c

Pistlar:

17. október 2011 kl. 22:21

Valentína Björnsdóttir (valentina.blog.is)

TomYum súpa

IMG 2649Það er síðdegi. Ég sit í bílnum og bíð eftir grænu ljósi á Sæbrautinni. Hann er kuldalegur að sjá Esjan hefur sveipað um sig blúndusjali og Faxaflóinn er hvítfryssandi. Það er norðanátt og haustsólin er lágt á lofti, langir skuggar og fjúk.

Hlakka til að komast heim í hlýjuna hugsandi um mat eins og alltaf, enda með mat á heilanum. Súpa, já súpa! Heit og góð það er það sem mig langar mest í akkúrat núna.Það er svo merkilegt með súpur þær geta haft svo mikinn karekter og gefið svo mikla hlýju.

Það er smá kúnst að laða fram sálina í súpunni, ætli það hafi eitthvað að gera með hvað þú ert að hugsa á meðan þú hrærir í henni?  Málið er að þú mátt helst ekki hugsa um neitt annað en súpuna hún vill nefnilega eiga skaparann sinn allan útaf fyrir sig meðan hún er að fæðast, ein með þér í algleymi þannig gerist þetta og sálin í súpunni verður sátt gefur sig alla.

Ég hef kynnst mörgum súpum, sú sem er mér kærust núna er kókos-karrý súpa þetta er einföld uppskrift sem auðvelt er að útfæra . Á sumrin heitir hún Silungasúpa og á veturna heitir hún súpa með risarækju og á matseðlinum á Krúsku heitir hún Tom Yum súpa og er með kjúklingasoði.

Úpps það er komið grænt ljós og einhver flautar á mig! Og hér sit ég og læt mig dreyma um mat svo ég stíg bensínið í botn og reykspóla af stað, verð að komast fljótt heim og búa til súpuna góðu áður en kuldaboli bítur mig.

Hér er uppskriftin:

Olia

4 hvítlauksrif

1 rauðlaukur

3 cm engiferbútur

¼ paprika smátt skorin

 Látið krauma í potti.

1 ds tómatar

1 ds kókosmjólk

2 tsk grænt curry paste

safi úr ½ sítrónu

2 dl vatn

2 msk kraftur

smá chilliduft

2 lime lauf fást frosin í asiubúðum

salt

allt sett útí pottin og látið sjóða við vægan hita í ca 30 mín.

3 msk saxað coriander sett útí í restina.

Einnig er mjög gott að setja risarækju eða annan fisk útí súpuna en það er þá gert alveg í restina rétt áður en súpan er borin fram.

Valentína Björnsdóttir

Valentína Björnsdóttir

Áhugamanneskja um lífsins lystisemdir og heilsusamlegt líferni. Framkvæmdarstjóri Móður Náttúru sem framleiðir grænmetisfæði fyrir stóreldhús og á neytendamarkað.

Meira