Karlarnir í viðhaldinu og konurnar sjá um þvottinn

Hér sést verkaskipting kynjanna.
Hér sést verkaskipting kynjanna.

Íslenskar konur sjá um að þrífa skítinn undan öðrum allan ársins hring meðan karlarnir ómaka sig við að fara í Elko að kaupa millistykki, bora í vegg og slá blettinn á sumrin. 

Þetta kemur fram í niðurstöðum úr alþjóðlegri könnun (International Social Survey Programme) sem var lögð fyrir á Íslandi af Félagsvísindastofnun 2013-2014.

Einfalt tilviljunarúrtak var tekið úr íbúum höfuðborgarsvæðisins, en lagskipt klasaúrtak fyrir íbúa landsbyggðar, og spurt var út í verkaskiptingu kynjanna á Íslenskum heimilium. 

Þóra Kristín Þórsdóttir, doktorsnemi í félagsfræði, var ein þeirra sem stóðu að rannsókninni en hún tók sérstaklega fyrir fólk í sambúð þar sem bæði voru í fullu starfi (vinna 35 stundir eða meira á viku). Að auki skoðaði hún sérstaklega foreldra í þessum hópi, þ.e. fólk með börn undir 18 ára á heimilinu.

Niðurstöðurnar voru mjög skýrar. Konur sjá að stórum hluta um heimilisstörf en munurinn er mest áberandi þegar kemur að viðhaldi heimilisins og þvotti. Karlar sjá um viðhald en konurnar setja í vél.

„Þetta hlutfall er reyndar þekkt, Ísland er ekki sérstakt að þessu leyti en munurinn á þessu tvennu er að það er umtalsvert meira álag að vinna við þvotta,“ segir Þóra Kristín.

„Þvotturinn er eitthvað sem verður að gera reglulega, sérstaklega þegar fólk er með börn, þá kemur ekkert annað til greina. Viðhald heimilisins er öðruvísi því það er hægt að fresta hlutum þar og mjög oft er þriðji aðili fenginn til að framkvæma. Þannig að hlutverk karlsins er kannski fólgið í að fara í Elko þegar hann hefur tíma eða hringja í píparann. Reyndar er líka hægt að fara með þvottinn í þvottahús en það eru fæstir sem leggja út fyrir þeirri þjónustu,“ segir hún.

Karlarnir skapandi í eldhúsinu og fá frekar hrós

Í könnuninni kemur fram að 50% kvenna sjái alfarið um eldamennsku á heimilinu en 19% karla. 31% segist skipta þessu jafnt á milli sín. 

„Maður hefði kannski átt von á öðruvísi tölum þarna því karlar eru vissulega byrjaðir að elda meira á heimilinu og mikið meira en þeir gerðu áður. Munurinn er kannski sá að yfirleitt þegar karlar elda þá sjá þeir um þetta sérstaka, eins og steikur á tyllidögum og grillmat meðan konur eru að redda matnum daglega. Það er ekkert sérlega skapandi og eiginlega bara meira álag heldur en skemmtilegt,“ segir Þóra og bætir við að flestir viti nú hvernig þessu sé farið með jólasteikina.

„Karlinn fær allt hrósið meðan allir vita að það var hún sem sá um undirbúninginn og meðlætið.“

Æskilegast að ákveða verkaskiptingu í upphafi sambúðar

Þóra nefnir að hefðir fyrir verkaskiptingu í sambúð skapist oft á fyrstu mánuðum sambúðar. Hveitibrauðsdögunum svokölluðu. Þá sé ekki sérlega rómantískt að ræða þrif á heimilinu en engu að síður geti það margborgað sig því eftir að hefðin skapast geti verið erfitt að brjóta hana upp, þrátt fyrir að ósætti sé um verkaskiptinguna. 

