c

Pistlar:

7. apríl 2016 kl. 14:15

Valdimar Þór Svavarsson (valdimarsvavarsson.blog.is)

Hvað getur þú gert?


leiðtogiÞað er í raun ótrúlegt hvað maðurinn getur gert og enn ótrúlegra hvað hugurinn getur haft mikil áhrif á það hvað við gerum, eða gerum ekki. 

Það er til góð tilvitnun frá Henry Ford sem sagði,
„Whether you think you can, or you think you can't--you're right.“ 
Með þessari setningu var Henry Ford að segja að það byggist algjörlega á þinni eigin trú hvað þú getur í raun gert. Ef þú trúir því að þú getir gert eitthvað, þá hefur þú rétt fyrir þér og ef þú trúir því að þú getir það ekki, þá hefur þú líka rétt fyrir þér. 

Ótal dæmi í gegnum tíðina sanna að manninum er fátt ómögulegt, hvort sem það eru tunglferðir, íþróttaafrek, byggingarframkvæmdir, tækniundur eða hvað annað sem hann tekur sér fyrir hendur. Það er ekki síður athyglisvert þegar fólki dettur í hug að gera eitthvað sem er ótrúlega kærleiksríkt, koma öðrum á óvart, gleðja aðra eða sýna fórnfýsi sem er virðist út fyrir þann ramma sem við erum vön. Þeir sem búa við skerta heilsu, langvarandi veikindi eða einhverskonar fötlun hafa ýtrekað sýnt það og sannað að það er fyrst og fremst hugarfarið sem skiptir máli og allir ættu að geta náð sínum markmiðum ef trúin á verkefnið fylgir með. 

Fyrir árið 1954 var það talin almenn þekking í íþróttaheiminum að maðurinn gæti ekki hlaupið eina mílu á minna en 4 mínútum, það væri einfaldlega ekki hægt. Árið 1954 hljóp maður að nafni Roger Bannister míluna á 3:59:04 og afsannaði þessa „almennu þekkingu“ eins og hún var talin fyrir þann tíma. Frá þessu ári er hinsvegar talið að um 25.000 manns hafi hlaupið míluna á undir 4 mínútum. Menn fóru að trúa að það væri hægt. 

Til þess að ná árangri er mikilvægt að setja sér markmið, hafa þau niðurskrifuð, mælanleg, krefjandi en um leið raunhæf. Með því að setja sér markmið fer hugurinn og orkan að vinna saman að því að ná markmiðinu og þá gerast kraftaverkin! Með skipulagðri markmiðasetningu kviknar eldmóðurinn innra með okkur, orka sem er alltaf til staðar en oft á tíðum vannýtt. 

Hvað getur þú gert?

Valdimar Þór Svavarsson

Valdimar Þór Svavarsson

Valdimar Þór Svavarsson starfar sem ráðgjafi hjá Fyrsta skrefinu, ráðgjafaþjónustu. Hann er með BA gráðu í félagsráðgjöf og að ljúka mastersnámi í stjórnun og stefnumótun við Háskóla Íslands. Auk þess er hann sérfræðimenntaður í áfalla- og uppeldisfræðum Piu Mellody sem fjalla um áföll í samskiptum í uppvextinum sem hafa áhrif á mótun okkur síðar meir, í daglegu tali kallað meðvirkni. Valdimar hefur víðtæka reynslu af úrvinnslu í tengslum við meðvirkni, samskipti para og hjóna og hefur í mörg ár unnið með fíknitengd vandamál, meðal annars varðandi áfengi, vímuefni og mataræði. Sjá nánar á www.fyrstaskrefid.is

Meira