Tölvufyrirtækið OK, sem varð til við sameiningu Opinna kerfa og PREMIS, hélt á dögunum ráðstefnu sem bar yfirskriftina Lausnir sem skapa forskot. Færri komust að en vildu á ráðstefnuna sem haldin var á Hilton Reykjavík Nordica.
Stjórnendur og tæknisérfræðingar hlýddu á fyrirlestra um hvernig fyrirtæki geta aukið nýsköpun með gervigreind, vefveiðar, sýndarumhverfi og hvernig hægt sé að nýta sjálfbærni sem samkeppnisforskot.
Þar mættu Bylgja Ýr Tryggvadóttir, deildarstjóri sölu- og viðskiptastýringar Mílu, Þorvaldur Harðarson einn stofnenda Boðleiðar, Oddgeir Reynisson fyrrverandi útibústjóri Arion banka í Fjallabyggð og skemmtikrafturinn og lögfræðingurinn Bergur Ebbi Benediktsson.
„Áhuginn á ráðstefnunni fór langt fram úr björtustu vonum. Fyrirlesararnir voru allir mjög góðir, en það var sérstaklega mikill áhugi á erindi Christiaan W. Lustig, sem er meðal fremstu sérfræðinga Evrópu í stafrænni starfsupplifun og framtíð vinnustaða. Ráðstefnan var jafnframt góður vettvangur fyrir stjórnendur og sérfræðinga í tækni til að fá innsýn í það sem er efst á baugi í upplýsingatækni og þróun vinnuumhverfisins,“ segir Ísold Einarsdóttir, markaðsstjóri OK.