„Líður eins og meistara eftir að hafa fastað í 40 daga“

Guðmundur Jónas Haraldsson sagði að hugurinn hefði farið á yfirsnúning ...
Guðmundur Jónas Haraldsson sagði að hugurinn hefði farið á yfirsnúning á köflum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Guðmundur Jónas Haraldsson er leikari og leikstjóri sem hefur starfað sem uppeldis- og meðferðarfulltrúi hjá Reykjavíkurborg síðastliðin tíu ár, og starfar einnig sjálfstætt sem slíkur, með ungu fólki í sjálfseflingu. Guðmundur Jónas hóf 40 daga föstu hann 20. október og eru nú 40 dagar liðnir. Í dag er fyrsti dagurinn sem hann innbyrðir fasta fæðu eftir föstuna miklu. Honum líður eins og meistara sem var að enda við að ljúka við stærsta verkefnið í lífi sínu og sagðist halda að hann gæti hvað sem er úr því að hann gat þetta. Hann sagði að erfiðast hefði verið að temja hugann en hugurinn fór  á yfirsnúning á köflum og á tímabili hugsaði hann allar hugsanir sem hægt væri að hugsa, tvisvar. Hann missti um 14 kíló á föstunni en hann er 67 kíló í dag. Upplifunina skrásetti hann en hann ásamt Gustavo Marcelo Blanco vinna að heimildarmynd þar sem fylgst er með Guðmundi Jónasi er hann fastaði.

Hvernig líður þér eftir að hafa fastað í 40 daga? „Ég var örlítið magnlaus síðustu dagana í föstunni en undir það síðasta setti bætti ég ávöxtum og káli í djúsinn til að fá trefjar. Ég fór á Gló til að fá mér fyrstu máltíðina sem ég er nýbúin að innbyrða þegar þetta er skrifað. Ég er alveg pakksaddur eftir hálfan skammt af hráfæðisborgara en ég fékk mér líka súkkulaði, bláberja hráköku og Chi latte á eftir. Það er óhætt að segja að upplifunin hafi verið guðdómleg. Þarna eru bestu eftirréttir sem ég smakka. Já, mér líður stórkostlega vel, eins og meistara sem var að klára stærsta verkefnið í lífi sínu. Líður eins og ég geti hvað sem er úr því mér tókst þetta.“

Aðspurður hvernig fastan hefði gengið svaraði hann því svo að fastan hefði gengið í einhverskonar stigum. Fyrstu vikuna tók hann sér frí frá öllu en passaði sig á því að vera með nóg af efni til að horfa á í tölvunni til þess að slaka á í huganum smástund. „Fyrst var líkaminn að venjast því að fá bara fljótandi fæði og þá varð ég var við allskyns fráhvarfseinkenni eins og slappleika, slen, smáhöfuðverk af og til. Einnig fór hugurinn og tilfinningalífið á fullt og allskyns hugsanir leituðu upp á yfirborðið, aðallega neikvæðar sem snéru að mér og öðrum. Holskeflur af afbrýðisemi, minnimáttarkennd, gremju, sjálfsvorkunn og hroka dundu á mér fyrirvaralaust en hurfu jafn skjótt og þær birtust. Það var engu líkara en það væri að hreinsast úr skúmaskotum hugans.“

