c

Pistlar:

3. október 2021 kl. 19:21

Guðrún Kristjánsdóttir (systir.blog.is)

Kitsarí - hin fullkomna næring. UPPSKRIFT

Kitserí (kitchari) er afar vinsæll indverskur réttur sem af mörgum er talinn hin fullkomna næring enda frábær blanda kolvetna, próteina og fitu. Í indversku lífsvísindunum, Ayurveda, er kitserí í miklum metum og gjarnan borðað meðfram andlegri iðkun eða þegar fólk vill draga sig í hlé um stund og hvíla meltinguna. Mjög algengt er að fólk fari á 3ja daga svokallaðan kitcherí hreinsun (og stundum lengri), jafnvel 1 x í mánuði yfir vetrartímann. Kitserí hreinsun er iðkuð víða um heim þar sem jóga- og ayurvedafræðin hafa náð vinsældum.

KITCHARIFyrir marga er kitsterí hin sanna töfrafæða, ekki síst yfir vetrartímann enda bæði vermandi, þægileg, bragðgóð og auðmelt. Mörgum þykir kitserí eiga betur við en kaldir safakúrar að hausti og vetri. Það frábæra við kitsérí er að það er einfaldur réttur en um leið grunnur sem hægt er að framreiða á fjölmarga vegu. Hafa sem heitan rétt eða þynnri, næstum eins og súpu. Svo má að leika sér með allskyns krydd og lækningajurtir sem eru bragðgóðar og líka góðar fyrir meltinguna og við ýmsu öðru. Góð 3ja daga kitserí hreinsun er ekki bara sögð bæta meltinguna heldur líka auka orku, skerpa á bragðlaukum og jafnvel bæta geð.

Best er að nota basmati hrísgrjón sem eru aðeins öðruvísi en þau venjulegu, auk þess sem þau fara betur í flesta. Basmati er hægt að fá bæði með hýði eða hvít. Mikilvægt er að hafa þau lífrænt vottuð, raunar eins og baunirnar og kryddin/lækningajurtirnar líka. Hýðisgrjónin eru næringarríkari en þau hvítu auðmeltari. Í kitserí eru langoftast mungbaunir. Heilar eða klofnar. Ef þú kýst að nota heilar, sem flestir gera, er mikilvægt að láta þær liggja í bleyti yfir nótt og enn betra er að láta þær spíra, sem er afar auðvelt. Settu í skál og láttu vatn rétt svo fljóta yfir baunirnar og skelltu léttu loki yfir (gæti verið diskur). Best er að þær standi við stofuhita á dimmum stað í einn til tvo sólarhringa. Gott er að hæra þarf aðeins í þeim öðru hverju. Það fer ekki framhjá neinum þegar mungbaunirnar spíra. Skolið vel af þeim og hrísgrjónunum líka áður en þið sjóðið.

Svo er það ghee-ið eða skírða smjörið. Það er ómissandi í kitserí og sú frábæra fita sem fullkomnar þennan rétt. Ghee samanstendur af miðlungslöngum fitusýrum sem nýtast okkur beint sem vitsmunaleg orka og kemur jafnvægi á hormónabúskap líkamans. Fyrir þá sem ekki vita er ghee “crème dela crème” eða olían í smjörinu af mörgum talin tærasta og næringarríkasta fitan sem jörðin gefur af sér.

 

INNIHALD:

1 bolli basmati hvít eða brún hrísgrjón

1/2 bolli mung baunir
2 msk ghee

1 msk af kitchari kryddblöndu sem er svona:

1/4 tsk gul eða svört sinnepsfræ

1/2 tsk kúmín fræ

1/2 tsk túrmerikduft

1 og 1/2 tsk kóríander duft

1/2 tsk fennel duft

Asafoetida á hnífsoddi (má sleppa, stundum erfitt að finna).

