Kristín og Úlfar breyttu Módern í töfrandi brúðkaupssal

Kristín Rut Jónsdóttir og Úlfar Finsen, eigendur húsgagnaverslunarinnar Módern, gengu …
Kristín Rut Jónsdóttir og Úlfar Finsen, eigendur húsgagnaverslunarinnar Módern, gengu í hjónaband síðastliðið sumar. Ljósmynd/Aldís Páls

Kristín Rut Jónsdóttir og Úlfar Finsen, eigendur húsgagnaverslunarinnar Módern, giftu sig hinn 4. júní síðastliðinn við fallega athöfn í Dómkirkjunni í Reykjavík. Að athöfninni lokinni mættu gestirnir í verslun þeirra í Skeifunni sem hafði verið breytt í töfrandi brúðkaupssal þar sem dansað var fram á rauðanótt. 

Kristín og Úlfar eru bæði viðskiptafræðingar að mennt, en þau kynntust einmitt á háskólaárunum niður í bæ. „Við kynntumst árið 2007 á skemmtistaðnum Vegamótum. Við vorum bæði í viðskiptafræði í Háskólanum í Reykjavík en kynntumst í rauninni í gegnum sameiginlega vini. Við byrjuðum strax saman og vorum svo gott sem flutt inn saman mánuði eftir fyrsta stefnumótið,“ segir Kristín. 

Úlfar stofnaði verslunina Módern 23 ára gamall árið 2006 og hefur stýrt fyrirtækinu síðan þá. Eftir að hafa starfað í rúman áratug í fjármálageiranum kom Kristín svo meira inn í rekstur Módern. „Í dag vinnum við saman, förum í ræktina saman og búum saman ásamt börnunum okkar tveimur,“ segir Kristín. 

Með trúlofunarhringinn í vasanum í skíðabrekkunni

Úlfar fór á skeljarnar árið 2019 og bað Kristínar í árlegri skíðaferð vinahóps þeirra til Akureyrar. „Úlfar var búinn að vera með hringinn í vasanum allan daginn í brekkunni og var að bíða eftir góðu mómenti. Það kom svo seinna um kvöldið þegar við vorum ein í göngutúr. Dásamlega skemmtilegt og virkilega gaman að fagna með góðum vinum síðar um kvöldið,“ segir Kristín. 

Hvernig gekk undirbúningurinn fyrir brúðkaupið?

„Undirbúningurinn gekk súper vel, allavega svona eftirá að hyggja. Fyrstu tölvupóstarnir voru annars vegar til Reykjavík Cocktails, sem eru að öðrum ólöstuðum alveg geggjaðir í öll partí, og hins vegar til Emmsjé Gauta til að skemmta, en hann er auðvitað algjör snillingur. Það sýnir kannski aðeins áherslurnar okkar að þetta hafi verið fyrstu snertipunktarnir, en svo fórum við að pæla í prest, kirkju, mat og sal.“

„Við ætluðum fyrst að gifta okkur árið 2020, en það frestaðist hjá okkur eins og svo mörgum öðrum. Undirbúningurinn hófst því árið 2019, en við vorum alls ekki á fullu í þrjú ár. Þetta voru svona síðustu mánuðirnir bara fyrir brúðkaup þar sem maður var að spá svolítið í þessu og gera og græja.“

Átti rólegan morgun fyrir brúðkaupið

Kristín og Úlfar giftu sig á blíðviðrisdegi í byrjun júní í Dómkirkjunni í Reykjavík. Kristín hafði innritað sig á Hótel Borg daginn áður og því vöknuðu brúðhjónin sitt í hvoru lagi um morguninn. „Það var frábær ákvörðun, þá losnaði ég alveg frá því að vera að verkstýra börnunum í sturtu og pæla í krumpum á skyrtum. Ég gat valhoppað um áhyggjulaus í miðbænum, farið í rólegheitum í greiðslu og laumað auka kjólnum mínum niður í Módern án þess að Úlfar yrði þess var,“ segir Kristín. 

„Úlfar var heima með börnunum að græja sig, en svo …
„Úlfar var heima með börnunum að græja sig, en svo komu foreldrar hans til hans og áttu góða stund. Á meðan var ég í förðun uppi á hótelherbergi og mæður okkar, systur og dóttir okkar komu til mín í létt skál.“ Ljósmynd/Aldís Páls

„Snilldin var líka að geta labbað yfir í kirkjuna þegar tvær mínútur voru í athöfn. Það var ekkert smá gaman að labba hjá Austurvelli í dásamlegu veðri, garðurinn var iðandi af lífi og ég, pabbi og börnin skottuðumst þar í gegn í fullum skrúða,“ segir Kristín. 