Á sjöunda degi undir miðnætti þegar hann var að fara að sofa var eins og eitthvað opnaðist innra með honum og orkan hans endurnýjaðist algerlega og hugurinn róaðist. „Þetta var það afgerandi að ég þurfti að fara á fætur og sofnaði ekki aftur fyrr en undir morgun. Í kjölfarið kom um það bil viku tímabil þar sem ég var frekar hátt uppi. Það var mjög skemmtilegt tímabil. Hugurinn róaðist alveg og hugsunin varð mjög skýr. Ég fór tvisvar í hot jóga á þessu tímabili og þar var bara allt í lagi, fór mér bara hægt. Eftir þessa viku þá var eins og líkaminn færi í mjög lágstemmdan gír, hjartað sló hægar og mér datt ekki í hug að gera neitt aukalega líkamlegt. Þarna var málið að spara orkuna eins og hægt væri,“ sagði Guðmundur Jónas og bætti við: „Það voru nokkrir svolítið erfiðari dagar inn á milli sérstaklega ef ég þurfti að gera eitthvað líkamlega erfitt. Losnaði ekkert alveg við það þar sem ég var að vinna fulla vinnu með. En yfirhöfuð þá var þetta auðveldara en ég hélt. Bjóst við að þurfa að liggja fyrir á milli vinnustunda en það var fjarri lagi.“

Guðmundur Jónas segist verða hæstánægður með árangurinn nú þegar en að það eigi eftir að koma í ljós í náinni framtíð hver áhrifin verða í raun og veru. „Ég er mjög spenntur að sjá hvernig næstu mánuðir verða.“

Var þetta ekki hræðilega erfitt? „Á köflum voru dagar þar sem sólin fór ekki sérlega hátt á loft í upphafi, sérstaklega ef það var álag, andlegt eða líkamlegt en svo hvarf sú líðan eins og dögg fyrir sólu næsta dag. Þetta var svolítill rússíbani. Hafði samt bara gaman að þessum bugðum og beygjum. Vitandi að það liði hjá.“

Hvað var erfiðast? „Hugurinn, hann fór á yfirsnúning á köflum. Á tímabili hugsaði ég allar hugsanir sem hægt er að hugsa, tvisvar.“

Hann sagði að það sem hefði komið hvað mest á óvart væri hversu auðvelt þetta hefði í raun verið og hversu mikið af þessu væri huglægt eins og sársauki er gjarnan. „Glíman var líka hugsuð þannig, að glíma við þetta ótrúlega tæki sem hugurinn er og leitast við að temja hann ofurlítið mögulega. Mér finnst eins og mér hafi tekist það.“

Myndir þú gera þetta aftur? „Ef ég væri í sömu aðstæðum og ég var. Með litla stjórn á matarræðinu og orðin hundleiður á sjálfum mér. Yfirleitt frekar þreyttur og áhyggjufullur yfir einhverju sem ég gat ekki sleppt tökum á í huganum. Þá er svarið alveg kristaltært í mínum huga; Já.“

Aðspurður hvort að hann myndi mæla með þessu játaði hann því. „Ég mæli tvímælalaust með að fólk prufi að fasta, ekki spurning. En ég mæli alls ekki með því að fólk fari framúr sér og fari í  of langa föstu svona fyrst. Fyrrverandi kærasta mín vildi fasta þegar ég bjó í Danmörku og ég eiginlega prufaði svona henni til stuðnings frekar en að vera nokkuð að pæla í neinu varðandi matarræði. Það voru sex dagar. Maður fékk sér hálft epli á morgnanna og drakk grænmetissoð yfir daginn. Einnig lagði ég hörfræ í bleyti og borðaði það gel sem fræin gefa frá sér við að komast í snertingu við vatn. Það var frekar erfitt í fyrstu þrjá daganna en svo komst komst ég í mikið jafnvægi og fékk hugarró.“

Hvað léttist þú um mörg kíló á þessum 40 dögum? „Ég var allavega 81 kíló í upphafi, líklega meira. Ég vigtaði mig ekki rétt fyrir því fókusinn var ekki á því en í síðustu vigtun föstunnar að morgni 41 dagsins mældist ég 67 kíló, þannig að það voru 14 kíló sem fóru.“

Guðmundi Jónasi líður eins og meistara eftir að hafa fastað ...
Guðmundi Jónasi líður eins og meistara eftir að hafa fastað í 40 daga. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Kílóin hrundu af Guðmundi á meðan á föstunni stóð.
Kílóin hrundu af Guðmundi á meðan á föstunni stóð.
mbl.is