Fræga fólkið selur af sér á Trendport

Vera Sif mælir með því að fólk skoði Trendport þar …
Vera Sif mælir með því að fólk skoði Trendport þar sem hægt er að kaupa flottan notaðan fatnað á góðu verði. Ljósmynd/Aðsend

Vera Sif Rúnarsdóttir er nú í óða önn að undirbúa opnun Trendport sem opnar með pompi og prakt 2. maí að Nýbýlavegi 6 í Kópavogi. Hugmyndin að baki Trendport að sögn Veru er að opna leið fyrir almenning til selja fatnað og fylgihluti sem hann er hættur að nota og fá fyrir það peninga. „Við tókum eftir því að svona markaðir eru vinsælir erlendis. Við erum tvö pör sem setjum fyrirtækið á stokk. Ég og unnusti minn Ágúst Ásbjörnsson og vinapar okkar þau Daníel Ólafsson og Þórunn Elva Þorgeirsdóttir.“

Vera Sif hefur um skeið rekið fyrirtækið Reykjavík Design og á hönnun og tíska því hug hennar að miklu leyti. Hún eignaðist nýverið tvíbura og á eina þriggja ára dóttur fyrir en segir fjölskyldulífið og fyrirtækjarekstur ganga vel saman.

„Það er mikið áhugmál og mjög umhverfisvænt að fá fólk til að endurnota og endurnýja hjá sér. Eins vildum við koma því inn hjá fólki að það hefur ekkert með peninga að gera að kaupa notaðan tímabilsfatnað. Sjónarmið umhverfisins vega þungt, og síðan þykir fallegur fatnaður frá alls konar merkjum oft gulls ígildi sér í lagi þegar hann er ekki alveg nýr.“

Vera hefur ferðast mikið og segir svona markaði vinsæla í Skandinavíu svo dæmi séu tekin. „Það sem er áhugavert við þennan markað er að þú vinnur mikið af grunnvinnunni í gegnum vefsíðu okkar. Sem dæmi ef þú ert með fatnað sem þig langar að selja, þá ferðu inn á vefinn okkar og skráir hann inn rafrænt. Þá útbúum við strikamerki og undirbúum bás fyrir fatnaðinn. Síðan sækir þú til okkar herðatré, strikamerki og fleira og kemur svo með fatnaðinn merktan og tilbúinn í verslunina. Við bjóðum upp á að selja fatnaðinn fyrir þig og þú getur fylgst með hvernig er að seljast í búðinni. Ef vel gengur getur þú komið með meiri fatnað inn. Við tökum til á básnum og snyrtum til á honum ef hentar fólki að fá slíka þjónustu.“

Fullt af þekktum einstaklingum að selja fatnað

Vera segir kostnaðinn ekki mikinn við söluna. Fyrsta vikan sé á 7.990 kr. og síðan taki fyrirtækið 15% af heildarhagnaði flíkurinnar. „Við erum einnig með góðgerðarbás, þar sem fólk getur gefið á básinn þær flíkur sem ekki seljast. Við styrkjum mismunandi málefni í hverjum mánuði. Í fyrsta mánuðinum okkar ætlum við sem dæmi að styrkja Fann­eyju Ei­ríks­dótt­ur sem margir bera hlýhug til en hún greindist með krabbamein á 21. viku meðgöngu sinnar nýverið.“

Á samfélagsmiðlum í dag eru margir að auglýsa fatnað sinn sem mun verða til sölu á Trendport. Spurð um hverjir ætla að nýta sér þessa þjónustu segir Vera að ótrúlega margir hafi tekið vel í hugmyndina og megi gera ráð fyrir flottum flíkum frá alls konar fólki. „Tónlistamaðurinn Emmsjé Gauti verður með fatnað, Erna Margrét hjá Gyllta kettinum einnig. Sólveig Þórarinsdóttir eigandi Sólna jóga verður með fatnað sem hún er að selja sem og Óli Boggi sem mun mæta með fræga skósafnið sitt. Sara dögg innanhúsarkitekt er með fatnað hjá okkur. Síðan eru flottir aðilar sem eru að gera góða hluti á samfélagsmiðlum, svo sem Embla Óðinsdóttir og Alma Kristinsdóttur svo dæmi séu tekin.“

mbl.is