Þórunn Antonía flutti í bæinn og gerði allt vitlaust

Þórunn Antonía tróð upp í fimmhundruð manna vísindaferð.
Þórunn Antonía tróð upp í fimmhundruð manna vísindaferð.

Skemmtanalífið var ekki eins og best verður á kosið þetta árið. Fólk notaði þó hvert tækifæri til þess að hafa gaman þegar það mátti. Smartland fylgist grannt með skemmtanalífi landsmanna og það fór ekki framhjá neinum að Þórunn Antonía Magnúsdóttir hélt uppi stuðinu þetta árið. Hún flutti í Vesturbæinn á árinu eftir að hafa búið í um tvö ár í Hveragerði. Svo var það Dorrit sem skaut upp kollinum og þeir allra bjartsýnustu opnuðu skemmtistaði.

Þórunn Antonía gerði allt vitlaust í vísindaferð

Tónlistarmaðurinn Þórunn Antonía tróð upp í einni stærstu vísindaferð landsins þegar hún skemmti háskólanemum sem heimsóttu Icelandic Startups. Yfir 500 háskólanemar lögðu leið sína í Gjósku til að kynna sér Gullegið. Teitið fór fram í október eða stuttu áður en veiran fór að gera landsmönnum lífið leitt í skipti númer 158. 

Benedikt Erlingsson og Tinna Lind Gunnarsdóttir.
Benedikt Erlingsson og Tinna Lind Gunnarsdóttir.

Benedikt frumsýndi kærustuna

Leikarinn og leikstjórinn Benedikt Erlingsson hefur verið áberandi í menningarlífinu síðan hann var barn. Í apríl mætti hann með kærustu sína, Tinnu Lind Gunnarsdóttur leikkonu, á frumsýningu Nashyrninganna í Þjóðleikhúsinu. Koma þeirra saman á sýninguna vakti mikla athygli þar sem Benedikt var í stuttan tíma talinn einn af eftirsóttustu piparsveinum landsins eftir að leiðir hans og fyrrverandi eiginkonu hans skildi. 

Birna Dröfn Jónasdóttir, Patrekur Jaime og Keem.
Birna Dröfn Jónasdóttir, Patrekur Jaime og Keem. mbl.is/Árni Sæberg

Patrekur mætti með kærastann

Það var ekki bara Benedikt Erlingsson sem frumsýndi maka sinn á árinu. Það gerði nefnilega líka áhrifavaldurinn og sjónvarpsstjarnan Patrekur Jaime þegar hann mætti með Keem kærasta sinn í 26 ára afmæli Sjáðu. Veislan fór fram í Gamla bíói og var ekkert til sparað til þess að gestir gætu skemmt sér sem best. Patrekur og Keem hafa verið eins og samloka með skinku og osti síðan þeir hnutu hvor um annan. 

Egill Eðvarðsson og Jón Ólafsson.
Egill Eðvarðsson og Jón Ólafsson.

Jón Ólafsson bauð í garðpartí 

Það var einstök stemning þegar Jón Ólafsson bauð í sitt árlega garðpartí. Jón er þekktur partípinni og elskar að lyfta sér upp og hafa gaman með samferðafólki sínu. Í júlí bauð hann í teiti í garðinum við Dillon og var teitið vel sótt af alls konar fínu og frægu fólki. Þar voru til dæmis Guðni Gunnarsson og Guðlaug Pétursdóttir, Vera Sölvadóttir, Helga Ólafsson fyrrverandi eiginkona Jóns og Egill Eðvarðsson svo einhverjir séu nefndir. 

Rut Guðnadóttir og Guðni Th. Jóhannesson.
Rut Guðnadóttir og Guðni Th. Jóhannesson. mbl.is/Ágúst Óliver Erlingsson

Pabbi forseti lét sig ekki vanta í teitið hjá Rut

Rut Guðnadóttir rithöfundur og dóttir Guðna Th. Jóhannessonar gaf út bókina Dreka á dögunum. Pabbi mætti að sjálfsögðu í útgáfuboðið sem haldið var í bókabúð Forlagsins við Fiskislóð. Rut skrifar ekki bara bækur því hún er menntaskólakennari sem elskar hryllingsmyndir og ketilbjöllur. 

