c

Pistlar:

1. apríl 2012 kl. 13:31

Unnur Valborg Hilmarsdóttir (unnurvalborg.blog.is)

Lífslexía úr flugstjórnarklefanum

Ég hef verið svo lánsöm undanfarin ár að hafa fengið að ferðast mikið. Eins og flestir flugfarþegar þá sit ég aftur í vél, nýt góðrar þjónustu og velti svo sem ekki mikið fyrir mér hvað fram fer í flugstjórnarklefanum. Þar sitja sérfræðingar sem ég treysti að viti hvað þeir eru að gera og hafi hlotið nauðsynlega þjálfun.

Einhverju sinni var ég á leið frá London til Íslands. Ég hafði komið mér makindalega fyrir í sætinu þegar flugfreyjan uppýsir farþega um nöfn flugstjóra og flugmanns. Mér til ánægju var vélin undir stjórn gamals vinar sem ég hafði ekki séð lengi. Ég bað flugfreyjuna að bera flugstjóranum kveðju Flugstjórnarklefimína og stuttu síðar fékk ég boð um að koma fram í og heilsa upp á kappann. Enn var nokkur stund í flugtak svo ég þekktist boðið. Ég hafði komið í flugstjórnarklefa, mörgum árum áður og vissi svo sem hvernig þar var umhorfs. Fátt kom því á óvart en að loknum fagnaðarfundum bauð þessi vinur minn mér að sitja fram í í flugtakinu. Það hafði ég aldrei upplifað áður svo ég lét ekki segja mér það tvisvar. Ég kom mér fyrir í afar litlu sæti fyrir aftan flugmanninn og setti á mig heyrnartól svo ég gæti fylgst með fjarskiptum vélarinnar við flugturn.

Skemmst er frá því að segja að ég sat fyrir aftan þessa snillinga flugtakið á enda algerlega orðlaus. Samvinna þeirra var fumlaus, þeir fylgdu fyrirfram skýrt skilgreindum ferlum og augljóst var að þeir vissu upp á hár hvað þeir áttu að gera og hvenær. Óteljandi takkar og mælar í flugstjórnarklefanum sem ég hafði ekki hugmynd um hvaða hlutverki gengdu. Óskiljanleg orð og setningar sem sífellt glumdu í heyrnatólunum sem hefðu allt eins getað verið kínverska. Það var ekki ofsögum sagt að í þessu umhverfi vissi ég hvorki haus né sporð á því sem fram fór, hvað kæmi til með að gerast næst og hvernig hlutirnir virkuðu. Við komumst á loft eftir að hafa ekið góðan spotta um flugvöllinn eftir óskiljanlegum leiðbeiningum flugturnsins. Alfa, Delta, Bravó og guð má vita hvað hljómaði í eyrum mér.

Þegar flugtakinu var lokið tók ég af mér heyrnartólin og stundi upp úr mér einhverju í ætt við: „hvernig farið þið að þessu, hvernig vitið þið hvað á að gera næst, hvaða takki er hvað, hvað flugturninn er að segja. Þið eruð ótrúlegir, þvílík samvinna“ o.s.frv. Ég var rasandi yfir þessu og kannski líka yfir vanmætti mínum við þessar aðstæður.  Vinur minn með þeirri stóísku ró sem gjarnan einkennir þá sem bera mikla ábyrgð sagði: „Unnur mín, allt sem þú kannt, það er auðvelt.“

Allt sem þú kannt, það er auðvelt. Óteljandi skipti síðan hef ég sagt þessa setningu. Við mig sjálfa og aðra, maður á mann, við hópa, stóra sem smáa. Vinur minn flugstjórinn minnti mig á það að á bak við þá samvinnu og fumlausu vinnubrögð sem ég varð vitni að lá áratugalöng þjálfun og reynsla. Án þeirrar þjálfunar og reynslu hefðu þessir tveir menn ekki verið á þessum stað, á þessum tíma. Þeir kunnu það sem þeir áttu að gera og því var það þeim auðvelt. Ég kann eitthvað annað sem reynist mér auðvelt en þeim hugsanlega erfitt. Þú kannt eitthvað allt annað sem ekkert okkar hinna getur og okkur finnst flókið og erfitt.

Síðan þetta atvik átti sér stað hef ég tamið mér að þakka fyrir það sem ég kann og meta það í stað þess að fyllast vanmætti yfir snilli og kunnáttu annarra. Mín snilli liggur á öðrum sviðum en þeirra, sem betur fer.

Unnur Valborg Hilmarsdóttir
Stjórnendamarkþjálfi
www.vendum.is

Unnur Valborg Hilmarsdóttir

Unnur Valborg Hilmarsdóttir

Hofundur er stjórnendaþjálfari, eigandi www.lead1st.com, adstodarmadur.is og annar þjálfara á www.kvennahelgi.is

 

Meira