennska og heiðarleiki. Ekki er ólíklegt að það vinni líka gegn sjúkdómum og elli.

Guðrún Kristjánsdóttir

Guðrún Kristjánsdóttir

...er áhugakona um heimspeki, heilsu, lífeðlisfræði, jóga, sjósund, hugleiðslu, flot og ferðalög. Á bakgrunn í blaðamennsku, leikhúsi, var kynningarstjóri Listahátíðar í Reykjavík, er stjórnmálafræðingur, jógakennari og stundaði meistaranám í sálgæslufræðum við guðfræðideild HÍ. Er að auki ljón, nörd, fæðu aktívisti og hin systirin í Systrasamlaginu.

Meira