Björn Leifsson og Hafdís Jónsdóttir létu sig ekki vanta þegar …
Björn Leifsson og Hafdís Jónsdóttir létu sig ekki vanta þegar Birgitta Líf opnaði skemmtistað. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bjössi og Dísa fögnuðu opnun Bankastrætis Birgittu Lífar 

2021 var annasamt hjá Birgittu Líf Björnsdóttur markaðsstjóra World Class. Síðasta sumar bætti hún skemmtistaðnum Bankastræti Club við og hélt geggjað opnunarteiti. Mamma hennar og pabbi, Björn Leifsson og Hafdís Jónsdóttir, létu sig ekki vanta. Það kemur kannski ekki á óvart að Birgitta Líf skuli opna skemmtistað því foreldrar hennar ráku vinsælan skemmtistað á tímabili sem hét Ingólfskaffi og var eftirsóttur. Það var hins vegar töluvert fjör þegar Bankastræti Club var opnaður í sumar en þangað mættu helstu áhrifavaldar landsins eins og Sunneva Eir Einarsdóttir, Ástrós Traustadóttir og Binni Glee svo einhverjir séu nefndir. 

Björn Sveinbjörnsson og Svava Johansen hafa verið kærustupar í 15 …
Björn Sveinbjörnsson og Svava Johansen hafa verið kærustupar í 15 ár. Þau vinna saman í fyrirtækinu en þessi mynd var tekin í 45 ára afmæli NTC sem haldið var á Kjarval. mbl.is/Ágúst Óliver Erlingsson

Björn og Svava Johansen í partígír 

Það var fjör á Kjarval þegar Björn Sveinbjörnsson og Svava Johansen fögnuðu 45 ára afmæli NTC sem rekur fjölmargar tískuvöruverslanir í Reykjavík. Svava hefur reyndar ekki starfað hjá fyrirtækinu alla sína ævi því hún byrjaði 17 ára og hefur aldrei dreymt um að gera neitt annað í lífinu. 

Inga Lind Karlsdóttir, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, Árni Hauksson og Þóra …
Inga Lind Karlsdóttir, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, Árni Hauksson og Þóra Margrét Baldvinsdóttir.

Inga Lind og Árni í góðum félagsskap 

Inga Lind Karlsdóttir og Árni Hauksson voru nokkuð dugleg á partívaktinni 2021. Þau létu sig til dæmis ekki vanta þegar myndlistarmaðurinn Björgvin Jónsson opnaði sýningu sína SPEGIL -MYND í Portfoliu Gallerí við Hverfisgötu. Þau voru þó ekki eina fólki í þessu teiti því þangað mættu líka Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir ráðherra og Þóra Margrét Baldvinsdóttir innanhússráðgjafi. 

Ósk Tryggvadóttir Onlyfans stjarna er líka eldgleypir eins og gestir …
Ósk Tryggvadóttir Onlyfans stjarna er líka eldgleypir eins og gestir í kosningateiti sáu glögglega.

Onlyfans-stjarna sýndi leyndan hæfileika í framsóknarteiti

Framsóknarflokkurinn fór nokkuð óhefðbundnar leiðir til að ná í nýja kjósendur í síðustu kosningum og hélt líklega eitt litríkasta teiti kosningabaráttunnar þegar hann fékk Onlyfans-stjörnu til að skemmta í Grafarvogi. Það var Onlyfans-stjarnan Ósk Tryggvadóttir sem sýndi listir sínar sem eldgleypir í teitinu og vakti þetta mikla kátínu. 

Dorrit Moussai­eff og Björn Örvar stofnandi Bioeffect.
Dorrit Moussai­eff og Björn Örvar stofnandi Bioeffect. Ljósmynd/María Kjartansdóttir

Dorrit hugsar vel um húðina

Fyrrverandi forsetafrú Íslands, Dorrit Moussai­eff, er ein af þessum konum sem þjóðin elskar. Það er því ekki skrýtið að hún hafi stolið senunni þegar íslenska húðvörumerkið Bioeffect kynnti splunkunýtt dagkrem, EGF, sem hefur sömu eiginleika og húðdroparnir. Fyrirtækið hélt glæsilegt boð í húsakynnum sínum á Hafnartorgi og þangað var Dorrit að sjálfsögðu mætt. 

mbl.is