c

Pistlar:

26. febrúar 2020 kl. 12:49

Guðrún Kristjánsdóttir (systir.blog.is)

Vantar í þig allt Ojas?

Ef þú þráir umfram allt ekki bara góða heldur frábæra heilsu og vilt halda þér ungum/ungri sem allra lengst er lykilatriði að rækta Ojas-ið. Ojas er orð úr Sanskrít og merkir í stuttu máli sterk lífsorka sem birtist allt í senn sem líkamlegur styrkur, gífurlega öflugt ónæmiskerfi, falleg húð og tifandi andi.

Ojas er eitt af stóru hugtökunum í indversku lífsvísindunum (Ayurveda) og er jafnan ojas myndsögð hrein og fíngerð efni (orka) sem leysist úr læðingi þegar við meltum matinn sem við borðum og líka tilfinningar okkar og aðra umhverfisþætti. Þegar allt er eins og það á að vera. Líffræðilega er Ojas sú orka sem fer í hringrás um öll sjö vefjakerfi líkamans. Þegar við framleiðum mikið Ojas (einnig kallaður hunangslögur lífsins) finnum við til alsælu. Þá erum við að fá alla þá líkamlegu og andlegu næringu sem við þurfum á að halda.

Helstu merkin um hátt Ojas:

Líkamlegt:

 • Geislandi yfirbragð

 • Neisti í augunum

 • Líkamlegur styrkur

 • Framúrskarandi orka

 • Virk skilningavit

 • Engir verkir

 • Frábær heilsa og sterkt ónæmiskerfi

 • Léttur líkami og hugur

   

Hugur og tilfinningar:

 • Skýrleiki og fókus

 • Sterk lífsorka

 • Sterk sköpunarorka

 • Almenn vellíðunartilfinning

 • Hamingja og gleði

Til þess að komast í sem bestu tengslin við Ojas-ið mæla indversku lífvísindin aðallega með hreinni fæðu sem er jákvæð og nærandi. Fæðutegundir sem eru sagðar byggja upp besta Ojas-ið er matur sem býr yfir því að vera sætur, eðlisþungur/mettandi, olíukenndur, kælandi og mjúkur (ojá, aldrei vanmeta sætuna). Það eru t.d. döðlur, möndlur, ghee, saffran, sesamfræ, heilt korn (basmati hrísgrjón og hafrar) og jafnvel lífræn mjólk. Fast á hæla þess fylgja avócadó, bananar (mjög þroskaðir), fíkjur, sætar kartöflur, kúrbítur, hnetur (en þó sérstaklega möndlur), mung baunir (notaðar í kitcheri, hreinsunarétt jóganna) og ferskir árstíðarbundnir ávextir. Ein besta Ojas jurtin þykir svo hin margumtalaða jógajurt Ashwagandha en fleiri eru nefndar eins og kardimommur, túrmerik, pippali (langi piparinn) og jurtablandan Triphala.

Öllu erfiðara fyrir líkamann er að vinna úr þurrum mat og hráfæði en líka kjöti og fiski, en þó einkum mikið og illa unnum ónáttúrulegum mat. Fæða sem er of sölt eða súr, niðursoðin og frosin gerir lítið fyrir Ojas-ið. Jafnframt er áfengi sagt draga verulega úr Ojas-inu.

Þegar heilbrigt Ojas flæðir um líkama okkar vöknum endurnærð, húðin ljómar, tungan er hrein og bleik, við finnum karftinn og birtuna innra með okkur á öllum sviðum. Hugsunin er skýr, meltingin sterk og við ilmum.

Merki um lágt Ojas er oft merki um “ama” eða óhreinindi í líkama og sál (ómeltan mat og tilfinningar) og birtast sem andremma, skán á tungu (nota tungusköfu), lítil matarlyst, viðkvæm melting, stífni í líkama og sál, pirringur, þyngsli, þreyta, óskýrleiki, orkuleysi og þegar fólk er oft lasið.

 

Helstu merkin um lágt Ojas:

Líkamlegt:

 • Þurr húð

 • Kaldar hendur og færur

 • Veik skilningavit (ofurnæmi fyrir hljóði og ljósi)

 • Eymsli í vöðvum og liðum

 • Þyngsli líkama og anda

 • Minni líkamleg hæfni

 • Orkuleysi og þreyta verður algeng

 • Færð oft flensu

Hugur og tilfinningar:

 • Þokukenndur hugur

 • Léleg einbeinting

 • Neikvætt viðhof til lífsins

 • Ótti

 • Þunglyndi og eða einmannaleiki

Ojas er í raun niðurstaða meltingar/úrvinnslu úr öllum 7 vefjum líkamans (7 dhatus). Það eru plasma (blóðvökva) blóðrás, vöðvar, fita, bein, beinmergur/taugar og æxlunarfæri. Á Sanskrít kallast kerfin sjö sem halda okkur ungum; rasa, rakta, mamsa, medas, asthi, majja, og shukra respectively. Þetta eru kerfin sem búa til líkamann. En eins og allt í vedísku ritunum eru vefirnir sjö alls ekki einhliða og hanga sannarlega saman og með öðru.

 

Uppskrift af heitum Ojas drykk sem heldur okkur ungum:

12 afhýddar möndlur
200 ml vatn
5 mjúkar döðlur

1/2 tsk af kanil, kardimommum, engifer (og jafnvel túrmerki).

Aðferð:

Látið möndlurnar og döðlurnar liggja í bleyti yfir nótt. Þá er líka betra að taka af hýðið af möndlunum. Hellið öllu (þar með talið vökvanum) í blandara og bætið kryddum við. Blandið þar til allt verður silkimjúkt. Alls ekki sía. Hitið nú í potti að suðu eða flóið og drekkið sem heitan drykk. Það liggja nefnilega töfrarnir.

Njótið! 

Ps. Í nútíma vísindum er Ojas útskýrt sem samansafn líkamsvessa og ólíkra peptíða, eins og taugafrumna, hormóna, taugaboðefna og annarra efna sem hafa áhrif á öll kerfi líkamans og viðhalda kjörheilsu mannsins.

 

 

 

Guðrún Kristjánsdóttir

Guðrún Kristjánsdóttir

...er áhugakona um heimspeki, heilsu, lífeðlisfræði, jóga, sjósund, hugleiðslu, flot og ferðalög. Á bakgrunn í blaðamennsku, leikhúsi, var kynningarstjóri Listahátíðar í Reykjavík, er stjórnmálafræðingur, jógakennari og stundaði meistaranám í sálgæslufræðum við guðfræðideild HÍ. Er að auki ljón, nörd, fæðu aktívisti og hin systirin í Systrasamlaginu.

Meira