c

Pistlar:

17. maí 2017 kl. 12:09

Vilborg Arna Gissurardóttir (vilborgarna.blog.is)

Dagbók frá Himalaja: 4. Framlög til göngustígagerðar

Við göngum áfram frá Namche og leiðin liggur til Deboche. Stígurinn sem við göngum á er vel gerður, breiður og rúmar vel þá sem eru á ferðinni en það hefur ekki alltaf verið svoleiðis. Árum saman hefur einn maður lagt á sig mikla vinnu við að byggja upp stígakerfið án aðstoðar frá opinberum yfirvöldum. Þetta byrjaði allt fyrir um 50 árum þegar hann byrjaði á að bæta stígana í kringum þorpið sitt fyrir heimamenn. Þeir voru oft grýttir og erfiðir yfirferðar en eftir því sem ferðamannastraumirinn jókst fór hann að færa út kvíarnar og síðustu ár hefur hann alfarið sinnt þessu verkefni upp á sitt einsdæmi.

Hann heitir Pasang Sherpa og er greinilega mikill hugsjónarmaður sem vinnur fyrir samfélagið. Hann býr í nálægu þorpi, Khumjung, ásamt konunni sinni sem stendur alla jafna vaktina með honum. Glöggir menn kannast ef til vill við Pasang úr Everest myndinni en þar bregður honum fyrir í einu atriðinu. Hann er orðinn 81 árs, gleraugun eru áberandi á andlitinu og það vantar í hann tennur. Hann er svona einn af þessum persónuleikum sem maður heillast strax af. Vinnuaðstaðan hans er lítið borð og „donation box“  en við það er bók þar sem göngumenn skrifa nafnið sitt í. Um leið og hann sér þig kallar hann; Hello – namaste! og konan hans er alla jafna við hliðina á honum með eitthvað á prjónunum.


Ferðamenn eru beðnir um framlög til stígagerðarinnar og án undantekningar láta þeir eitthvað smávegis af hendi rakna og skrá um leið nafnið sitt í bókina góðu. Oft á tíðum má svo sjá verkamenn að störfum í nálgægð við hjónin sem færa aðstöðuna sína eftir því hvar unnið er hverju sinni. Hér er allt unnið með höndunum, hakar, skóflur og járnkarlar eru meðal þess sem sjá má á stígnum þegar unnið er.

Það er ljóst að Khumbudalurinn væri mun fátækari án Pasang Sherpa og konunnar hans og við ferðamennirnir mun verr staddir á ekki jafn góðum stígum og raun ber vitni.

Við Dendi kveðjum þau hjónin og höldum áfram en brekkan upp Thengbochehill bíður okkar, hún er álíka löng og há og brekkan upp til Namche. Þar sem við erum bara tvö að þá skellum við músik í eyrun og höldum af stað upp brekkuna því þetta gengur sig víst ekki sjálft. Við höfðum lagt seint af stað frá Namche þar sem við þurftum að útrétta og komum því í ljósaskiptunum inn í Tengboche en þar er eitt helsta munkaklaustur svæðisins. Það var upplýst og ákaflega fallegt í þessari birtu, eftir að hafa dáðst að því í smá stund göngum við áleiðis niður brekkuna hinumegin og erum komin í náttstað um 15 mín seinna. Þetta kvöld fengum við eina þá bestu máltíð sem ég hef fengið í Khumbudalnum enda veitti ekkert af orkunni eftir göngutúr dagsins.

Vilborg Arna Gissurardóttir

Vilborg Arna Gissurardóttir

Ástríða mín er náttúra, útivist og áskoranir og hef ég haft mikla köllun til þess að fylgja draumum mínum eftir. Mottóið mitt er: “Ef þú þráir eitthvað nógu heitt að þá finnurðu leiðina, – annars finnurðu bara afsökunina“. Gildin sem ég hef að leiðarljósi í öllum mínum verkefnum eru jákvæðni, áræðni og hugrekki. Bakgrunnur minn er fyrst og fremst úr ferðaþjónustu en ég hef sinnt hinum ýmsu störfum innan hennar. Ég er með B.A. ferðamálafræðum frá Háskólanum á Hólum í Hjaltadal og hefur auk þess MBA gráðu frá Háskóla Íslands. Meðal leiðangra sem ég hef farið í eru skíðaferð yfir Grænlandsjökul, farið í siglingarleiðangra og gengið einsömul á Suðurpólinn. Jafnframt hef ég klifið fjöll bæði hér á landi og víða erlendis. Árið 2014 varð ég fyrsta og eina konan í heiminum sem hefur bæði klifið 8000m tind sóló og gengið á pól sóló. Það eru forréttindi að alast upp á íslenskum fjöllum og jöklum. Aðstæðurnar á Íslandi eru oft krefjandi og þá sérstaklega með tilliti til veðurfars. Íslenska náttúran hefur verið góður skóli með öllum sínum litbrigðum. Ég hvet fólk til þess að leyfa sér að dagdreyma því draumarnir eru oft undirrót þess að fólk setji sér markmið. Í dagdraumunum er maður nefnilega alltaf leynt og ljóst að ná markmiðum sínum og maður er að ferðast inn á staði og inn í aðstæður sem manni langar raunverulega að vera á. Auk þess er maður alltaf sigurvegari í sínum eigin draumum og við eigum að hugsa um okkur sem sigurvegara í okkar eigin lífi. Meira