„Það er auðvitað ekkert rosalega rómantískt að ræða þrif en það væri flott ef fólk myndi ræða þessi hlutverk reglulega, komast að samkomulagi og fara svo reglulega yfir stöðuna vegna þess að lífið er alltaf að breytast. Bæði vinnutími og tekjur. Ef annar aðili sambandsins tekur flest verkefnin að sér þá getur verið mjög erfitt að snúa hlutverkunum við síðar.“

Ekki miða manninn þinn við aðra karla

Spurð að því hvort íslenskar konur séu almennt sáttar við hlutverkaskiptin segir Þóra Kristín það velta mikið á við hvað sé miðað. 

„Ef þú ert í sambúð með karlmanni og miðar hans framlag til heimilishaldsins við framlag eiginmanna eða sambýlismanna vinkvenna þinna er líklegt að þú verðir sátt en ef þú miðar það sem hann gerir frá degi til dags við það sem þú leggur af mörkum þá er ekki eins líklegt að útkoman verði ásættanleg. Ef það er stefnt að jafnri verkaskiptingu á heimilinu er eðlilegast að miða við að bæði taki jafn mikið að sér,“ segir Þóra.

Hlutastörf óheppileg ef byggja á starfsframa

Þóra nefnir einnig að það sé óheppilegt fyrir konur að vera aðeins í hlutastörfum. 

„Af íslenskum konum á vinnumarkaði eru 60-65% í fullu starfi en restin í hlutastörfum sem er frekar hátt hlutfall miðað við það sem þekkist erlendis. Ég hef oft velt því fyrir mér hvort konurnar eru í hlutastörfum af því þær hafa svo mikið að gera við að sinna börnum og heimili eða hvort annríkið við umönnun og heimilisstörf geri það að verkum að það er ekki tími fyrir fullt starf á vinnumarkaði. Hinsvegar er það ljóst að ef markmiðið er að komast áfram á vinnumarkaði er ekki heppilegt að vinna bara hlutastarf,“ segir Þóra Kristín og nefnir í þessu samhengi að skilnaðartíðni og sambúðarslilt séu mjög algeng á Íslandi og því ekki mjög æskilegt, hvorki fyrir konur né karla, að reyna að byggja upp frama á því að vinna hlutastarf. 

„Ef markmiðið er að komast áfram á vinnumarkaði er erfiðara að gera það ef þú ert ekki í fullu starfi. Tölfræðin sýnir að ef þú byrjar í hjónabandi þá er töluverð hætta á að það endi og ef þú átt börn þá eru góðar líkur á því að þú þurfir fyrr eða síðar að sjá um þau ein - þannig að það er á allann hátt praktískara fyrir konur að fara í hálaunastörf og reyna að velja störf sem borga betur en hitt.“

Íslenskir foreldrar undir meira álagi

Þóra Kristín segir aðstæður íslenskra foreldra almennt ekki mjög góðar þegar kemur að því að sameina fjölskyldu og atvinnulíf og hér á landi erum við undir meira vinnuálagi en foreldar annars staðar á Norðurlöndum. 

„Íslendingar hafa ekki staðið sig almenninlega í því að líta til nágrannaríkjanna, kanna hvað fólk er að gera og hvernig málum er háttað, reyna að velja það besta úr og gera eitthvað svipað. Nú hefur til dæmis farið rosaleg orka í að stytta framhaldsskólanámið, sem er vissulega góð hugmynd, en væri ekki mikilvægara að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla? Hvort tveggja snýr að því að koma fólki fyrr á vinnumarkaðinn og væri því ekki heppilegra að greiða leið þeirra sem eru þegar komnir á vinnumarkað?“ spyr Þóra Kristín að lokum. 

Íslensk kona við þvottalaugarnar í Laugardal árið 1932.
Íslensk kona við þvottalaugarnar í Laugardal árið 1932. Mynd: Willems van de Poll / Nationaal Archief. Hollandi
Þóra Kristín Þórsdóttir, doktorsnemi í félagsfræði.
Þóra Kristín Þórsdóttir, doktorsnemi í félagsfræði. Mynd: Úr einkasafni
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál