c

Pistlar:

19. júní 2012 kl. 13:07

Unnur Valborg Hilmarsdóttir (unnurvalborg.blog.is)

Beint í mark...

Flest vitum við að stærstu tækifærin liggja fyrir utan þægindahringinn. Þægindahringurinn er samheiti yfir það sem okkur finnst þægilegt, aðstæður sem okkur líður vel í, það sem við kunnum og getum. Bandarísk vinkona mín sem komin er vel yfir miðjan aldur hefur tamið sér undanfarin ár að gera eitthvað á hverju ári sem hún er logandi hrædd við. Með því móti vill hún meina að hún stækki sjálfið, víkki þægindahringinn og nái þar með meiri árangri. Þegar ég hitti hana síðast var næst á dagskrá að fara í hellaköfun (vert er að taka fram að hún er búin með fallhlífastökk, teygjustökk, loftbelgjaferð, kappakstur o.fl. af þeim toga sem við hin myndum aldrei láta okkur dreyma um að gera). Hver svo sem leið okkar er að því að efla okkur og styrkja þá þekkjum við flest þá vellíðan sem felst í því að klára með góðum árangri verkefni sem okkur fannst erfitt og við töldum jafnvel að væri okkur ofviða. Við það að ljúka verkefninu fáum við fullvissu um að við getum meira en við héldum og getum tekist á við stærri áskoranir í framhaldinu.

 299215_295709373775951_100000106713665_1429327_1347513636_n 

Myndin hér að ofan hefur gengið á samfélagsmiðlum um nokkurt skeið og sýnir á táknrænan hátt hvar tækifærin liggja. Með því að sitja inni í þægindahringnum er líklegt að við verðum af tækifærum. Það er synd að hegðun okkar sjálfra geri það að verkum að við verðum af tækifærum. En það er því miður alltof oft raunin. Hræðsla okkar sjálfra gerir það að verkum að við látum ekki vaða. „nei ég get þetta ekki, þetta mun aldrei ganga upp, hvað mun fólk segja um mig og ég hef aldrei gert svona áður“ eru meðal þeirra hugsana sem gera það að verkum að við sitjum inni í þægindahringnum.

Hættusvæðið

Eins ótrúlega og það hljómar þá er hægt að fara of langt út fyrir þægindahringinn. Þegar við gerum hluti sem eru svo langt fyrir ofan okkar getu að tilraunir okkar eru dæmdar til að misstakast. Okkur skortir nauðsynlega hæfni til að geta mögulega náð árangri. Ef ég myndi ákveða að hlaupa maraþonhlaup á morgun þá væri sú tilraun langt út fyrir minn þægindahring, svo langt fyrir utan að það væri vitleysa og dæmt til að mistakast. Mig skortir hæfni og getu til að takast á við slíka þrekraun. Líklegt er að slíkt myndi auk þess að mistakast gera það að verkum að ég yrði fráhverf hlaupum. Afleiðingarnar hefðu því neikvæð áhrif á sjálfsmynd mína. Tekið er dæmi um maraþonhlaup en hið sama getur átt við stofnun fyrirtækis, að halda ræðu fyrir stóra hópa, halda tónleika o.s.frv.

Þægindaskotskífan

Um daginn las ég áhugaverða grein þar sem þægindahringurinn títt umræddi er ekki hringur. Heldur skotskífa. Þægindaskotskífan. Hættusvæðið kemur þar líka við sögu.

Innsti punkturinn er þægindahringurinn. Það sem okkur finnst þægilegt. Það sem við kunnum, hlutir sem við höfum gert svo árum skiptir og okkur líður vel með.Þægindaskotskífa

Næstu tveir hringir eru Lærdómshringirnir. Þar finnst okkur óþægilegt að vera. Við erum ekki viss um okkur sjálf en það er þarna sem mestur lærdómur fer fram. Þarna tökumst við á við áskoranir sem stækka okkur. Ráðumst til atlögu við verkefni sem við erum ekki viss um að við ráðum við en teljum að hæfni okkar og geta styðji við árangur. Við teygjum á okkur.

Ysti hringurinn er hættusvæðið. Þar erum við komin svo fjarri hæfni okkar og getu að lítill sem enginn lærdómur getur farið fram. Hræðslan og óttinn verða lærdómnum yfirsterkari. Með því að stökkva úr þægindahringnum og alla leið á hættusvæðið erum við að bjóða hættunni heim og auka líkur á því að okkur mistakist svo hrapallega að það skaði sjálfsmynd okkar.

Til að ná auknum árangri ættum við að verja 30% tíma okkar í lærdómshringjunum. Þar tökum við erfiðar ákvarðanir, tökumst á við krefjandi verkefni, sækjum fundi með fólki sem hefur meiri þekkingu en við, tökum þátt í nefndarstörfum um málefni sem við höfum litla þekkingu á, tökumst á við leiðtogahlutverkið, höldum ræður eða hvað það er sem við verðum að gera, hvort sem okkur langar til eða ekki. En þó með þeim formerkjum að hæfni okkar og geta styður við lærdóm á þessum sviðum.

Með tímanum sjáum við að þessir hlutir innan lærdómshringjanna eru ekki svo erfiðir. Við skiljum ekki hvað það var sem við hræddumst og þægindahringur okkar hefur stækkað og felur nú í sér hluta lærdómssvæðisins. Þegar það gerist þá er kominn tími til að ýta sér út í næsta lærdómshring. Því við verðum stöðugt að teygja á okkur. Þegar við hættum að teygja á okkur þá stöðnum við.

Þægindahringurinn er því ekki „einn hringur“ heldur fremur þægindaskotskífa samsett úr mörgum hringjum. Lærdómshringirnir geta verið fleiri en tveir og með tímanum renna þeir saman við þægindahringinn og stækka hann. Höfum í huga að fyrir utan allt saman er hættusvæði. Ögrum því ekki heldur sættum okkur við það og verjum tíma okkar í að vinna með þá þætti sem rúmast innan lærdómshringjanna. Við það stækkar þægindahringurinn smátt og smátt og stökkið yfir á hættusvæðið verður því minna og ekki eins hættulegt.

Unnur Valborg Hilmarsdóttir

Unnur Valborg Hilmarsdóttir

Hofundur er stjórnendaþjálfari, eigandi www.lead1st.com, adstodarmadur.is og annar þjálfara á www.kvennahelgi.is

 

Meira