c

Pistlar:

4. apríl 2007 kl. 16:39

Unnur Valborg Hilmarsdóttir (unnurvalborg.blog.is)

Man fólk eftir því sem þú segir?

Hvernig halda á eftirminnilega ræðu 

Samkvæmt Gallup könnun sem unnin var í Bandaríkjunum fyrir nokkrum árum er það að standa fyrir framan hóp og tjá sig í öðru sæti fyrir það sem fólk hræðist mest, næst á eftir hræðslu við snáka. Það er nú samt einu sinni þannig að fæst komumst við hjá því að tjá okkur með einum eða öðrum hætti viljum við ná markmiðum okkar í lífinu og gildir þá einu hvort við þurfum að tala við einn eða fleiri. Við þurfum að þjálfa upp nýja starfsmenn, hvetja fólk áfram, taka á móti viðskiptavinum og sum okkar jafnvel að halda kynningar um fyrirtæki okkar eða vöru fyrir framan stóra hópa af fólki.  Og svo eru það þeir sem velja að starfa á pólitískum vettvangi. Þeir verða að geta tjáð sig af ákefð og áhuga á hnitmiðaðan og skilmerkilegan hátt um sín baráttumál til að rödd þeirra kafni ekki í sannfæringakrafti andstæðinganna.

Efni eða framsetning?
En hvað er það sem gerir fyrirlesara/ræðumann áhugaverðan? Eru það efnistökin, er það sannfæringin, er það málskrúðið, er það hátíðleiki, virðuleiki eða sjarmi? Ég las á dögunum áhugaverða niðurstöðu sem var samantekt á mati nemenda í tjáningaráfanga í háskóla í Bandaríkjunum. Við lok hvers áfanga flytja nemendur fyrirlestur og meta frammistöðu samnemenda sinna. Eins og gefur að skilja leggja sumir nemendur höfuð áherslu á innihald og efnistök á meðan aðrir leggja höfuð áherslu á kynninguna sjálfa, kynningartæknina. Ef settir eru upp tveir valkostir:
A. Framúrskarandi efnistök en kynningartækni undir meðallagi
B. Framúrskarandi kynningartækni en efnistök undir meðallagi
Hvor valmöguleikinn fær hærri einkunn hjá nemendunum?
RÉTT...B...að sjálfsögðu. Lykillinn til þess að halda ógleymanlegt erindi er því að huga að báðum atriðunum, efnistökin séu framúrskarandi en ekki síður kynningartæknin. Efninu sé komið á framfæri á áhugaverðan og lifandi máta. Blæbrigði notuð í tjáningu. Lífleg líkamstjáning. Hæfileg notkun hjálpargagna. Gott samband við áhorfendur, hvort sem er með augnsambandi eða þátttöku. Allt eru þetta þættir sem auðveldlega má þjálfa upp. Það fæðist enginn framúrskarandi í kynningartækni.
 

4 atriði sem hjálpa
Eftirtalin atriði hjálpa okkur að koma skoðunum okkar á framfæri á kraftmikinn og eftirminnilegan hátt.
 

Öryggi
Góðir fyrirlesarar/ræðumenn verða að sjálfsögðu stressaðir eins og aðrir en munurinn á þeim og öðrum er sá að þeir láta það ekki sjást. Með því að halda góðu augnsambandi við viðmælendur, hreyfa okkur á eðlilegan hátt við flutning efnisins, nota hjálpargögn eins og PowerPoint kynningar eða sýnishorn af öryggi og tjá okkur óhikað (forðast hikorð og kæki) endurspeglum við öryggi okkar til hópsins. Góður undirbúningur hjálpar okkur að halda stressinu í lágmarki og getur oft borgað sig að kynna sér vel salinn sem við erum að tala í, gefa sér tíma til að læra vel á öll tæki, vera viss um að öll hjálpargögn séu í lagi og á sínum stað.
 

Trúverðugleiki
Með trúverðugleika er átt við hversu mikið traust áheyrendur bera til fyrirlesarans/ræðumannsins. Til að vera trúverðuglegur þarf fyrirlesari að bera með sér að hann hafi nægjanlega þekkingu á efninu til að geta tjáð sig um það, eins og við köllum það á Dale Carnegie námskeiðunum, að hafa áunnið sér rétt til að tala um efnið. Með því að nota persónuleg dæmi úr okkar eigin reynsluheimi sköpum við þennan trúverðugleika og náum um leið þessari eftirsóknarverðu tengingu við hópinn. Atriði eins og viðeigandi framkoma í þeim hópi sem verið er að tala við, viðeigandi klæðaburður og orðfæri hjálpa okkur við að skapa þennan trúverðugleika sem veldur því að fólk hlustar á það sem við höfum að segja
 

Eldmóður
Þeir fyrirlesarar/ræðumenn sem við gleymum aldrei eru þeir sem búa fyrir miklum eldmóði og ákafa til að miðla efninu til áheyrenda sinna. Eldmóðurinn endurspeglast í blæbrigðum í rödd og krafti, samræmi í orðum og andliti ásamt líkamsbeitingu. Ákafi til að miðla efninu lýsir þessu einna best. Krafturinn í fyrirlesaranum smitast út til allra þeirra sem hlusta og hrífur þá með sér.
 

Óþvinguð framkoma
Góðir fyrirlesarar/ræðumenn setja sig ekki á háan hest eða predika yfir áheyrendum sínum. Jafnvel þó þeir standi fyrir framan hundruðir áheyrenda tala þeir líkt og þeir séu í samræðum við hóp vina. Segja má að þeir séu eðlilegir, á sama plani og áheyrendur og ná þannig mun betri tengingu við hópinn sem er akkúrat það sem gerir erindið eftirminnilegt.
 

Æfingin skapar meistarann
Það er með kynningartæknina eins og alla aðra tækni, eina leiðin til að verða góð(ur) í henni er með því að æfa sig. Þetta þýðir að nýta hvert einasta tækifæri sem gefst til að standa fyrir framan hóp og tjá okkur. Æfingin skapar meistarann. Farðu á kynningartækninámskeið eða prófaðu þig áfram. Vertu óhrædd(ur) við að gera tilraunir með atriði eins og hreyfingar, blæbrigði í rödd og jafnvel þagnir. Við erum aldrei eins ýkt og við höldum. Þetta sérðu best með því að taka erindi þitt upp á myndband og skoða það ofan í kjölinn. Önnur leið er að fá einhvern sem þú treystir til að tilgreina hvað vel er gert og hvað má bæta. Lykilatriðið er að æfa sig, prófa sig áfram og síðast en ekki síst grípa hvert einasta tækifæri til að koma skoðunum okkar á framfæri...þannig vekjum við athygli og þannig man fólk eftir okkur.
 

Áhugavert lesefni um kynningartækni:
Áhrifarík ræðumennska eftir Dale Carnegie
It’s not what you say, It’s how you say it eftir Joan Detz
You are the message eftir Roger Ailes
Why buisness people speak like idiots eftir Brian Fugere, Chelsea Hardaway og Jon Warshawsky
  

Áður birt á tikin.is  

Unnur Valborg Hilmarsdóttir

Unnur Valborg Hilmarsdóttir

Hofundur er stjórnendaþjálfari, eigandi www.lead1st.com, adstodarmadur.is og annar þjálfara á www.kvennahelgi.is

 

Meira