1 tsk saxaður ferskur engifer

1 tsk náttúrlegt salt

6 bollar vatn

AÐFERÐ:

Hreinsið baunir og hrísgrjón vel með því að láta t.d. vatn renna yfir þau í gegnum sigti.

Notið meðalstóran pott og stillið á meðalháan hita. Bræðið um 1 msk af ghee-i. Setjið út í sinnepsfræ og látið poppast. Bætið við kúmínfræjum, túrmerikdufti, kóríander- og fenneldufti og asafoetida (ef þið notið það). Síðan söxuðum ferskum engifer. Látið malla í sirka mínútu. Bætið nú hrísgrjónum og mungbaunum út í. Hrærið aðeins í og þá er kominn tími til að setja út í 6 dl af vatni. Látið sjóða við vægan hita í 15 til 20 mínútur. Takið þá af hellunni, takið pottlokið af og setjið viskastykki yfir og látið pokklokið aftur á. Látið standa í 20 mínútur.

Nú er komið að því að borða það en áður en þið gerið skal setja restina af ghee-inu ofan á. Saltið eftir smekk og njótið. Þessi uppskrift ætti að duga fyrir 2 eða 1 í hádegis og kvöldmat.

Ef þið viljið bæta við grænmeti hafið það auðmeltanlegt. Það eru gulrætur, aspas, grænar baunir, grasker, kúrbítur eða sæt kartafla.

 

Hvað kryddin/lækningajurtirnar gera:

Krydd Kóríander: Kælir allar brennandi heitar tilfinningar í líkamanum. Róar pirring í meltingarkerfi. Styrkir meltingu. Lægir vindgang og uppþembu.

Kúmín: Sanskrítheiti þess þýðir einfaldlega „að stuðla að meltingu. Meðhöndlar slaka meltingu. Hjálpar til við frásogun næringarefna. Lægir uppþembu og loftgang.

Fennel: Hitar meltingu, kemur í veg fyrir þrengsli og stöðnun í meltingunni. Hjálpar til við meltingaróþægindi, krampa, ógleði, vindgang og almennt slæma meltingu.

Túrmerik: Dregur úr sjúkdómsvaldandi bakteríum og eyðir eiturefnum. Líka sagt forvörn gegn krabbameini í þörmum. Meðhöndlar magasár. Bætir meltingargetu og hreinsar blóð. Hreinsar þarmasýkingar og styrkir slímhúð.

Sinnepsfræ: Þau eru sveppa- og bakteríudrepandi, bæta meltingu og draga úr vindgangi og krömpum.

Asafoetida: er þekkt jurt á Indlandi en minna þekkt á Vesturlöndum. Hún er sögð draga úr krömpum, losa slím og vera bólguhemjandi. Oft er talað um að hún auki blóðflæði um magasvæði og leg og sé notuð til að drepa snýkjudýr. Örlítið magn af Asafoetida er jafnan notað í kitsterí en þó alls ekki í öllum uppskriftum.

Salt: Það er alþekkt fyrir að örva meltingu og hjálpa til við að halda vökva.

Samkvæmt Ayurveda fræðunum kemur hreinsandi kitserí jafnvægi á allar „doshurnar“. Líkamsgerðirnar, vata, pitta og kapha.

 

Ps: Systrasamlagið býður annað slagið upp á 3ja daga kitserí hreinsun. Fylgist með á www.systrasamlagid.is

 

Guðrún Kristjánsdóttir

Guðrún Kristjánsdóttir

...er áhugakona um heimspeki, heilsu, lífeðlisfræði, jóga, sjósund, hugleiðslu og ferðalög. Á bakgrunn í blaðamennsku, leikhúsi, var kynningarstjóri Listahátíðar í Reykjavík, er stjórnmálafræðingur, jógakennari og stundaði meistaranám í sálgæslufræðum við guðfræðideild HÍ. Er að auki ljón, nörd, fæðu aktívisti og hin systirin í Systrasamlaginu.

Meira