Glæsilegt frumsýningarboð fór fram á Vinnustofu Kjarval þar sem hulunni var svipt af einstöku samstarfi Bang & Olufsen og listamannsins Ella Egilsson Fox. Kynnt var sérútgáfa af Beosound A9-hátalaranum með verki eftir listamanninn en aðeins 50 númeruð og árituð eintök voru framleidd.
Viðburðurinn markar einnig stór tímamót en í ár fagnar Ormsson tíu árum sem umboðsaðili Bang & Olufsen á Íslandi og Bang & Olufsen fagnar 100 ára afmæli sínu.
„Elli byrjaði sem tónlistarmaður og hefur alltaf haft takt og hljóð í blóði sínu. Hann hefur sjálfur talað um hvernig tónlistin mótar litina og formin í málverkum hans. Þess vegna er þetta verkefni, þar sem myndlist og hágæða hljóð ásamt einstakri hönnun Bang & Olufsen mætast, eðlilegt næsta skref. Við erum afar stolt af samstarfi okkar á þessum merku tímamótum: 10 ár með B&O á Íslandi, 100 ár B&O á heimsvísu og 103 ár Ormsson,“ sagði Kjartan Örn Sigurðsson, forstjóri Ormsson, í fréttatilkynningu.
Á viðburðinum var jafnframt tilkynnt að málverkið, sem Elli málaði sérstaklega fyrir verkefnið, verði selt á uppboði á heimasíðu Ormsson í desember. Allur ágóði sölunnar rennur til styrktar krabbameinssjúkum börnum.
Viðburðurinn var stjörnum prýddur en hjónin María Birta Bjarnadóttir Fox og Elli Egils Fox fögnuðu ásamt Frosta Logasyni, Eyþóri Arnalds, Evu Laufey Kjaran og Loga Geirssyni.