c

Pistlar:

13. febrúar 2023 kl. 13:29

Valgeir Magnússon (valgeirmagnusson.blog.is)

Er ferðaþjónustan bara fyrir láglaunafólk?

Gylfi Zoega, prófessor í hagfræði við HÍ og fráfarandi meðlimur í peningastefnunefnd, skrifaði nýverið grein þar sem hann segir að ferðaþjónustan sé láglaunagrein í hálaunalandi og að það sé dæmi sem gangi ekki upp. Einnig heldur hann því fram að ferðaþjónustan sé góð aukagrein, góð byggðastefna en afleit grein til að búa til verðmæt störf og lífskjör fyrir Íslendinga í framtíðinni.

Ég rak upp stór augu þegar ég las þessa grein Gylfa.

Ég hugsaði: Hvað er maðurinn að meina? Er hann að hugsa svo þröngt að ferðaþjónusta skapi eingöngu störf við að flytja fólk, hýsa það og gefa því að borða? Eins og ef við myndum skoða sjávarútveginn eingöngu út frá því að veiða fiskinn og vinna hann, eða háskólasamfélagið eingöngu út frá þeim sem kenna og þeim sem læra. En þó maður skoði ferðaþjónustuna svona þröngt eins og mér sýnist hann gera, þá held ég að maður sjái strax að störfin í greininni veiti blandaðar tekjur, frá lágum launum upp í mjög há laun.

Það er hægt að setja sér hvaða forsendur sem er og skrifa rökfærslur út frá því og komast að niðurstöðu í samræmi við þær, en það þýðir ekki að maður hafi rétt fyrir sér. Stór atvinnugrein er innspýting inn í allt atvinnulífið og í kringum grein eins og ferðaþjónustuna spretta ótrúlegustu greinar aðrar sem sannarlega skapa hálaunastörf og það sem mikilvægast er; draumastörf.

Í kringum ferðaþjónustuna hafa þannig skapast mikil tækifæri í hugbúnaðargerð, auglýsinga- og markaðsvinnu, nýsköpun í afþreyingu, nýsköpun í veitingaþjónustu, fjölbreyttari tækifæri fyrir menningu og fræðistörf eins og sagnfræði, mannfræði og jarðfræði. Og þarna tel ég bara upp það sem mér dettur í hug í fljótu bragði.

Gylfi telur að ferðaþjónusta sé góð byggðastefna. Þar erum við algjörlega sammála enda eru loksins orðin til störf í mörgum byggðarlögum sem ekki ganga út á sjávarútveg eða landbúnað, auk opinberra starfa og þjónustu við það fólk og þau fyrirtæki sem starfar við þær greinar.
Störf í mörgum byggðarlögum voru mjög einhæf áður. Með ferðafólkinu hefur skapast tækifæri til að gera menningu, afþreyingu og veitingamennsku að fyrirmyndaratvinnugreinum í þessum byggðarlögum. Um allt land hafa orðið til störf sem eru draumastörf hjá mörgu ungu fólki, sem annars hefði aldrei haft áhuga á að búa á viðkomandi stað. Þannig hafa til dæmis skotið upp kollinum ótalmörg sprotafyrirtæki í matvælaframleiðslu og bjórgerð um allt land. Þessi fyrirtæki hefðu aldrei hefðu litið dagsins ljós án ferðamennskunnar.

Ég er algjörlega ósammála Gylfa í þeirri nálgun hans að skoða ekki allar þær hliðargreinar sem blómstra vegna tækifæranna sem ferðaþjónustan hefur fært okkur. Stór hluti þeirra sem vinnur við vefmál og alls kyns hugbúnaðargerð vinnur til að mynda beint fyrir ferðaþjónustuna og annar stór hluti vinnur óbeint fyrir hana. Kvikmyndageirinn, sem hefur blómstrað undanfarin 15–20 ár með ótrúlegum árangri, gæti það ekki nema vegna innviðanna sem orðið hafa til þökk sé uppbyggingu í ferðaþjónustu. Ferðaþjónustyrirtækin eru mjög fyrirferðamikil í markaðssetningu á erlendri grundu. Við það hefur byggst upp þekking innan fjölda markaðs- og auglýsingafyrirtækja í alþjóðlegri markaðssetningu, sem hafa síðar farið að selja sínar lausnir á alþjóðlegum markaði. Og nú eru afþreyingafyriræki sem spruttu fyrst upp sem nýsköpunarfyriræki á íslenskum markaði fyrir erlenda ferðamenn byrjuð að flytja út sínar hugmyndir, tæknilausnir og þekkingu til annarra landa og búa þannig til mikil verðmæti.

