c

Pistlar:

2. apríl 2007 kl. 20:56

Unnur Valborg Hilmarsdóttir (unnurvalborg.blog.is)

Þrisvar sinnum meiri afköst?

"ÞESSAR reglur hljóta að virka fyrst þær hafa verið til í allan þennan tíma," heyrði ég haft eftir ónefndum íslenskum forstjóra sem ræddi við starfsmenn sína um nýlega birta grein í vikuritinu Economist. Greinin sú ber yfirskriftina "Samræðulistin" og fjallar um uppruna og sögu þeirra samræðulögmála sem mælskustu menn undanfarinna árhundraða hafa byggt á. Orð forstjórans vísa í undirtitil greinarinnar – "með undraverðum hætti standast samskiptalögmál tímans tönn".

Í greininni eru kynntir til sögunnar ólíkir samræðu- og málsnillingar, svo sem Cicero, Churchill og Virginia Woolf, svo einhverjir séu nefndir. Sá fyrsti, rómverski heimspekingurinn Cicero, er sagður hafa skrifað árið 44 fyrir Krists burð að það væri ókurteisi að grípa fram í og að í góðum samræðum yrðu þátttakendur að "skiptast á" um að tala. Fleiri "samræðureglur" Ciceros eru að tala skýrt, nota þjált mál og tala ekki of mikið – sérstaklega þegar aðrir vilja komast að, trufla ekki, sýna kurteisi, taka á alvarlegum málum með alvarlegum hætti og af fágun á þeim léttvægari, gagnrýna ekki fólk því á bak, halda sig við almennt efni, tala ekki um sig sjálfan og umfram allt missa aldrei stjórn á skapi sínu. Er þetta ekki nokkurn veginn það sem okkur er kennt til að eiga góð samskipti við fólkið í kringum okkur enn þann dag í dag?

Seinni tíma spámenn virðast skv. fyrrnefndri grein hafa byggt á speki Ciceros. Enda eins og máltækið segir "ekkert er nýtt undir sólinni". Dale Carnegie er einn þeirra og byggir á þessum reglum í bók sinni Vinsældir og áhrif sem út kom fyrir rétt rúmum 70 árum (á frummálinu How to win friends and influence people). Bókin er enn á metsölulista Amazon.com, þegar þetta er skrifað í 57. sæti, og hefur selst í yfir 16 milljónum eintaka. Í bókinni safnar Carnegie saman 30 reglum í mannlegum samskiptum sem hann viðaði að sér hvaðanæva – meðal annars frá tíma Ciceros. Þessar reglur miðast að því að vera vingjarnlegri einstaklingur og byggja upp traust, skapa jákvætt umhverfi til að afla samvinnu og verða sterkari leiðtogi. Með öðrum orðum að byggja upp stórt og traust tengslanet, sem í viðskiptaumhverfi dagsins í dag getur skilið á milli feigs og ófeigs. Reglurnar hafa staðist tímans tönn og eru stjórnendum og starfsmönnum leiðarljós um allan heim.

Frumatriði í umgengni okkar við annað fólk skilgreinir Carnegie í fyrstu þremur reglunum. Sú fyrsta segir okkur að gagnrýna ekki, fordæma né kvarta. Önnur reglan kveður á um að við skyldum hrósa fólki á einlægan og heiðarlegan hátt og sú þriðja að vekja ákafa löngun hjá öðrum. Þessar þrjár reglur eru þær grundvallarreglur sem hver sá sem vill ná árangri í hvers kyns samstarfi og samvinnu verður að tileinka sér. Í Morgunblaðinu á dögunum birtist grein þar sem vitnað var í rannsókn sem náði yfir 10 ár, til 200 þúsund undir- og yfirmanna, og leiddi í ljós að þeir starfsmenn sem fá reglulegt hrós og þakklæti frá yfirmönnum sínum leggja harðar að sér en aðrir og geta fyrir vikið afkastað allt að þrisvar sinnum meiru. Stjórnandi sem ekki hrósar fer því á mis við mikið. Þessar þrjár fyrstu reglur Vinsælda og áhrifa eru því fljótar að borga sig séu þær notaðar reglulega. Ekkert er nýtt undir sólinni!

Þrátt fyrir að samskipti hafi breyst mikið frá því á dögum Ciceros, og enn meir frá því á dögum Carnegies, þá breytist seint nauðsyn þess að búa yfir hæfni í mannlegum samskiptum. Það er jafnvel flóknara að eiga samskipti með þeim rafræna hætti sem verður sífellt stærri þáttur viðskipta. Hætta á misskilningi og að viðtakandinn lesi á milli línanna er meiri þegar sendur er tölvupóstur en þegar staðið er augliti til auglitis. Þörfin á leiðarljósi í samskiptum verður því sífellt meiri eftir því sem samskiptaleiðunum fjölgar. Hvort sem leiðarljósið er frá Cicero, Carnegie eða hverjum öðrum gildir einu því sama hve tækninni fleygir fram þá eru það aldagömul lögmál sem staðist hafa tímans tönn sem virka. Leiðarljós þessara manna áttu við árið 44 fyrir Krist, árið 1936, árið 2007 og eiga vafalítið eftir að eiga við árið 2050. Eina sem við í dag þurfum að gera er að tileinka okkur lítinn hluta þessara reglna í einu, annars förum við mikils á mis.

Höfundur er framkvæmdastjóri Dale Carnegie á Íslandi.

Unnur Valborg Hilmarsdóttir

Unnur Valborg Hilmarsdóttir

Hofundur er stjórnendaþjálfari, eigandi www.lead1st.com, adstodarmadur.is og annar þjálfara á www.kvennahelgi.is

 

Meira