c

Pistlar:

2. janúar 2014 kl. 14:30

Valentína Björnsdóttir (valentina.blog.is)

Verður 2014 þitt besta ár ?

Hvað getum við gert til að gera 2014 að okkar besta ári? Ó nei byrjar þetta, gæti eitthvað innra með okkur tuldrað. Hver kannast ekki við að eiga þessa samræðu við sjálfan sig. Að langa til að taka sig á og gera betur á einhverjum sviðum. Það er þetta með mataræðið og ræktina, sem betur fer er eins og það sé innbyggt í flest okkar að vilja vera heilbrigð og hraust. Stundum er það bara smá spurning um að festa betri venjur í sessi. Á árinu sem leið komst ég í kynni við ýmislegt nytsamlegt eins og til dæmis vakandi athygli (mindfulness) sem er mjög áhugaverð leið til sjálfsræktar. Svo falleg hugleiðsluaðferð í einfaldleika sínum. Hún miðar að því að njóta andartaksins og rækta kærleikann til alls og ekki síst til okkar sjálfra. Gangast við því hver við erum, hvernig okkur líður, akkúrat núna á þessu augnabliki. Er það ekki einmitt innra með okkur sem við hittum okkar harðasta dómara. Þessar hugsanir sem segja okkur að við séum ekki nógu góð og séum ekki að standa okkur. Stundum fer af stað hringsól neikvæðra hugsana þar sem hver hugsunin eltir hina og eftir sitjum við með vanlíðan sem við skiljum ekkert í hvaðan kom.

Vakandi athygli er góð leið til að kyrra hugann og vera í núinu. Í rauninni er það ósköp einfalt en ekki endilega auðvelt. Lykillinn er að gera þetta daglega, taka þetta inn í sína rútínu. Það eina sem þarf er að koma sér þægilega fyrir á stól og veita andardrættinum athygli. Finna hvernig loftið streymir inn og út um nefið jafnvel bara í 5 mínútur á dag til að byrja með og auka svo tímann í 20 mínútur. Gott er að nota andardráttinn sem akkeri eða stuðning við það að draga okkur mjúklega aftur inn í andartakið. Í hvert skipti sem hugsanirnar ná tökum á okkur (þær munu gera það og er fullkomlega eðlilegt) segjum við bara mildilega: Sé þig bless bless og við leyfum hugsununum að fara fram hjá rétt eins og skýjahnoðra á himninum. Í gegnum daginn er svo hægt að minna sig reglulega á að vera hér og nú eins og fyrr segir með því einu að finna fyrir andardrættinum. Ég hvet ykkur til að prófa þessa mildu hugleiðsluaðferð. Vissulega má fara dýpra inn í fræðin en akkúrat þessi litla daglega hugleiðsla getur hjálpað okkur heilmikið til að ná tökum á huganum og veitt okkur skýrari yfirsýn á daglega hegðun okkar og venjur. Hún losar um streitu, veitir okkur hvíld, býr til meira rými innra með okkur og gerir okkur meðvitaðri um lífið. Við förum að taka betur eftir því sem er.

Þetta gerist einhvernvegin allt í þessu smáa. Ein lítil jákvæð hugarfarsbreyting hér og þar getur leyst upp stöðnuð hugsanamunstur sem leiða okkur ekki neitt áfram. Í upphafi nýs árs er gott að staldra við og skoða hvað það er sem þjónar manni best, finna út hvaða veganesti maður þarf á að halda til að gera 2014 að sínu besta ári! Einn dag í einu - eitt andartak í senn. Vakandi athygli verður svo sannarlega ein af mörgum góðum venjum sem mig langar að iðka meira á þessu ári. Það má finna ýmsan fróðleik um Mindfulness á netinu svo er hægt að fara á námskeið hér á landi og læra þessi góðu vísindi vel. Læt fylgja með uppskriftina af góða engiferdrykknum sem við búum til daglega á Krúsku, hann er eins og hugleiðslan - verður ómissandi partur af deginum þegar maður byrjar að neyta hans. Uppskrift ca 1 ltr 250 gr Engifer 5 Græn epli 1 Appelsína 1 Sítróna Ískalt vatn eftir smekk.

Afhýðið engiferið og ávextina og setjið allt í gegnum safapressu.

Valentína Björnsdóttir

Valentína Björnsdóttir

Áhugamanneskja um lífsins lystisemdir og heilsusamlegt líferni. Framkvæmdarstjóri Móður Náttúru sem framleiðir grænmetisfæði fyrir stóreldhús og á neytendamarkað.

Meira