Frumkvöðlar og sprotar framtíðarinnar komu saman í Grósku hugmyndahúsi á kynningu Gulleggsins, stærstu frumkvöðlakeppni Íslands, á dögunum. Kynningin fór fram í göngugötu hússins þar sem tónlistarmaðurinn og rapparinn Daniil, sem var valinn nýliði ársins 2023 á Hlustendaverðlaununum, tryllti lýðinn.
800 áhugasamir háskólanemendur flykktust í Grósku til að kynna sér Gulleggið og starfsemi helstu bakhjarla þess, en íburðarmiklir básar fylltu göngugötuna. KLAK – Icelandic Startups í samstarfi við Nýsköpunar- og frumkvöðlanefnd Háskóla Íslands héldu þessa stærstu vísindaferð hér á landi til að kynna Gulleggið 2024. Það var framkvæmdastjóri KLAK, Ásta Sóllilja Guðmundsdóttir, sem setti viðburðinn í ár og það fyrir fullum hátíðarsal Grósku.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, sem oft hefur verið kölluð „ráðherra Gulleggsins“, steig á svið með hvetjandi orðræðu um nýsköpun og Gulleggið, en Magnús Daði Eyjólfsson, verkefnastjóri Gulleggsins, kynnti hana á svið eftir að hafa farið yfir helstu lykilatriði hvað varðar þátttöku.
Háskólanemendur fengu einnig að heyra frá Sigurði Ólafssyni, framkvæmdastjóra Gróðurhússins, en hann flutti erindi um sprotaumhverfið og Magnúsi Má Þorgeirssyni, teymisleiðtoga hugbúnaðar í vefdeild Landsbankans, sem sagði nemendum frá atvinnutækifærum og nýsköpun innan bankans. Landsbankinn hefur tekið þátt í frumkvöðlaverkefninu frá upphafi og veitir aðalverðlaunin.
Meðal annarra bakhjarla sem voru með kynningarbása í göngugötu Grósku voru Háskóli Íslands, Háskólinn í Reykjavík, Háskólinn á Akureyri, Össur, Origo, KPMG, Crowberry Capital, Marel, Hugverkastofa og Coca Cola Europacific Partners á Íslandi.