Kristín á leið í kirkjuna ásamt föður sínum og börnum.
Kristín á leið í kirkjuna ásamt föður sínum og börnum. Ljósmynd/Aldís Páls

Kristín segir veisluna hafa heppnast gríðarlega vel, en að borðhaldi loknu stigu á svið frábært tónlistarfólk sem tryllti lýðinn langt fram eftir. „Við eigum síðan svo mikið af skemmtilegum vinum og góðu fólki í kringum okkur sem sá um að skemmta fólki með ræðum og atriðum. Jón Jónsson kom og skemmti og söng undir fyrsta dansinum, en síðar um kvöldið tók hljómsveitin Sykur við og loks Emmsjé Gauti. Plötusnúðurinn Jay-O sá um að halda stemmningunni uppi þess á milli og loka kvöldinu,“ segir hún.

Hvað stendur upp úr eftir brúðkaupsdaginn?

„Hvað við eigum mikið af frábæru fólki í kringum okkur sem lögðu sig fram til að aðstoða við að láta þetta gerast. Það eru mörg handtökin sem þarf að vinna, sérstaklega þegar maður breytir einu stykki húsgagnaverslun í veislusal og erum við óendanlega þakklát þeim sem aðstoðuðu okkur þar.“

„Svo eru það verkefni eins og til dæmis veislustýring sem …
„Svo eru það verkefni eins og til dæmis veislustýring sem systir mín og vinur okkar Úlfars negldu eins og þau hreinlega ynnu við þetta.“ Ljósmynd/Aldís Páls

Var eitthvað sem kom á óvart?

„Það kom mér kannski aðeins á óvart hvað búðin varð að flottum veislusal og hvað það gekk allt vel upp. Úlfar hafði alltaf trú á þessu en ég átti stundir þar sem mér fannst þetta svolítið bras og var ekki alveg að sjá þetta fyrir mér.“

Breyttu Módern í töfrandi veislusal

Þegar kom að því að velja veislusal höfðu Kristín og Úlfar sterkar skoðanir á því hvernig salurinn væri. „Eftir að hafa skoðað nokkra sali komumst við að þeirri niðurstöðu að gera þetta sjálf,“ segir Kristín. 

„Okkur langaði að gera eitthvað aðeins öðruvísi, og Módern er …
„Okkur langaði að gera eitthvað aðeins öðruvísi, og Módern er auðvitað mjög stór partur af okkar lífi svo þetta var skemmtileg lending.“ Ljósmynd/Aldís Páls

„Lykillinn að þessu öllu var að fá aðstoð frá fólki sem veit hvað það er að gera. Luxor kom og hreinlega sá um að gera verslunina að skemmtistaðnum sem hún varð að. Þau drapperuðu og stúkuðu af salinn eins og við vildum, settu upp svið, skjái, sáu um lýsingu, komu með rauðan dregil og eldstæði sem gerði útisvæðið æðislegt. Luxor var einnig með tæknimann á staðnum sem sá um að allt gengi smurt fyrir sig enda allt upp á tíu,“ bætir hún við. 

„Múlakaffi sá um allar veitingar og þjónustu ásamt öllu sem …
„Múlakaffi sá um allar veitingar og þjónustu ásamt öllu sem kom að borðhaldinu, en við heyrðum mikið af því að maturinn hafi verið svakalega góður.“ Ljósmynd/Aldís Páls

Afgreiðsluborði verslunarinnar var breytt í glæsilegan bar þar sem Reykjavík Cocktails raðaði út kokteilum. „Kokkarnir og þjónarnir voru með aðstöðu inn á lager, hluti sýningarsalsins var setustofa með sófum, stólum og háum kokteilaborðum sem henta vel í fordrykk,“ útskýrir Kristín. 

„Við settum fjólubláa lýsingu í hillurnar á bak við afgreiðsluborðið …
„Við settum fjólubláa lýsingu í hillurnar á bak við afgreiðsluborðið og fylltum af flöskum og glösum, svona eins og alvöru börum sæmir.“ Ljósmynd/Aldís Páls

„Þegar kom að því að setjast var opnað fyrir þann hluta sem borðhaldið var, en setið var til borðs og voru gestirnir um 140 talsins,“ segir Kristín. 

„Við erum ekki mikið eftirréttarfólk, svo við völdum að bjóða …
„Við erum ekki mikið eftirréttarfólk, svo við völdum að bjóða upp á franskar makkarónur og Espresso Martini á línuna eftir matinn.“ Ljósmynd/Aldís Páls

„Við vildum hafa frekar dimmt í salnum og skapa þannig meiri partístemmningu. Loftið í Módern er svart og drapperingin frá Luxor sömuleiðis. Lýsingin var því mjög mikilvæg og breyttist eftir því sem leið á kvöldið,“ bætir hún við. 

