c

Pistlar:

25. janúar 2013 kl. 15:52

Valentína Björnsdóttir (valentina.blog.is)

Linsubaunir

014

Það er allt sem mælir með því að borða linsur, þessa frábæru næringu úr jurtaríkinu. Linsur er auðvelt að matreiða  og þær þarf ekki að leggja í bleyti.

Hér á landi er hægt að fá nokkrar tegundir af linsum. Rauðar linsur sem eru reyndar appelsínugular, þær henta mjög vel í súpur og Indverskt dhal, því þær maukast við suðu. Grænar linsur, sem halda sér betur í suðu,  en maukast ef þær eru soðnar of lengi. Þær eru fínar í grænmetislasagne, bolognesesósu og tortillufyllingar.  Síðan fást Puy linsur sem eru mjög góðar í salöt, því þær halda sér vel í suðu. 

Linsur eru frekar ódýrar og ef eitthvað er að marka alla viskuna sem finnst á veraldarvefnum ætti maður að borða linsur flesta daga. Þær eru sagðar bráðhollar, innihalda mikið af góðum næringarefnum eins og t.d próteini, járni, B vítamínum og snefilefnum. Þær eru einstaklega trefjaríkar, þar af leiðandi mjög fínar fyrir meltinguna og koma jafnvægi á blóðsykurinn.

Linsur eru mjög mettandi og kalóríusnauðar sem er hið besta mál, minnstakosti fyrir þá sem stendur ekki alveg á sama um aukakílóin. Sem ég held í alvörunni að fæstum langi til að burðast með. Þó aldrei sé nóg af dásamlegri manneskju þá er bara allt sem mælir með því að fólk haldi sér sem næst kjörþyngd.

Linsur hafa lengi verið í miklu uppáhaldi hjá mér.  Þegar ég var matráður á Laufásborg kynnti ég þar til sögunnar linsubaunasúpu sem varð feykilega vinsæl.  Til marks um það er súpan góða ennþá elduð þar nú 13 árum síðar.  Að sjálfsögðu eldar hver buska hana með sínu lagi, linsusbaunasúpa er nefnilega ekta naglasúpa sem allt grænmeti passar vel með. Upprunalega uppskriftin af linsusúpunni er hér.

Linsubaunasúpa

2 bollar rauðar linsur

8 bollar vatn

3 súputeningar, helst grænmetis

1 msk saxað engifer (má sleppa)

1 miðlungsstór laukur, saxaður

1 stór gulrót í teningum

1 tsk cummin, malað

safi úr ½ sítrónu

2 msk ferskt kóríander

salt að smekk

Setjið linsur, vatn, lauk og engifer í pott. Látið suðuna koma upp og lækkið svo hitann. Sjóðið í 20 mínútur, bætið kraftinum útí, setjið grænmeti og krydd útí og látið sjóða í ca 10 mínútur í viðbót, eða þar til grænmetið er orðið mjúkt. Að lokum er sítrónusafa og kóríander bætt útí.

Yndisleg súpa sem gaman er að elda og skálda eftir því sem til er hverju sinni í ísskápnum. Bara að njóta þess að hræra og laða fram sálina í súpunni. Mjög gott er að setja soðið bankabygg útí súpuna.

Hér er uppskrift Puylinsusalati sem er matarmikið og upplagt í nestispakkann.

600. gr soðnar puylinsur (ca 300 gr ósoðnar )

600.gr rauðrófur skornar í bita

½.b Cashewhnetur ristaðar

½.b Pecanhnetur ristaðar

Spínat, ferskt kóríander, rauð paprika,  appelsínusneiðar

Setjið puylinsur í pott með köldu vatni og sjóðið í ca 20 min. Ath ekki salta vatnið.

Bakið rauðrófur í bitum við 160° í 15 min. Kælið hvorutveggja og blandið saman í skál ásamt engifer soja dressingu.

Geymist vel í kæli í ca 4 daga.

Bætið útí hnetum, spínati, papriku, fersku kóríander og appelsínusneiðum áður en salatið er borið fram.

Engifer soja dressing

½. bolli olífuolia

3 msk góð sojasósa

½. bolli eplasafi

4 cm engifer

½ hvítlauksrif

3 msk ferskt coriander

½ tsk ferskt chilli

4 msk sítrónusafi safi

½ grænt epli salt og svartur pipar. Allt sett í mixer og þeytt vel saman.

Valentína Björnsdóttir

Valentína Björnsdóttir

Áhugamanneskja um lífsins lystisemdir og heilsusamlegt líferni. Framkvæmdarstjóri Móður Náttúru sem framleiðir grænmetisfæði fyrir stóreldhús og á neytendamarkað.

Meira