c

Pistlar:

18. maí 2016 kl. 10:13

Valdimar Þór Svavarsson (valdimarsvavarsson.blog.is)

Er sambandið innihaldslaust?

Sambandsleiði„Við erum bara orðin eins og systkini“ er setning sem stundum heyrist hjá pörum sem hafa verið saman í einhvern tíma og þykir lítid um að vera í sambandinu. Eins og gerist og gengur þá er oftast nóg um að vera hjá okkur flestum, vinna, félagslíf, heilsurækt, nám og fleira sem allt tekur sinn tíma. Þeir sem eiga börn vita að það tekur heilmikinn tíma að sinna þörfum þeirra. Mjög algengt er að í öllum hamaganginum gleymast samböndin sjálf, það er að segja að við gefum þeim ekki þann tíma sem nauðsynlegt er til þess að samböndin þrífist. Það getur verið mjög einstaklingsbundið hve mikinn tíma eða athygli fólk telur að þurfi að setja í sambandið og það sem sumum þykir of lítið þykir öðrum of mikið. Aðalatriðið er að átta sig á að til þess að samband geti þrifist þá þarf að gefa því tíma og athygli, rétt eins og öllu hinu sem við gerum í lífinu, við uppskerum eins og við sáum.

Grunnurinn að góðu sambandi er vinátta og virðing, ef þessi atriði eru til staðar eru mun meiri líkur á að sambönd verði langlíf og góð. Þegar fólk segist vera farið að upplifa sig meira eins og systkini heldur en par þá segi ég „frábært“ því það er grunnurinn að góðu sambandi að þekkja hvort annað, rétt eins og systkin gera yfirleitt. Það sem vantar hinsvegar upp á eru tilfinningar sem við viljum hafa gagnvart maka og byggja á aðdáun og hrifningu sem veitir andlega og líkamlega upplifun, umfram önnur sambönd.

Ef samband er orðið innihaldslítið þá er hægt að gera einfaldar æfingar til þess að kveikja blossann ef svo má að orði komast. John M. Gottman hefur líklega víðtækustu þekkinguna þegar kemur að því að rannsaka hvaða þættir styðja við gott samband eða hjónaband. Hluti af þeim atriðum sem hann leggur áherslu á að pör geri til þess að styrkja sambandið sitt er í raun að kynnast hvort öðru upp á nýtt. Það er til dæmis gert með svokölluðu ástarkorti (e. love map) þar sem pör eru hvött til að svara af einlægni nokkrum spurningum um hvort annað með það að leiðarljósi að kynnast betur og búa til umræðugrundvöll fyrir áframhaldandi vinnu við að blása glæðum í sambandið. Þetta má segja að sé fyrsta skrefið af nokkrum sem hægt er að taka til þess að færa sambandið inn á réttan farveg. Hér á eftir eru spurningar sem pör geta svarað um hvort annað og gefið sér góða kvöldstund til þess að ræða saman. Það er ekki verra að undirbúa stundina með hugljúfri tónlist og kertaljósum.

  1. Ég get nefnt vini maka míns með nafni.
  2. Ég veit hvað er mesti streituvaldur i lífi maka míns þessa dagana.
  3. Ég veit nöfn á því fólki sem hefur ef til vill eitthvað verð að pirra maka minn undanfarið eða nýlega.
  4. Ég þekki suma af draumum maka míns um hvað hann vill fá út úr lífinu.
  5. Ég þekki mjög vel hugmyndir og trú maka míns um trú og trúarbrögð.
  6. Ég þekki grundvallar heimspekihugmyndir maka míns um lífið.
  7. Ég get nefnt þá ættingja maka míns sem honum líkar best við.
  8. Ég þekki uppáhalds tónlist maka míns.
  9. Ég get nefnt 3 uppáhaldsmyndir maka míns.
  10. Maki minn veit hvað er mesti streituvaldur í lífi mínu þessa dagana.
  11. Ég veit hvaða atburðir standa upp úr í lífi maka míns.
  12. Ég get nefnt einhvern atburð úr lífi maka míns sem barn sem olli mikilli spennu.
  13. Ég þekki helstu markmið og vonir maka míns í lífinu.
  14. Ég veit hverjar eru helstu áhyggjur maka míns núna.
  15. Maki minn veit hverjir eru vinir mínir.
  16. Ég veit hvað maki minn myndi vilja gera ef við ynnum stóra upphæð í lottó.
  17. Ég get líst í smáatriðum hvernig ég upplifði maka minn í fyrsta skipti.
  18. Ég spyr maka minn reglulega um „hans líf“.
  19. Mér finnst maki minn þekkja mig mjög vel.
  20. Maki minn þekkir markmið mín og vonir.

Valdimar Þór Svavarsson

Ráðgjafi hjá Fyrsta skrefinu

Heimild: Gottman, J. M. (1999). The seven principles for making marriage work.

Valdimar Þór Svavarsson

Valdimar Þór Svavarsson

Valdimar Þór Svavarsson starfar sem ráðgjafi hjá Fyrsta skrefinu, ráðgjafaþjónustu. Hann er með MS gráðu í stjórnun og stefnumótun og BA gráðu í félagsráðgjöf við Háskóla Íslands. Auk þess er hann sérfræðimenntaður í áfalla- og uppeldisfræðum Piu Mellody sem fjalla um áföll í samskiptum í uppvextinum sem hafa áhrif á mótun okkur síðar meir, í daglegu tali kallað meðvirkni. Þá er hann einnig með ACC vottun sem markþjálfi og teymisþjálfi. Valdimar hefur víðtæka reynslu af úrvinnslu í tengslum við meðvirkni, samskipti para og hjóna og hefur í mörg ár unnið með fíknitengd vandamál, meðal annars varðandi áfengi, vímuefni og mataræði. Sjá nánar á www.fyrstaskrefid.is

Meira