Til dæmis fyrirtækið sem ég vinn fyrir, Pipar\TBWA, og dótturfyrirtæki þess The Engine eiga mikið undir ferðaþjónustunni. The Engine byggði upp stóran hluta sinnar þekkingar í samstarfi við ferðaþjónustuna og nú erum við með skrifstofur í Reykjavík, Osló, Kaupmannahöfn og Budapest, ásamt því að við munum opna í Helsinki síðar á árinu. Án þekkingar og tækifæra sem ferðaþjónustan gaf okkur hefði slík uppbygging aldrei orðið. Nú í dag er ferðaþjónusta ekki eins stór hluti veltunnar og áður, en hún var grunnurinn sem skipti öllu máli fyrir okkur á sínum tíma.

Það sama gerðist í sjávarútveginum á árum áður. Sú atvinnugrein hefur byggt upp gríðalega tækniþekkingu og fræðavinnu sem hefur nú í tugi ára verið mjög fyrirferðamikil á alþjóðavettvangi, svo eftir því er tekið. Mörg af fremstu fyrirtækjum heims í tækniþjónustu fyrir sjávarútveg eru íslensk. Þessi þekking hefur svo þróast út fyrir sjávarútveginn og nú þjónusta íslensk tækni- og þekkingarfyrirtæki matvælaiðnaðinn um allan heim.

Hvergi í heiminum er sjávarútvegur og vinnsla sjávarafurða talin til hálaunagreina. En samt hefur sú atvinnugrein skapað gríðalegan fjölda hálauna- og þekkingarstarfa á Íslandi. Ef prófessor í hagfræði hefði skoðað sjávarútveginn árið 1985 með sömu gleraugum og Gylfi skoðar ferðaþjónustuna núna hefði inntakið verið: „Sjávarútvegur er góð aukagrein, góð byggðastefna en afleit grein til að búa til vermæt störf og lífskjör fyrir Íslendinga í framtíðinni“.

Snilldin er að þegar grein með mikið af láglaunastörfum er í hálaunalandi, þá kemur einmitt hugvitið til skjalanna og finnur lausnir á því. Þess vegna þróaðist öll þessi tækniþekking í sjávarútvegi til að leysa það vandamál og störfin breyttust og þróuðust. Sú tækni og þekking varð síðar verðmæt um allan heim.

Ég hef eina bón til þín Gylfi, ef þú lest þetta: Að þú beitir þér fyrir rannsókn hjá Háskóla Íslands á því hversu mikil verðmæti ferðaþjónustan hefur í afleiddum störfum í íslensku samfélagi. Og hve hátt hlutfall þeirra eru þekkingar- og/eða hálaunastörf. Ég hlakka til að mæta á fyrirlestur um það.

Valgeir Magnússon

Valgeir Magnússon

Valgeir er auglýsinga og markaðsmaður ásamt því að vera rithöfundur, textahöfundur, dægurlagahöfundur, pistlahöfundur, pabbi og afi. Valgeir er stjórnarformaður hjá Pipar\TBWA, The Engine, Ghostlamp og Fastland. Stofnandi og einn eigenda Landnámseggja í Hrísey og stjórnarformaður í Hrísey verslun. Framkvæmdastjóri SDG\TBWA og Scandinavian Design Group í Noregi og stjórnarmaður í TBWA\Nordic og varaformaður Norsk-íslenska viðskiptaráðsins.

Meira