c

Pistlar:

5. apríl 2012 kl. 12:08

Unnur Valborg Hilmarsdóttir (unnurvalborg.blog.is)

Þú getur meira en þú heldur

Þeir sem haft hafa aðgang að interneti undanfarin ár hafa líklega allir séð einhverja útgáfu af sögu Paul Potts, farsímasölumanninum frá Wales sem söng sig inn í hug og hjörtu bresku þjóðarinnar í hæfileikakeppninni Britain's Got Talent fyrir 5 árum. Ef þeir hafa ekki séð Paul Potts, þá er líklegt að þeir hafi séð Susan Boyle sem keppti í sömu keppni eða einhverja þeirra fjölmörgu annarra sem risu úr öskustónni og sýndu ótrúlega hæfileika þrátt fyrir að útlitið gæfi þá ekki til kynna. Sögur þessa fólks vekja hjá okkur hinum hughrif og ganga því eins og eldur í sinu um netheima.

Ég man þegar ég sá myndbandið með Paul Potts fyrst. Ég var í Þýskalandi og var myndbandið notað til að hjálpa hópi reyndra stjórnenda að velta fyrir sér hvort hugsanlega byggi meira í starfsmönnum þeirra en þeir héldu. Ég og aðrir í salnum fengum gæsahúð, slík voru hughrifin. Getur  verið að við dæmum starfsmenn okkar eða samferðafólk of hart og að í þeim búi meira en við höldum. Um það voru allir viðstaddir sammála. Klárlega.

Síðan hef ég fylgst með Paul Potts. Hann snerti einhverja strengi í hjarta mér umfram aðra sem settir hafa verið í svipaða aðstöðu og ratað hafa á veggi facebook síðna víða um heim. Það var eitthvað við hann, fötin sem pössuðu honum illa, brotin framtönnin, sorgmæddur svipur, titrandi neðrivör. Hann vissi ekki hvað hann átti af sér að gera á sviðinu og fólk í salnum skynjaði það. Þegar hann sagðist ætla að gera það sem hann væri fæddur til að gera, að syngja óperu, þá sást augljóslega  á andlitum bæði dómara og áhrofenda að fólk átti litla von á því að hann myndi standa sig eins framúrskarandi vel og hann gerði. Kolamolinn sem varð að demanti, ljóti andarunginn sem varð að fallegum svani. Enn þann dag í dag fæ ég gæsahúð þegar ég horfi á myndbrotið.

Paul Potts hefur í kjölfarið á sigrinum í Britain's Got Talent vegnað vel. Hann hefur ferðast um heiminn og sungið fyrir tónlistarunnendur, meðal annars á Íslandi. Í grein sem ég rakst nýverið á segir hann sjálfur frá því hvað gerst hefur síðan hann sigraði fyrrnefnda hæfileikakeppni. Og enn og aftur fékk ég gæsahúð.

Paul Potts á ennþá ódýru jakkafötin. Hann er búinn að laga tönnina og er að gera það sem hann var fæddur til að gera. Á fimm árum hefur hann gert hluti sem hann hefði aldrei ímyndað sér að hann gæti gert. Ólíkt mörgum sem hafa tapað jarðtengingunni við skjótan frama þá virðist hann standa föstum fótum á jörðinni og vita upp á hár hver hann er og hvað hann stendur fyrir.

En hver er stóri lærdómur Paul Potts? Jú nefnilega sá að  þú munt aldrei vita hvers þú ert megnug(ur) nema þú látir á það reyna. Við búum öll yfir ótakmörkuðum möguleikum sem við náum aldrei svo mikið sem að sjá fyrir okkur nema við tökum áhættu. Enn og aftur þessi títt umræddi þægindahringur – fyrir utan hann liggja tækifærin eins og Paul Potts hefur svo sannarlega fengið að reyna. Hann þurfti að fara út fyrir þægindahringinn þegar hann fór í áheyrnarprufuna sem færði honum frægð og frama. Hefði hann geta sleppt henni? Vissulega, en hann tók skrefið. Og í kjölfarið fjölmörg önnur út fyrir þennan blessaða ímyndaða hring sem heldur aftur af okkur.

299215_295709373775951_100000106713665_1429327_1347513636_n

Skref Pauls út fyrir þægindahringinn voru stór og fyrir framan milljónir sjónvarpsáhorfenda. Fæst okkar fá tækifæri til að taka slík risaskref. En tækifæri til að fara út fyrir þægindahringinn eru engu að síður fyrir framan okkur á hverjum degi, í leik og starfi. Sum stór en önnur lítil. Alltof oft kjósum við að líta framhjá þeim, sleppa þeim og missum þar af leiðandi af tækifærinu til að sjá hvers við erum megnug. Við segjum nei takk, gerum okkur upp afsökun og rænum okkur tækifærinu til að vaxa.

Mun okkur mistakast ef við gerum meira af því að grípa þessi tækifæri? Klárlega. En er ekki betra að hafa þó allavega reynt í stað þess að líta til baka á ævikvöldinu og sjá eftir því sem við gerðum ekki?

Hafðu augun opin fyrir tækifærunum sem eru allt í kringum þig til þess að fara út fyrir þægindahringinn. Aðeins þannig mun hann stækka og þú átta þig á hvers þú ert raunverulega megnug(ur). Þú gætir komið sjálfri/sjálfum þér, og heiminum, á óvart.

Grein Paul Potts má finna í heild sinni hér.

Unnur Valborg Hilmarsdóttir

Unnur Valborg Hilmarsdóttir

Hofundur er stjórnendaþjálfari, eigandi www.lead1st.com, adstodarmadur.is og annar þjálfara á www.kvennahelgi.is

 

Meira