Slegið var upp veislu í verslun 66°Norður á Hafnartorgi í gærkvöld í tilefni af því að Veislan snýr aftur á skjá landsmanna þann 15. júní næstkomandi. Margt var um manninn í frumsýningarteitinu og myndaðist góð stemning þegar klippur úr þáttunum voru spilaðar.
Gunnar Karl Gíslason og Sverrir Þór Sverrisson, jafnan kallaður Sveppi, leiða áhorfendur í ævintýraferðir um hinar ýmsu eyjar landsins í þriðju þáttaröð Veislunnar sem sýnd verður á RÚV.
Á ferðalagi sínu um stórbrotið landslag eyjanna og sveitanna þar í kring heimsækja þeir meðal annars minna þekkta staði, kynnast áhugaverðu fólki og fræðast um menningu, listir, mat og nýsköpun á sviði auðlindanýtingar okkar hér á Fróni.
Á leið sinni á hvern stað safna þeir kunnáttu og hráefnum til veisluhalda sem Gunnar Karl matreiðir í lok hvers þáttar af sinni alkunnu snilld með dyggri aðstoð heimamanna. Oftar en ekki fáum við einnig að njóta tónlistar þeirra sem dvelja á staðnum á meðan hópur fólks nýtur afraksturs ferðalagsins í sannkallaðri veislu.