„Undir lokin voru einhverskonar partí blikk-ljós og konfetti-bombur á troðnu …
„Undir lokin voru einhverskonar partí blikk-ljós og konfetti-bombur á troðnu dansgólfi þar sem fólk skemmti sér fram eftir nóttu.“ Ljósmynd/Aldís Páls

„Lokaútkoman var akkúrat það sem við vildum“

Aðspurð segir Kristín þau hjónin vera heppin að vera með ólíka styrkleika og því hafi verkefnaskiptingin þeirra á milli gengið afar vel. „Ég sá um alla skipulagningu og „to-do“ lista á meðan Úlfar var meira skapandi og sá um upplifun og útlit,“ segir Kristín. 

„Við unnum því mjög vel saman að þessu og lokaútkoman …
„Við unnum því mjög vel saman að þessu og lokaútkoman akkúrat það sem við vildum.“ Ljósmynd/Aldís Páls

Hvaðan var fatnaðurinn ykkar?

„Úlfar var í svörtum smóking sem strákarnir í Suit Up eiga heiðurinn af. Ég fór ásamt mömmu minni og systur í brúðarkjólaverslun í Flórída síðustu jól og keypti mér kjól þar. Snillingarnir í Loforð sáu síðan um að sníða hann aðeins til fyrir mig. Ég keypti svo líka auka kjól til að fara í fyrir fyrsta dansinn og partíið.“

„Úlfar vissi strax í hverju hann vildi vera, á meðan …
„Úlfar vissi strax í hverju hann vildi vera, á meðan ég vissi meira hvað ég vildi ekki í þeim efnum. Tónlistin og lagaval í kirkjunni var hans og heildarupplifunin í salnum var hans útfærsla.“ Ljósmynd/Aldís Páls

Hver sá um hár og förðun?

„Anna Ósk á Unique sá um hárið, en hún er algjör snillingur. Það var svo Kristjana Guðný, förðunarfræðingur sem sá um förðunina - algjör fagmaður og svo yndislega dásamleg.“

Kristín segir það skipta gríðarlega miklu máli að vera með góðan ljósmyndara á stóra deginum. „Þessi dagur er svo mikil gleðisprengja, svo það að geta upplifað hann aftur og aftur í gegnum ljósmyndir er æðislegt,“ útskýrir hún. 

„Við vorum svo heppin að hún Aldís Páls var til …
„Við vorum svo heppin að hún Aldís Páls var til í að taka þátt í deginum með okkur, en hún er hæfileikabúnt með svo góða nærveru sem gott er að hafa með sér á svona degi.“ Ljósmynd/Aldís Páls

Drauma brúðkaupsferðin framundan

Kristín og Úlfar voru ekki með brúðargjafalista eins og margir aðrir, enda með gott aðgengi að fallegri heimilisvöru. „Við vorum hins vegar svo heppin að margir gestir gáfu okkur peningagjöf sem var og er eyrnamerkt drauma brúðkaupsferðinni. Við ætlum því heldur betur að fara í brúðkaupsferð, en það verður líklegast ekki fyrr en 2024,“ segir Kristín. 

Er eitthvað sem þið hefðuð viljað vita fyrir brúðkaupið?

„Bara hvað það er ótrúlega skemmtilegt að gifta sig. Við hefðum kannski verið löngu búin að þessu ef við hefðum vitað hvað það er gaman.“

Eins og sést var gríðarleg stemmning og mikið stuð í …
Eins og sést var gríðarleg stemmning og mikið stuð í brúðkaupi Kristínar og Úlfars. Ljósmynd/Aldís Páls

Eruð þið með einhver ráð fyrir pör í brúðkaupshugleiðingum?

„Við tókum þrjár nætur á hóteli. Fyrstu nóttina var ég ein, svo tók við brúðkaupsnóttin og svo ein auka nótt. Það var algjörlega dásamlegt að vakna daginn eftir brúðkaupið og fara ekki beint í að tékka sig út af hótelinu, heldur áttum við heilan dag í að rölta um miðbæinn, fara í dögurð, opna gjafir og njóta. Auka nótt á hóteli er því klárlega okkar ráð.“

Kristín og Úlfar mæla hiklaust með auka nótt á hóteli.
Kristín og Úlfar mæla hiklaust með auka nótt á hóteli. Ljósmynd/Aldís Páls
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál